Líahóna
Árangurssaga trúboða: 60 ár í smíðum
Júlí 2024


„Árangurssaga trúboða: 60 ár í smíðum,“ Líahóna, júlí 2024.

Árangurssaga trúboða: 60 ár í smíðum

Hvílík gleðiupplifun það var fyrir mig að frétta að sáðkorn fagnaðarerindisins hefði borið ávöxt eftir öll þessi ár.

Ljósmynd
sáðkorn í jörðu og vaxandi planta sem ber ávöxt

Myndskreyting: Carolyn Vibbert

Mér hefur alltaf þótt vænt um Kenningu og sáttmála 18:10: „Verðmæti sálna er mikið í augum Guðs.“ Stundum krefst það sameiginlegrar vinnu margra okkar að miðla vitnisburði til að færa sálir til frelsarans (sjá 2. Korintubréf 13:1).

Ég var minnt á þessa fallegu hugmynd um sameiginlegt trúboðsstarf þegar ég dag nokkurn fékk netpóst. Bróðir sem kynnti sig sem son trúboðsforseta í Wichita, Kansas, velti því fyrir sér hvort ég væri eiginkona Roberts Monson. Bróðirinn hélt áfram og sagðist vera að leita að öldungi Monson sem þjónaði í Central States-trúboðinu árið 1959. Það var eiginmaður minn.

Hann sagði mér frá tveimur ungum öldungum sem höfðu nýlega fundið sig knúna til að fara inn í íbúðarhús. Þeir knúðu á fyrstu hurðina og fundu eldri konu sem bauð þeim að koma aftur daginn eftir. Þau ákváðu tímann.

Þegar þeir komu aftur til fundar við þessa eldri systur, komust þeir að því að hún átti gamla þrenningu (Mormónsbók, Kenning og sáttmálar og Hin dýrmæta perla) sem trúboðarnir höfðu gefið henni árið 1959. Hún hafði lesið bókina mörgum sinnum og vissi að kenningarnar sem hún hafði að geyma væru sannar. Hún hafði ekki gengið í kirkjuna á þeim tíma, þar sem eiginmaður hennar vildi ekki að hún færi í kirkju eða léti skírast. Eiginmaðurinn hafði þá nýlega látist og hún baðst fyrir um að hún mætti finna trúboðana aftur. Í þrenningunni voru nöfn tveggja trúboða frá 1959: Robert Monson og Granade Curran, eiginmanns míns og félaga hans.

Á næstu vikum lærði þessi kona um sáluhjálparáætlunina og blessanir musterisins. Sonur hennar lést 22 ára að aldri og hún varð yfir sig hrifin af því að eiga kost á að sameinast honum aftur. Þegar trúboðarnir buðu henni að skírast, tók hún boði þeirra fagnandi.

Bæði eiginmaður minn og félagi hans öldungur Curran voru báðir látnir, en ég get ímyndað mér að þeir hafi verið viðstaddir þessa fallegu skírnarathöfn handan hulunnar.

Þegar sonur trúboðsforsetans sagði mér þessa sögu, var ég minnt á að frelsarinn gleymir engu okkar. Hann er alltaf með okkur ef við bjóðum honum í líf okkar. Nýja Testamentið segir frá Sakkeusi, sem klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú (sjá Lúkas 19:1–10). Frelsarinn fann þó Sakkeus, jafnvel uppi í trénu, og bað um að snæða á heimili hans. Á líkan hátt, baðst eldri systir fyrir og beið eftir að trúboðarnir knúðu dyra hjá henni og það gerðu þeir. Frelsarinn þekkir okkur öll. „Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það“ (Lúkas 19:10).

Tvö trúboðapör – annað fyrir meira en 60 árum og hitt nýlega – leiddu þessa systur til Jesú Krists og fyrir vikið efldist vitnisburður þeirra og þeir fundu gleði í Drottni. Ég er auðmjúk yfir því að hafa átt aðkomu að þessari sögu, að finna gleði allra sem áttu hlut að máli við að færa þessa systur til frelsarans (sjá Kenning og sáttmálar 18:15).

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Prenta