Líahóna
Hvernig gat ég treyst himneskum föður þegar mér leið eins og ég stæði ein?
Júlí 2024


„Hvernig gat ég treyst himneskum föður þegar mér leið eins og ég stæði ein?“ Líahóna, júlí 2024.

Ungt fullorðið fólk

Hvernig gat ég treyst himneskum föður þegar mér leið eins og ég stæði ein?

Ég var að reyna að hafa trú en stóð stöðugt frammi fyrir áskorunum. Hvernig gat ég haldið áfram að treysta Drottni?

Ljósmynd
ung kona situr hugsi

Myndskreyting: Kathleen Petersen

Frændsystkini mín kynntu mig fyrir trúboðum þegar ég var níu ára. Ég gekk í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu en var ein af fáum í nánustu fjölskyldu minni til að gera það. Allt upp frá því hefur mér þótt sífellt vænna um fagnaðarerindi Jesú Krists. Þó fannst mér um tíma gífurlega erfitt að treysta á himneskan föður og sannleika hans og ég barðist mikið við að sækja fram í trú.

Það getur verið erfitt hvar sem er að lifa frábrugðið heiminum sem lærisveinn Jesú Krists, en það að alast upp sem meðlimur kirkjunnar í Hong Kong var erfiðara en einhvern gæti grunað.

Sem dæmi, þá líkar mörgum á svæðinu ekki við kirkjuna og halda að hún tengist slæmum hlutum. Í áður notuðu kínversku orði fyrir „mormóna“, með tilvísun til kirkjunnar, var hljóð sem tengdi það við kínverska orðið fyrir djöfulinn. Fyrir suma skapaði þetta óheppilega misskynjun á gildum kirkjunnar.

Vegna mikils fjölda annarra hefðbundinna trúarbragða sem eru nú þegar til staðar og fárra meðlima kirkjunnar í Hong Kong, getur líka verið auðvelt að finna til einsemdar eða einangrunar. Margir hafa efasemdir um kirkjuna, skilja ekki fyllilega kenningar hennar og eru ekki reiðubúnir til að hlusta á það sem meðlimir vilja miðla.

Ég fann mest fyrir áhrifum þessara hindrana þegar ég var unglingur, en vegna þessara upplifana lærði ég svo mikið um hvað það þýðir að treysta himneskum föður og Jesú Kristi.

Var það þess virði að lifa eftir fagnaðarerindinu?

Í unglingadeild í grunnskóla, voru foreldrar mínir vinir eins kennara míns. Þessi kennari var virkur kristinn einstaklingur í annarri kirkjudeild. Ég var á þeim tíma eini meðlimur kirkjunnar í bekknum mínum og margir bekkjarfélagar og kennarar höfðu þá þegar ýmsar getgátur um kirkju Jesú Krists og meðlimi hennar.

Þessi tiltekni kennari hafði mjög sterkar neikvæðar skoðanir um trú mína, sem flækti hlutina þar sem hún var fjölskylduvinur.

Ein af þeim var að ég var oft syfjuð í tímum hjá henni, þar sem ég vaknaði snemma til að mæta í trúarskóla snemma á morgnana, sem vakti hjá henni áhyggjur yfir að ég drægist aftur úr í náminu. Hún setti mig í erfiða aðstöðu og skoraði á mig með mörgum flóknum kenningarlegum spurningum sem ég hafði ekki svarið við. Hún setti jafnvel fyrir sem skólaverkefni að lesa efni sem var andstætt kirkjunni! Hún gerði sitt besta til að telja mig á að stíga í burtu frá trú minni.

Þetta var erfiður tími fyrir trú mína. Af hverju olli trúfesti mín áskorunum og erfiðleikum í lífinu, þegar ég reyndi að vera nálæg himneskum föður og Jesú Kristi? Átti ég ekki að vera blessuð fyrir að halda boðorðin og fórna svefninum til að mæta í trúarskólann?

Þess í stað hrakaði einkunnum mínum, trú mín dvínaði og samband mitt við kennara, fjölskyldu og himneskan föður bar skaða af.

Um tíma fór ég að velta fyrir mér hvort það væri þess virði að lifa eftir fagnaðarerindinu. Ég tók að skrópa í trúarskólanum og brátt fann ég trú mína veikjast. Það virtist auðveldara að gefa mig á vald því sem heimurinn umhverfis var að þrýsta á mig að gera.

Velja að treysta

Ég hélt áfram að biðja til himnesks föður um leiðsögn og skilning. Þrátt fyrir uppnámið sem ég var í og vonbrigðin yfir aðstæðum mínum, hélt eitthvað í hjarta mínu áfram að halda í trúna. Ég ræddi við trausta vini og trúði félögum mínum í kirkjunni fyrir upplifun minni og ég var hvött til að tala við trúarskólakennara minn um erfiðleikana.

Hún brást við af samúð og hvatti mig til að halda áfram að mæta í trúarskólann með von í hjarta. Hún lofaði mér að ég myndi sjá blessanirnar koma ef ég héldi áfram í trúna og treysti því að Drottinn ætlaði mér margt og myndi helga þrengingar mínar (sjá Nefí 2:1–2).

