Líahóna
Líkami ykkar: Umhirða þessarar guðlegu gjafar
Júlí 2024


„Líkami ykkar: Umhirða þessarar guðlegu gjafar,“ Líahóna, júlí 2024.

Líkami ykkar: Umhirða þessarar guðlegu gjafar

Líkami okkar er gjöf frá Guði og musteri fyrir anda okkar, en það krefst sjálfsstjórnar og aga að annast hann á réttan hátt.

Ljósmynd
karl og kona skokka

Það er auðvelt að taka góðri heilsu sem sjálfsagðri – það er að segja þar til þessir 10 gosdrykkir á dag, kyrrsetan og svefnleysið koma aftan að okkur. Eða kannski greiða erfðirnar okkur óvænt högg, þrátt fyrir allar okkar heilsusamlegu ákvarðanir, og heilsufarið versnar.

Okkur hefur öllum verið gefin misgóð heilsa sem ekki alltaf verður stjórnað. En eitt er öruggt: Áætlun Guðs krefst þess að við bætum við það sem okkur hefur verið gefið. Það krefst sama sjálfsaga og kostgæfni og við þurfum til að næra okkur andlega. Það þýðir að við þurfum að öðlast stjórn á náttúrulegri tilhneigingu okkar til að sitja í stað þess að hlaupa, borða sætindi í stað grænmetis og vaka langt fram eftir í stað þess að sofa.

Þegar við leitum innblásturs til að bæta líkamlega heilsu og þegar við þróum sjálfsagann til að viðhalda henni, munum við uppgötva aukna getu til að þjóna Guði og finna gleði.

Líkami ykkar er musteri

Sálir þrífast þegar vel er hirt um anda og líkama. „Andinn og líkaminn eru sál mannsins“ (Kenning og sáttmálar 88:15). Russell M. Nelson forseti talaði um þetta vers og kenndi að bæði líkami og andi „eru afar mikilvægir. Áþreifanlegur líkami ykkar er stórbrotin sköpun Guðs. Hann er musteri Guðs og ykkar og hann ber að meðhöndla af lotningu.“

Nelson forseti heldur áfram að sinna skyldum sínum sem forseti kirkjunnar, 99 ára gamall, þótt hann viðurkenni að hann notist stundum við göngugrind til að halda jafnvægi og kjósi nú að flytja aðalráðstefnuræður sínar sitjandi. „Við og við á ég í smávægilegum erfiðleikum við að halda jafnvægi,“ skrifaði hann á samfélagsmiðlasíðu sína í maí 2023. „Ég býst við að ég þurfi ekki að vera hissa að lítil vandamál láti á sér kræla er ég nálgast aldarmarkið. Þakkarsamlega er hjarta mitt hraust, andinn sterkur sem og fótleggir og hugurinn enn í lagi.“

Nelson forseti er þekktur fyrir að passa upp á heilbrigðisvenjur sínar og virkan lífsstíl. Hann var alltaf grannur og lagði hart að sér til að vera það áfram. Hann æfði reglubundið og fannst best að gera það utandyra. Allt fram á tíræðisaldur mokaði hann snjó af gangstétt sinni og nágranna sinna, rúllaði ruslatunnum aftur að bílskúrum og hirti um garðinn sinn. Fram að því að hann varð forseti kirkjunnar, fór hann eins oft á skíði og dagskrá hans leyfði.

Byggja upp sjálfsaga

Við þekkjum grunnatriði góðar líkamlegrar heilsu:

  • Reglulegar æfingar.

  • Nægilegur svefn.

  • Jafnvægi í mataræði.

  • Viðhalda góðri þyngd.

  • Hafa stjórn á streitu.

