Líahóna
Fjölskyldusamtöl um sjálfsvíg
Júlí 2024


„Fjölskyldusamtöl um sjálfsvíg,“ Líahóna, júlí 2024.

Fjölskyldusamtöl um sjálfsvíg

Sem foreldrar, viljum við búa börn okkar undir hvers kyns mögulegar hættur sem þau gætu staðið frammi fyrir. Þó það sé óþægilegt að tala um það, þá er sjálfsvíg ein af þessum hættum.

fólk siglir niður flúðir

Fjölskyldulífið er eins og flúðasigling. Líkt og fjölskyldur setja upp björgunarvesti og hjálma, þá eru foreldrar líkt og leiðsögumenn á ánni sem hafa áður farið þennan veg. Börn þurfa á því að halda að við vörum þau við kraftmiklum straumum eða klettum fram undan. Ef neðar í ánni væri hrikalegur foss, myndum við þá vara börn okkar við honum? Myndum við kenna þeim að beita árunum og breyta um stefnu á leið þeirra eða myndum við bíða með að vara þau við þar til þau eru að sigla fram af bjargbrúninni?

Sem foreldrar, gæti okkur þótt óþægilegt að ræða efni jafn ónotalegt og sjálfsvíg, en við getum hjálpað við að vernda og undirbúa börn okkar áður en þau tileinka sér hættulegar hugsanir.

Foreldrar geta hjálpað börnum að læra að verða tilfinningalega þrautseig og vita hvert þau geti snúið sér þegar þau þurfa tilfinningalega hjálp. Reyna I. Aburto, fyrrum annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins, kenndi: „Þetta kann að fela í sér að verða upplýst um geðsjúkdóma, finna úrræði sem geta hjálpað við að takast á við þessi vandamál og loks leiða okkur sjálf og aðra til Krists, sem er hinn mikli læknir.“

Mikilvægt málefni að tala um

Sum sjálfsvíg eiga sér stað án nokkurra sjáanlegra viðvörunarmerkja. Hjá sumum eru merkin varla sýnileg, en stundum eru merkin óyggjandi. Við getum ekki vitað fyrir víst hvað börn okkar eru að hugsa og því þurfum því að undirbúa þau meðan þau eru ung – ef sjálfsvígshugsanir kynnu að skjóta rótum í huga þeirra.

Systir Aburto staðfesti þetta: „Það er mikilvægt að tala um þessi mál við börn okkar, fjölskyldur og vini á heimilum okkar, í deildum og samfélögum.“

Öldungur Dale G. Renlund í Tólfpostulasveitinni hefur kennt: „Hvert og eitt okkar á fjölskyldumeðlimi, kæra vini eða kunningja sem glímt hafa við sjálfsvígshugsanir, gert tilraun til sjálfsvígs eða tekið eigið líf. … Margar deildir og stikur [og fjölskyldur] íhuga að ræða sjálfsvígsforvarnir eftir að einhver hefur tekið eigið líf. Mín spurning er – af hverju að bíða? Af hverju ekki að gera það núna? Því einhver í deildinni eða stikunni glímir við sjálfsvígshugsanir.“

Ég settist niður með eigin börnum fyrir nokkrum árum eftir harmleik á svæðinu. Ég fann mig knúinn til að miðla þeim að það væri alltaf leið fram á við með Jesú Kristi. Að það væri ekkert sem þau gætu gert, eða hefðu átt að gera, sem gerði sjálfsvíg að valkosti. Á þeirra unga aldri, hafði ég enga ástæðu til að halda að þau væru í áhættuhópi, en ég vissi að ég gæti gert meira til að búa börn mín undir að takast á við hættulegar hugsanir, mögulega sjálfsvígshugsanir.