Ég ákvað því að treysta, þrátt fyrir þær þrengingar sem ég gekk í gegnum.

Ljósmynd
brosandi ung kona

Eftir svolítinn tíma fann ég afstöðu mína breytast. Í stað þess að einblína á erfiðleika mína, einbeitti ég mér að þakklætinu sem ég fann fyrir vegna fagnaðarerindisins. Ég byrjaði að beina athyglinni að blessun fjölskyldu minnar, míns guðlega eðlis og eilífum sannleika fagnaðarerindisins. Að endingu vaknaði hjá mér sá skilningur að himneskur faðir og Jesús Kristur væru meðvitaðir um aðstæður mínar og stæðu alltaf með mér á þeim stundum þegar mér fannst ég standa alein.

Þetta breytti öllu.

Þegar ég hélt áfram að leggja traust mitt á þá, halda boðorðin, iðrast daglega og gera smávægilega hluti á hverjum degi til að tengjast þeim, fann ég að trúarleg undirstaða mín dýpkaði og styrktist.

Russell M. Nelson forseti sagði: „[Axlið] ábyrgð á vitnisburði ykkar um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Vinnið fyrir honum. Endurnærið hann, svo hann styrkist. Nærið hann með sannleika. Mengið hann ekki með falskri heimspeki vantrúaðra karla og kvenna. Þegar þið hafið það stöðugt í algjöru fyrirrúmi að styrkja vitnisburð ykkar, fylgist þá með kraftaverkunum gerast í lífi ykkar.“

Og þegar ég gerði þetta, þá gerðist svo sannarlega kraftaverk.

Merking þess að treysta á Drottin

Eftir að hafa forðast um tíma hvers kyns samræður um trú við kennara minn, fann ég mig tilbúna dag einn til að svara af endurnýjaðri trú þegar hún lagði fyrir mig spurningar. Ég spurði hana vingjarnlega hvort hún hefði nokkurn tíma sótt kirkjusamkomur okkar eða lesið nokkuð í Mormónsbók. Þegar hún svaraði því neitandi, fann ég hvatningu til að gefa vitnisburð um einfaldan sannleika.

Ég sagði við hana að maður gæti aldrei komist að því hvort eitthvað sé satt án þess að upplifa það eða leita sjálf svara. Ég útskýrði að ég vissi að fagnaðarerindið væri satt vegna þess að ég hefði unnið fyrir þessum svörum og fyndi í hjarta mínu að þau væru sönn. Ég bauð henni að gera slíkt hitt sama og upp frá því var samband okkar friðsamlegra.

Þessi trúaráskorun sem ég gekk í gegnum sem unglingur bjó mig vel undir framtíð mína sem lærisveinn Krists. Ég hef séð svo margar blessanir og fyrirheit verða að veruleika, er ég hélt áfram að treysta Drottni frekar en skoðun nokkurs annars. Eins og Nefí sagði: „Ó Drottinn, ég hef treyst þér og mun að eilífu treysta þér. Ég mun ekki setja traust mitt á arm holdsins“ (2. Nefí 4:34).

Þegar hlutirnir fara ekki eftir áætlun eða við glímum við erfiðleika sem við sáum ekki fyrir, getur verið einfalt að líða eins og himneskur faðir hafi leitt okkur á ranga braut, yfirgefið okkur eða sé einfaldlega sama.

En það er ekki satt.

Reyndar er það alltaf á slíkum tímum ringulreiðar og sárra áskorana að ég er minnt á hvað það þýðir að leggja traust mitt á Drottin. Ég þarf að láta lærisveinsdóm minn og trú verða innihaldsrík og umbreytandi í stað þess að vera vélræn og vanaföst. Nelson forseti kenndi einnig: „Vaxandi trú ykkar, mun gera ykkur mögulegt að snúa áskorunum í óviðjafnanlegan vöxt og tækifæri.“

Ég get séð hvernig það hefur blessað mig á fleiri vegu en ég taldi nokkurn tíma mögulegt að velja trú á Jesú Krist. Þetta þýðir ekki að ég sleppi alltaf við sorg, erfiðleika eða ringulreið, en það þýðir að ég veit hvar ég finn frið og stöðugleika.

Nelson forseti minnir okkur ástúðlega á: „Vitið þetta: Þótt allt og allir bregðist í þessum heimi sem þið treystið á, mun Jesús Kristur og kirkja hans aldrei bregðast ykkur.“

Hvað sem þið glímið við í lífinu, hvort sem það eru óuppfylltar væntingar, þrýstingur frá röddum heimsins, fjölskylduvandamál, geðrænir kvillar, fjárhagslegur óstöðugleiki, hjartasár, ósanngirni eða aðrar áskoranir, þá býð ég ykkur að halda áfram að leggja traust ykkar á Drottin. Hann er fullkomlega meðvitaður um aðstæður ykkar. Hann þekkir ykkur. Hann geymir ykkur dásamlegar blessanir. Veljið að gera það, líka á þeim augnablikum þegar þið viljið ekki treysta honum. Fyrirheit hans eru áreiðanleg. Hann mun leiða ykkur að gleði, von og kraftaverkum á tilsettum tíma.

Hann gerir það fyrir mig, er ég treysti honum áfram.

Prenta