Líahóna
Missið ekki af trúboði fyrir eldra fólk
Júlí 2024


„Missið ekki af trúboði fyrir eldra fólk,“ Líahóna, júlí 2024.

Eldast trúfastlega

Missið ekki af trúboði fyrir eldra fólk

Sáttmálar okkar bjóða okkur að þjóna hvert öðru, standa sem vitni Guðs og hugga þá sem huggunar þarfnast. Þjónusta sem eldri trúboði er ein leið til að uppfylla þessi boð, blessa eigið líf og þeirra sem við þjónum.

Ljósmynd
eldri hjón flýta sér um borð í flugvél

Nú eru 34.000 eldri trúboðar í fastatrúboði eða þjónustutrúboði, sem upplifa mikla gleði á ferðalagi sínu eins og yngri starfssystkin þeirra. Einhleypir og hjón geta þjónað sem eldri trúboðar í ýmsum fjölbreyttum verkefnum.

Og þörfin er mikil. Á aðalráðstefnu í október 2023 hvatti öldungur Ronald A. Rasband í Tólfpostulasveitinni eldri meðlimi til að hugleiða að fara í trúboð fyrir eldra fólk. Hann spurði: „‚Hvað eruð þið að gera á þessu stigi lífs ykkar?‘ Það er svo margt sem eldri trúboðar geta gert sem enginn annar getur gert. Þið eruð undravert afl til góðs, reynd í kirkjunni og undir það búin að hvetja og bjarga börnum Guðs.“

Russell M. Nelson útskýrði hvernig eldri trúboðar eru kallaðir og sagði: „Tækifæri fyrir eldri trúboða eru fjölbreytt og víðtæk. Köllun þeirra til þjónustu er opinberlega gerð eftir bænheita íhugun um starfsbakgrunn þeirra, tungumálakunnáttu og persónulega kosti. Af öllum hæfniskröfum til að þjóna, gæti þráin til að þjóna verið mikilvægust.“ Hann lýsti einnig framlagi eldri trúboða sem „óviðjafnanlegu“.

„Sumir eldri trúboðar starfa á trúboðsskrifstofunni eða með BYU–Pathway eða við mannúðarverkefni sem hafa skýran ramma,“ sagði eldri trúboði. „Við höfum sjálf þjónað í nokkrum slíkum trúboðum. Við vorum því eilítið óviss þegar við vorum kölluð í MLS-trúboð (stuðningur við meðlimi og leiðtoga). Þegar við hófumst handa, kunnum við vel að meta sveigjanleikann og sköpunarfrelsið sem slíkt trúboð veitti okkur til að heimsækja meðlimi og styrkja greinar á svæðinu.“

Eldri systir sem þjónar í gestamiðstöð sagði: „Þegar eiginmaður minn lést, var ég ekki viss hvernig ég ætti að verja tímanum. Nú hef ég eitthvað að gera, staði til að heimsækja, fólk til að hitta. Fólk reiðir sig á mig.“

„Það er engin ástæða til að vera smeyk, jafnvel þótt þið hafið ekki þjónað þegar þið voruð yngri,“ sagði systir nokkur eftir að hafa snúið aftur heim af trúboði fyrir eldra fólk. „Þetta er nýtt hlutverk fyrir alla. Við lærðum öll saman að reiða okkur á Drottin og einnig hvert annað og komumst að því að ‚fyrir hið smáa og einfalda verður hið stóra að veruleika‘ [Alma 37:6].“

Blessanir fyrir trúboða

Trúboð fyrir eldra fólk er jafn fjölbreytt og eldri trúboðarnir. Þau eru alls konar – hvert og eitt með eigin áskoranir, gleði og persónulega kosti. En allar tegundir trúboða fyrir eldra fólk hafa nokkra sameiginlega eiginleika: þýðingarmikið ritningarnám, tíðar og einlægar bænir, grípandi þjónustu, viðvarandi leiðsögn heilags anda og einstakt tækifæri til að láta að sér kveða.