Það sem gerir gæfumuninn er að fá líkamann til að gera það sem andinn veit að hann ætti að gera. Samkvæmt Nelson forseta er ein af prófraunum jarðvistarinnar sú að öðlast stjórn á löngunum líkamans með andanum sem dvelur í honum:

„Satan þekkir kraft langana okkar. Hann freistar okkar með því að borða það sem við eigum ekki að borða, drekka það sem við eigum ekki að drekka. …

Þegar við þekkjum sannlega eigin guðlegt eðli, munum við vilja hafa stjórn á slíkum löngunum. … Við munum í daglegri bæn viðurkenna [Guð] sem skapara okkar og þakka honum fyrir mikilfengleika okkar eigin líkamlega musteris. Við munum annast það og hlúa að því sem persónulegri gjöf Guðs til okkar.“

Næra þakklæti og finna gleði í líkamanum sem Guð gaf okkur

Þegar ég var 27 ára og þriggja barna móðir, var ég greind með liðagigt, sjálfsofnæmissjúkdóm sem eyðileggur liðina með tímanum. Líkamlega og andlega missti ég alla stjórn á lífi mínu. Ég snéri mér til Guðs eftir aðstoð við að ná aftur geðræna stöðugleikanum og þeirri frábæru heilsu sem ég tók áður sem sjálfsagðri.

Ég leitaði hjálpar frá sálfræðingi við að glíma við kvíða. Ég vann með gigtarlækni til að komast að því hvaða lyf ég ætti að taka og notaði náttúrulegar lausnir þar að auki. Ég gafst aldrei upp. Eftir mörg ár og miklar þjáningar, bættist heilsa mín líkamlega og geðrænt.

Ég man eftir að hafa gengið fram hjá urmul villiblóma að fjallavatni eitt sinn síðdegis. Þar sem tárin fossuðu niður kinnarnar, þakkaði ég Guði fyrir blessun líkama míns og getu mína til að leggja stund á hreyfingu sem ég hélt að hefði verið glötuð. Það er engin lækning til fyrir mitt ástand og sjúkdómurinn hefur sett sýnilegt mark á líkama minn. En göngur og æfingar hafa orðið að ástríðu hjá mér og ég tek heilsu minni aldrei sem sjálfsagðri.

Þrátt fyrir líkamlegar takmarkanir, þjónaði ég nýlega í trúboði með eiginmanni mínum í Washington, Bandaríkjunum (sem er útivistarmekka!). Ég er þakklát fyrir að hafa þjónað í nánast hverri kirkjuköllun sem hægt er á lífsferli mínum.

Eins og Nelson forseti sagði: „Megum við ætíð vera þakklát fyrir hina ótrúlegu blessun mikilfenglegs líkama, hina æðstu sköpun ástkærs himnesks föður okkar. Eins frábær og líkami okkar er, er hann ekki í sjálfu sér hið endanlega markmið. Hann er nauðsynlegur hluti af hinni miklu sæluáætlun Guðs fyrir eilífa framför okkar.“

Heimildir

  1. Russell M. Nelson forseti kenndi á prestdæmishluta aðalráðstefnu: „Þegar Jesús býður ykkur og mér að ‚iðrast‘ [sjá Lúkas 13:3, 5], er hann að bjóða okkur að breyta viðhorfi okkar, þekkingu okkar, anda okkar – jafnvel hvernig við drögum andann. Hann er að biðja okkur að breyta því hvernig við elskum, hugsum, þjónum, verjum tíma okkar, komum fram við eiginkonu okkar, kennum börnum okkar og jafnvel hirðum líkama okkar“ („Við getum gert betur og verið betri,“ aðalráðstefna, apr. 2019; leturbreyting hér).

  2. Russell M. Nelson, „Your Body: A Magnificent Gift to Cherish,“ Líahóna, ágú. 2019.

  3. Russell M. Nelson, Facebook, 16. maí 2023, facebook.com/russell.m.nelson.

  4. Sjá Sheri Dew, Insights from a Prophet’s Life: Russell M. Nelson (2019), 345.

  5. Russell M. Nelson, „Your Body: A Magnificent Gift to Cherish,“ 54.

  6. Russell M. Nelson, „Your Body: A Magnificent Gift to Cherish,“ 55.

Prenta