Líahóna
Dásamlegur undirbúningur fyrir lífið
Júlí 2024


„Dásamlegur undirbúningur fyrir lífið,“ Líahóna, júlí 2024.

Dásamlegur undirbúningur fyrir lífið

Það sem piltar og stúlkur læra í trúboði mun blessa líf þeirra að eilífu.

Ljósmynd
tveir ungir karlkyns trúboðar ganga meðfram götu

Allt frá unga aldri var ég heillaður af eldmóði trúboðanna. Á sakramentissamkomu í litlu greininni minni í Minas, Úrúgvæ, gaf vitnisburð og miðlaði tilfinningum sínum um trúboð sitt. Orð hans dvöldu í huga mínu og hjarta.

„Dag einn,“ sagði ég við sjálfan mig, „mun ég þjóna í trúboði.“

Nokkru síðar, þegar ég var prestur, fékk ég tækifæri til að vera með trúboðunum er þeir kenndu. Það var ógleymanleg upplifun að vera trúboði 16 ára!

Þegar ég varð 18 ára, komu nokkur ungmenni í greininni minni aftur úr trúboði, þar á meðal Anna systir mín, sem sneri aftur úr trúboði í Argentínu. Upplifun þeirra og vitnisburðir snertu einnig hjarta mitt.

Þegar 19 ára afmæli mitt nálgaðist, vildi ég bjóða fram nafn mitt til að fara og boða fagnaðarerindi frelsarans og þjóna í víngarði hans (sjá Kenning og sáttmálar 75:2). Ég undirbjó mig og sendi inn trúboðsumsóknina. Þegar köllun mín barst, opnaði ég bréfið sem Spencer W. Kimball forseti hafði undirritað og las að ég myndi þjóna í Úrúgvæ/Paragvætrúboðinu. Ég myndi þjóna í eigin landi! Ég var glaður yfir tækifærinu að kunngera „gleðitíðindin um mikinn fögnuð, já, hið ævarandi fagnaðarerindi“ (Kenning og sáttmálar 79:1).

Ég kom á trúboðsskrifstofuna eftir tveggja tíma rútuferð til Montevídeó, Úrúgvæ. Trúboðsforsetinn setti mig í embætti sem trúboða fyrir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og úthlutaði mér félaga. Um eftirmiðdaginn byrjuðum við að banka á hurðar.

Í upphafi voru stundir þar sem trúboðið var ekki jafn spennandi og ég hafði ímyndað mér. Sem betur fer var félagi minn hlýðinn og duglegur og hjálpaði mér að uppgötva gleði þess að gleyma mér í þjónustu Drottins. Fordæmi hans blessaði mig í gegnum allt trúboðið mitt.

En undirbúningur minn til að vera fulltrúi frelsarans Jesú Krists hafði byrjað löngu áður.

Þetta hófst allt á bindisnælu

Í janúar 1962, þegar ég var sex ára, komu trúboðar við í skartgripaverslun föður míns til að fá bindisnælu í stað annarrar, sem einn þeirra hafði glatað. Þegar þeir voru þar, heyrðu þeir einhvern spila á gítar. Þegar þeir spurðust fyrir um það, bauð faðir minn þeim að koma inn og hitta vin hans.

Í samtali þeirra spurðu faðir minn og vinur hans trúboðana hvort þeir spiluðu á gítar. Einn öldunganna sagðist spila smávegis. Vinur föður míns rétti honum gítarinn og bað hann að spila. Hann byrjaði að spila nokkur lög og félagi hans söng.

Einföld leit trúboðanna að bindisnælu varð þess valdandi að fjölskyld mín kynntist fagnaðarerindi Jesú Krists. Við urðum góðir vinir trúboðanna og byrjuðum að hlýða á lexíurnar. Sáðkorn fagnaðarerindisins var gróðursett og byrjaði að vaxa, fyrst hjá Elsu móður minni og systrum mínum, Önnu og Stellu, og svo hjá mér.

Allt frá þeim degi hefur ást á trúboðsstarfi vaxið í fjölskyldu minni. Ég þjónaði í trúboði, synir mínir hafa þjónað í trúboði og nú eru barnabörn okkar að hefja undirbúning til að þjóna í trúboði, og eru þar með þriðji ættliður trúboða.

Það er ekki alltaf einfalt að vera trúboði. Það krefst undirbúnings áður en piltur eða stúlka eru reiðubúin að fara á trúboðsakurinn. Hér geta foreldrar, fjölskyldur og kirkjuleiðtogar verið góðar fyrirmyndir og unnið sem liðsheild til að undirbúa ungmennin á meðan þau eru ung.

Ein leið til að hjálpa þeim að undirbúa sig er að deila hagnýtri kunnáttu með þeim. Kunnátta eins og að spara peninga, þvo og strauja þvott, sauma, pússa skó, elda, tala við aðra og þjóna öðrum, mun hjálpa þeim í trúboðinu. Þátttaka í trúarskóli yngri og eldri deildar hjálpar líka í undirbúningnum og fer vel með því sem þau læra heima og í sveitum sínum og námsbekkjum.