Að tala um sjálfsvíg kemur í veg fyrir sjálfsvíg

Úrræðaleiðbeiningar kirkjunnar fyrir sjálfsvígsforvarnir veita þessar upplýsingar: „Að tala um sjálfsvíg gerir aðra ekki líklegri til að gera tilraun til sjálfsvígs. Raunar eru opnar umræður um sjálfsvíg áhrifarík leið til að koma í veg fyrir sjálfsvíg.“

Samkvæmt dr. John Ackerman, framkvæmdastjóra forvarna gegn sjálfsvígi á læknastofu Nationwide-barnaspítalans, „getur öruggt umhverfi til að ræða sjálfsvíg bjargað lífi barns.“ Hann bætir jafnvel við: „Ef barn hefur glímt við sjálfsvígshugsanir er oft léttir að vita að fullorðinn einstaklingur lætur sig málið varða og er tilbúinn til að eiga opinskáar samræður.“

„Það að tala um sjálfsvíg á viðeigandi hátt hjálpar meira við að forða því en að það hvetji til þess,“ kenndi systir Aburto. Faðir hennar dó af völdum sjálfsvígs. Hún forðaðist í mörg ár að ræða dauða hans við fjölskyldu sína. Upp frá því hefur hún þó komist að mikilvægi þess að ræða málið heiðarlega og blátt áfram. „Ég hef nú rætt opinskátt við börn mín um dauða föður míns og borið vitni um þá lækningu sem frelsarinn getur veitt, beggja vegna hulunnar.“

Opinská samtöl um sjálfsvíg geta veitt börnum styrk til að nálgast foreldra sína og aðra áreiðanlega fullorðna einstaklinga í stað þess að glíma ein við sjálfsvígshugsanir ef þær gera vart við sig.

Börn allt niður í sex eða sjö ára hafa greint frá sjálfsvígshugsunum. „Áður fyrr trúðu sálfræðingar og fræðimenn og foreldrar ekki að ung börn, undir 10 eða 11 ára, hefðu sjálfsvígshugsanir,“ sagði Dr. Ackerman. „Við vitum fyrir víst að það er ekki rétt.“ Hann gefur til kynna að jafnvel ung börn geti tengt sjálfsvígshugsanir við þá tilfinningu að þau séu einhverjum byrði, finni til andlegs sársauka eða upplifi vonleysi.

Systir Aburto var þess fullviss: „Vitandi hvernig á að þekkja merki eða einkenni hjá okkur sjálfum og öðrum getur hjálpað. Við getum einnig lært að þekkja skekkt eða óheilbrigt hugsanamynstur og hvernig skipta á því út fyrir réttara og heilbrigðara mynstur.“

Sjálfsvíg er algengara en við gætum haldið

Á heimsvísu verður eitt dauðsfall vegna sjálfsvígs á 40 sekúndna fresti og það er önnur stærsta dánarorsök fólks á aldrinum 15–24 ára í heiminum. Í nýlegri rannsókn sem gerð var meðal þúsunda unglinga í Utah, Bandaríkjunum, uppgötvuðu rannsakendur frá Brigham Young-háskóla að um það bil 12 prósent Síðari daga heilög ungmenni höfðu alvarlega íhugað sjálfsvíg og 4 prósent höfðu gert sjálfsvígstilraun.

Í þessu samhengi, hafa 3 unglingar af hverjum 25 tölfræðilega séð íhugað alvarlega sjálfsvíg og einn hefur gert tilraun til sjálfsvígs.

Ef við getum hjálpað börnum okkar að finna þann stuðning sem þau þurfa, áður en þau eru komin að hættupunktinum – þegar hugsanir verða að áætlun – þá eigum við möguleika á að beina þeim á aðra braut áður en það er um seinan.

Hvar skal byrja

Við mjög ungan aldur geta börn byrjað að skynja tilfinningar, en við getum veitt þeim tungumálið til að lýsa tilfinningunum á réttan hátt. Fyrsta skrefið gæti verið að hjálpa ungu barni að byggja eigin tilfinningalegan orðaforða. Við getum kennt börnum að skilja muninn á reiði, sorg, vonbrigðum og svo framvegis. Ef barnið getur útskýrt hvað það finnur, er hægt að vinna saman út frá því. Við getum á viðeigandi aldurstengdan hátt rætt sterkar tilfinningar barna allt niður í sex ára og hjálpað þeim að bera kennsl á og bregðast við þessum tilfinningum.