„Mér hefur aldrei fundist ég jafn nálægur Drottni og þegar við þjónuðum sem eldri trúboðar,“ sagði eldri trúboði. „Ég vissi að sumu gæti ég ekki stjórnað, sérstaklega heima hvað varðar börnin og barnabörnin. Ég setti hlutina því í hendur Drottins. Og hann blessaði fjölskyldu okkar. Vikulegir Zoom-fundir gerðu það að verkum að við höfum aldrei verið jafn náin barnabörnum okkar. Við ræddum hluti sem þau hefðu aldrei haft áhuga á áður fyrr. Þótt það gerist ekki hjá öllum, þá kom í okkar tilfelli einn sonur aftur til kirkju á meðan við þjónuðum og annar sonur giftist aftur og var síðar innsiglaður í musterinu.“

Annar trúboði sagði: „Daglegt ritningarnám, einkanám og með félaga okkar, varð þýðingarmeira þar sem við vorum að leita leiða til að tileinka okkur ritningarnar, ekki bara lesa þær. Ég var ekki bara á höttunum eftir ‚vegalengd‘ eins og ég hafði stundum gert áður. Í þjónustu okkar virtist ég stöðugt vera að vísa í ritningarvers sem við lásum þann daginn eða þá vikuna, svo ég byrjaði að búast við því að nota nýlega lesin ritningarvers á hverjum degi. Ég var virkari í ritningarnámi mínu og gerði ráð fyrir að ég myndi vísa til einhvers sem ég hafði lesið þann daginn.“

„Að þjóna í trúboði hefur verið sem ferskur vindur í líf mitt,“ sagði eldri systir. „Það hefur gefið mér þýðingarmikinn tilgang, nýjan þrótt til að lifa og eitthvað að gera fyrir utan að leika golf eða passa barnabörnin.“

„Þjónusta er tvístefnugata,“ sagði annar eldri trúboði. „Þegar við hugsuðum – örlítið of framhleypin – um hve mikið við værum að gera fyrir aðra, þá náðum við ekki miklum árangri. En þegar við áttuðum okkur á hversu mikið við vorum sjálf að læra og vaxa, þá breyttumst ekki bara við, heldur virtust aðrir hafa meiri áhuga á því sem við sögðum og gerðum. Við hentum brauðmolum í sjóinn og fannst eins og þeir bærust aftur smurðir.“

Sterkari sambönd

Þegar fólk þjónar sem eldri trúboðar þróar það djúp sambönd sem vara út alla ævi. Margir verða nánir fólkinu sem þau þjóna. Þau rækta einnig sterk sambönd við aðra trúboða og staðarleiðtoga. „Við sköpuðum vináttu við yngri trúboða, önnur hjón og fólk sem við hefðum aldrei hitt, hefðum við verið heima,“ sagði einn eldri trúboði. „Við höldum enn sambandi við hvert annað. Á tíma þegar ég hélt að allir dagar yrðu eins, þá veitti það að fara í trúboð okkur nýtt upphaf og nýja vini til að deila ferðinni með.“

Eldri trúboðar geta líka hjálpað hjónum að efla hjónabandið. Þegar fólk sest í helgan stein eða minnkar við sig vinnu, gæti hjónum fundist þau þurfa að endurhugsa sameiginlegan tilgang þar sem þau eru væntanlega ekki lengur að ala upp börn á heimilinu. Þau gætu einnig verið vön því að vera á eigin svæði með eigin stundaskrá. Aldur eða starfslok geta breytt því. Það að byrja nýja, sameinaða upplifun í trúboði fyrir eldra fólk, hvort sem það er heiman frá eða í fastatrúboði, getur skapað nýjan tilgang fyrir hjón og styrkt trúnaðartraust þeirra á milli.