Stuðningur okkar ætti að halda áfram á meðan þau eru í trúboði. Það er dásamlegt að heyra þær yndislegu upplifanir sem trúboðar okkar eiga næstum daglega. Við getum einnig verið hluti af þessum upplifunum með því að hafa samband við þá sem þau kenna. Móðir eins trúboðans sem kenndi fjölskyldu okkar hafði til dæmis samband við móður mína og skrifaðist á við hana í mörg ár, sem hjálpaði móður minni að dvelja á sáttmálsveginum.

Þegar við hjálpum trúboðum framtíðarinnar við undirbúning, ættum við að muna að trúboðsstarf er mikið meira en hefð í kirkjunni – það er boð og fyrirmæli frá Drottni (sjá Matteus 28:19). Adam og Evu var í upphafi kennt fagnaðarerindið. Þau kenndu síðan fagnaðarerindið börnum sínum (sjá HDP Móse 5:6–12). „Og þannig var fagnaðarerindið prédikað frá upphafi, boðað með heilögum englum, sem sendir voru úr návist Guðs“ (HDP Móse 5:58).

Þessi prédikun heldur nú áfram með herskara yfir 71.000 trúboða. En við þurfum fleiri, mikið fleiri í framvarðasveitina – heilan herskara trúboða og meðlima.

Ljósmynd
tveir systurtrúboðar á bæn

Hvað við getum lært í trúboði okkar

Þegar ég var í trúboði, vandist ég trúboðsstarfinu og byrjaði að hugsa dýpra um boðskap okkar. Ég hafði alltaf fundið að fagnaðarerindið væri satt, en ég hafði sterka þrá til að vita að það væri satt. Ég baðst fyrir, fastaði, lærði, starfaði og beið svo eftir svari.

Í lexíu dag nokkurn, miðlaði ég frásögn Josephs Smith af Fyrstu sýninni:

„Ég sá ljósstólpa beint yfir höfði mér, skærari en sólin, og hann lækkaði hægt, uns hann féll á mig. …

Þegar ljósið hvíldi á mér, sá ég tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina – Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith—Saga 1:16–17).

Á þessu augnabliki gat ég fundið heilagan anda staðfesta fyrir mér að það sem ég kenndi væri sannleikur. Spámaðurinn Joseph Smith hafði svo sannarlega séð föðurinn og soninn og Mormónsbók er orð Guðs og ásamt Biblíunni vitnar hún um frelsarann. Hvílíkan frið sem þetta færði sál minni. Jafnvel áratugum síðar, vermir það enn hjarta mitt.

Trúboð mitt var líkt því að hljóta andlega meistaragráðu. Það sem piltar og stúlkur læra í trúboði mun blessa líf þeirra að eilífu. Þau læra meðal annars:

  • Hvernig á að læra, biðja, kenna og iðka kenningar fagnaðarerindisins daglega.

  • Hvernig á að búa með félaga 24 klukkustundir sólarhringsins.

  • Hvernig á að hirða um heilsuna.

  • Hvernig á að búa til áætlanir.

  • Hvernig á að bæta leiðtogahæfileika.

  • Hvernig á að tengja almennilega við annað fólk.

  • Hvernig á að leita, hlusta á og vera leidd af heilögum anda.

Piltar og stúlkur sem þjóna í trúboði verða styrkt og undirbúin til að takast á við áskoranir lífsins, er þau halda áfram að beita því sem þau lærðu í trúboðinu.

Í dag er dagurinn

Ástkær spámaður okkar, Russell M. Nelson, hefur kennt:

„Aldrei í sögu heimsins hefur persónuleg vitneskja um frelsarann verið jafn mikilvæg og brýn fyrir sérhverja mannssál. Hugsið ykkur hve fljótt myndi greiðast úr hinum hrikalegu átökum um allan heim – og í persónulegu lífi okkar – ef við öll veldum að fylgja Jesú Kristi og hlýða kenningum hans.“

Í dag er dagurinn til að sýna hugdirfsku og hvað í okkur býr og miðla fagnaðarerindi Jesú Krists. Í dag er dagurinn fyrir unga fólkið okkar að búa sig undir að þjóna í sveit Drottins í kennslu- eða þjónustutrúboði. Heimurinn þarfnast ykkar! Það eru kné sem styrkja má, armar sem lyfta má og sannleikur sem prédika má (sjá Kenning og sáttmálar 81:5).

Megi eftirfarandi boð frá Drottni hreyfa við okkur til framkvæmda og reisa sannleiksfánann af krafti:

„Sjá, ég segi yður, að það er vilji minn að þér farið. …

Hefjið upp raust yðar sem með lúðurhljómi, og kunngjörið sannleikann í samræmi við opinberanirnar og boðin, sem ég hef gefið yður.

Og ef þér eruð því staðfastir, þá munuð þér … krýndir heiðri og dýrð og ódauðleika og eilífu lífi“ (Kenning og sáttmálar 75:3–5).

Prenta