Þessar tímabæru samræður munu einnig gera foreldrum mögulegt að þekkja hið einkennandi tilfinningasvið barna sinna. Flest börn ganga í gegnum skin og skúrir hvað varðar tilfinningalegt heilbrigði. Það er eðlilegt. Að eiga samtöl snemma og oft við ung börn getur séð foreldrum fyrir tilfinningamæli til að greina muninn á eðlilegum sveiflum bernskunnar og hættulegum hugsunum.

Forvarnarsamtöl um sjálfsvíg eru eins og önnur þjálfun í forvörnum sem foreldrar veita. Við getum búið börn og ungmenni undir mögulegar upplifanir sjálfsvígshugsana á sama hátt og við gætum búið þau undir að aka bíl og hvað skuli gera ef kemur til slyss. „Við viljum undirbúa börn okkar til að skilja hvað getur gerst tilfinningalega og hvað þau gætu séð í vinum sínum,“ segir dr. Ackerman.

stúlka aðstoðar við að bera fleytu

Halda samtalinu áfram

Þegar börn eldast munu samtölin einnig hæfa þroska þeirra. Við getum spurt opinna spurninga og leyft börnum að svara hreinskilnislega. Hvetjið börn til að vera heiðarleg um erfiðar tilfinningar. Rannsóknin sýnir að sé rætt um erfiðar tilfinningar, geti það dregið úr styrk og varanleika þeirra.

Með opinskáum samskiptum um þunglyndi, sjálfsvíg eða vanmáttartilfinningar, læra börn að þau geta sagt frá einlægum hugsunum sínum og að þau eru tilfinningalega örugg hjá okkur. „Þau fá líka skýr skilaboð um að ykkur þyki innilega vænt um þau og að hamingja þeirra og velferð skipti ykkur máli,“ segir einn geðheilbrigðisráðgjafi.

Ást okkar og stuðningur við börn okkar getur verið eftirmynd þeirrar elsku sem himneskur faðir ber til hvers og eins okkar. „Himneskur faðir ann ykkur, [sérhverju ykkar],“ kenndi Thomas S. Monson forseti (1927–2018). „Sá kærleikur breytist aldrei. … Hann er þar fyrir ykkur þegar þið eruð [sorgmædd, glöð, kjarklaus eða full vonar]. Kærleikur Guðs er þar fyrir ykkur, hvort sem þið teljið ykkur eiga hann skilið eða ekki. Hann er einfaldlega alltaf þar.“

Um leið og ég hafði rætt um sjálfsvíg við eigin börn, spurði níu ára sonur minn hvort ég gæti talað við hann einslega. Hann sagði mér frá stundum þar sem hann hafði ímyndað sér að hann tæki eigið líf, ásamt aðferðinni sem hann myndi nota. Mig hefði aldrei grunað að hann hefði þessar hugsanir. Ég faðmaði hann, þakkaði honum fyrir hugrekkið að segja mér frá og sagði honum að hvað sem hann kynni að gera eða hugsa, þá væri hann dýrmætur og mikilvægur í fjölskyldu okkar. Ég einsetti mér að fylgjast með honum hvað varðaði frekari merki um sjálfsvígshugsanir eða geðsjúkdóma.

Sjálfsvíg er ekki svarið

Sum ungmenni gætu verið hrædd um að sjálfsvíg sé eina leið þeirra úr vonleysinu. Jeffrey R. Holland, starfandi forseti Tólfpostulasveitarinnar, fullvissar okkur: „Þótt þið teljið … að þið hafið gert of mörg mistök … eða að þið hafið fjarlægst heimili ykkar, fjölskyldu og Guð of mikið, þá ber ég vitni um að þið eruð ekki utan guðlegrar elsku. Þið getið ekki sokkið svo djúpt að geislar hins óendanlega ljóss friðþægingar Krists nái ekki til ykkar.“