„Gamalt orðatiltæki segir að við starfslok fáir þú helming tekna þinna og tvöfaldan skammt af eiginmanni þínum miðað við það sem áður var,“ sagði systir nokkur hlæjandi. „Að þjóna í trúboði að heiman, veitti okkur tækifæri til að ræða þessar breytingar á annan hátt en við hefðum getað gert fyrir trúboðið. Eftir að eiginmaður minn lét af störfum, létum við hvers kyns ágreining krauma. Núna, í stað þess að fara í sitt hvora áttina og hunsa hvort annað, viljum við ekki hafa neikvæð áhrif á verk Drottins svo við ræðum það sem truflar okkur niður í kjölinn.“

„Eiginkona mín og ég byrjuðum að tala saman á hverju kvöldi um þá mildu miskunn sem við fundum á hverjum degi í trúboði okkar,“ sagði einn eldri trúboði. „Það gerði okkur ekki einungis kleift að einblína frekar á það sem gerðist en á okkur sjálf, heldur gaf það okkur líka tækifæri til að sjá hið góða umhverfis okkur, jafnvel þótt hluti dagsins hafði ekki farið vel.“

„Og vegna þess að þetta var það síðasta sem við gerðum á hverju kvöldi,“ bætti eiginkona hans við, „fórum við afslappaðri í háttinn og sáttari en við höfðum verið í mörg ár. Það hjálpaði mér meira að segja að sofa betur!“

Blessanir þeirra sem þau þjóna

Lífið gengur í sveiflum – það eru góðir dagar og slæmir. Það á einnig við um trúboð. En það að þjóna Drottni felur í sjálfu sér í sér mikil laun, ekki bara eftir að trúboðinu er lokið, heldur einnig í trúboðinu. Eins og Mordekaí frændi Esterar sagði við hana: „Hver veit nema þú hafir orðið drottning nú vegna þessara atburða?“ (Esterarbók 4:14; leturbreyting hér.) Er þau líta yfir farinn veg þjónustu sinnar, hefur mörgum eldri trúboðum fundist þeim vera úthlutað verkefni eða svæði þar sem þau voru sérlega hæf til að uppfylla ákveðnar þarfir.

Ég upplifði milliliðalaust það mikla góða sem eldri trúboðshjón geta áorkað þegar ég bjó í Louisiana, Bandaríkjunum. Stuttu eftir að vera kallaður til þjónustu í háráði New Orleans-stikunni í Louisiana, var mér úthlutað að styðja við Port Sulphur-greinina. Í greininni voru einungis örfáir virkir prestdæmishafar. Konur sem áttu eiginmenn sem ekki voru í kirkjunni gegndu flestum kennslu- og leiðtogaköllunum. Öðru hverju var eldri trúboðum eða stikuleiðtogum úthlutuð greinin, en með takmörkuðum árangri við að ná til þessara fjölskyldna sem að hluta til voru meðlimir.

Þá var eldri hjónum frá Wyoming, Bandaríkjunum, úthlutað að styðja greinina. Þau höfðu í mörg ár verið bændur og unnið í ostagerð nærri heimili sínu. Vegna bakgrunns síns og lífsreynslu, tengdu þau auðveldlega við margt fólk í Port Sulphur sem starfaði í olíuiðnaðinum. Hjónin vörðu miklum tíma við að efla sambönd við þessar tilteknu fjölskyldur og þjóna þeim. Vegna þjónustu þeirra og kærleika var greinin í Port Sulphur sérlega styrkt og blessuð á meðan dvöl þeirra stóð yfir, vegna trúfastrar þjónustu þeirra. Nokkrir karlar úr þessum fjölskyldum gengu í kirkjuna, sem efldi öldungasveitina og greinina.

Eldri trúboðar blessa líf – sitt eigið og annarra. Ekki missa af dásamlegu tækifæri til að þjóna og vaxa!

Heimildir

  1. Ronald A. Rasband, „Hversu mikil skal gleði yðar verða,“ aðalráðstefna, okt. 2023.

  2. Russell M. Nelson, „Eldri trúboðar og fagnaðarerindið,“ aðalráðstefna, okt. 2004.

  3. Russell M. Nelson, „Prédika fagnaðarboðskap friðarins,“ aðalráðstefna, apr. 2022.

  4. „Gleði. Von. Styrkjandi kraftur frá Guði. Vernd frá freistingu. Lækning. Allt þetta – og meira (s.s. fyrirgefning synda) – fellur á okkur frá himni, þegar við miðlum fagnaðarerindinu“ (Marcus B. Nash, „Haldið ljósi yðar á lofti,“ aðalráðstefna, okt. 2021).

Prenta