Auk þess að tala við ung börn okkar, getum við rætt við ungmenni okkar eftir forskriftinni hér á eftir, sem Holland forseti gaf okkur: „Til allra ungmenna okkar þarna úti, sem eiga í baráttu, hverjar sem áhyggjur ykkar eða erfiðleikar eru, þá er dauði af völdum sjálfsvígs augljóslega ekki svarið. Það mun ekki lina sársaukann sem þið finnið eða sem þið haldið að þið valdið. Þar sem heimurinn þarfnast svo sárlega alls þess ljóss sem mögulegt er, lágmarkið þá ekki hið eilífa ljós sem Guð gæddi sál ykkar áður en þessi heimur varð til. … Eyðileggið ekki líf sem Kristur gaf líf sitt til að varðveita. Þið getið tekist á við baráttu þessa jarðneska lífs, því við munum hjálpa ykkur við það. Þið eruð sterkari en þið gerið ykkur grein fyrir. Hjálp er tiltæk frá öðrum og einkum frá Guði. Þið eruð elskuð, metin og þörf er fyrir ykkur. Við þörfnumst ykkar!“

Þið og maki ykkar getið rætt hvenær gott sé að byrja að tala um þetta – löngu áður en hættan, ef nokkur, ber að dyrum. Þið getið leitað andans í bæn til að leiðbeina ykkur um bæði tímasetningu og hvaða orð skal nota í samræðum ykkar við börnin.

Við erum að endingu aldrei ábyrg fyrir ákvörðun einhvers annars um að binda enda á líf sitt, en við getum gert ýmislegt til að reyna að koma í veg fyrir það. Líkt og Holland forseti kenndi:

„Hinn eingetni sonur Guðs [kom] til að gefa okkur líf með því að sigra dauðann.

Við verðum að skuldbinda okkur þessari gjöf lífsins fyllilega og koma þeim fljótt til hjálpar sem eiga á hættu að gefast upp á þessari helgu gjöf.“

Heimildir

  1. Reyna I. Aburto, „Og skjól mér veitir, Herra, dvel hjá mér!,“ aðalráðstefna, okt. 2019.

  2. Sjá „Warning Signs of Suicide,“ í How to Help, Suicide, Life Help, Gospel Library.

  3. Reyna I. Aburto, „Og skjól mér veitir,“ neðanmálstilvísun 10.

  4. Dale G. Renlund, „What We Know about Suicide“ (myndband, 2018), ChurchofJesusChrist.org.

  5. Will Talking about Suicide Make Someone More Likely to Attempt Suicide?“ í FAQ, Suicide, Life Help, Gospel Library.

  6. John Ackerman, „How to Talk to Kids about Suicide,“ On Our Sleeves: The Movement for Children’s Mental Health, ágú. 2022, onoursleeves.org.

  7. Reyna I. Aburto, „Og skjól mér veitir.“

  8. Sjá Kristin Francis, í „How to Talk to Your Child about Suicide: An Age-by-Age Guide,“ University of Utah Health, 6. sept. 2022, healthcare.utah.edu.

  9. Sjá John Ackerman, í „Talking to Children under 12 about Suicide“ (myndband), ásamt greininni „How to Talk to Kids about Suicide,“ onoursleeves.org.

  10. Reyna I. Aburto, „Og skjól mér veitir,“ neðanmálstilvísun 13.

  11. Sjá „Suicide Statistics,“ SAVE: Suicide Awareness Voices of Education, save.org.

  12. Sjá W. Justin Dyer, Michael A. Goodman og David S. Wood, „Religion and Sexual Orientation as Predictors of Utah Youth Suicidality,“ BYU Studies Quarterly, bindi 61, nr. 2 (2022), 88.

  13. Sjá Ackerman, „How to Talk to Kids about Suicide“ og „Talking to Children under 12 about Suicide“ (myndband), onoursleeves.org.

  14. Ackerman, í „Talking to Children under 12 about Suicide“ (myndband), onoursleeves.org.

  15. Sjá Ackerman, „How to Talk to Kids about Suicide,“ onoursleeves.org.

  16. Naomi Angoff Chedd, í Sherri Gordon, „How to Talk to Your Kids about Suicide at Every Age,“ Very Well Family, 16. nóv. 2022, verywellfamily.com.

  17. Thomas S. Monson, „Við göngum aldrei ein,“ aðalráðstefna, okt. 2013.

  18. Jeffrey R. Holland, „Verkamenn í víngarðinum,“ aðalráðstefna, apr. 2012.

  19. Jeffrey R. Holland, „Óttast ekki, trú þú aðeins!,“ aðalráðstefna, apr. 2022.

  20. Jeffrey R. Holland, „Óttast ekki, trú þú aðeins!.“