Líahóna
Frá myrkri til hamingju
Júlí 2024


„Frá myrkri til hamingju,“ Líahóna, júlí 2024.

Frá Síðari daga heilögum

Frá myrkri til hamingju

Þegar ég þuldi orð musterishelgiathafnanna í huga mínum, gerðist nokkuð undursamlegt.

Ljósmynd
krosslagðar hendur hvíla á bók

Árið 1988 fór ég með öðrum breskum kennurum til að kenna við skóla í Súdan. Börnin voru indæl og við aðlöguðumst skjótt harðneskju þess að búa í þróunarríki. Vinnuveitandi okkar reyndist hins vegar vera harðstjóri sem áreitti hvern þann sem hann áleit vera á móti sér á einhvern hátt. Hann hataði mig allt eftir að ég hafði komið einhverjum til varnar sem hann hafði svívirt.

Dag einn kallaði hann mig inn á skrifstofuna til sín. Í meira en hálftíma lét hann rigna yfir mig alls kyns svívirðilegu orðbragði og hótunum. Ég yfirgaf herbergið í áfalli. Ég hef engar minningar um það hvernig ég komst í gegnum það sem eftir var skóladagsins. Ég gat ekki hætt að hugsa um öll hræðilegu orðin hans allt kvöldið.

Á háttatíma sat ég á rúminu mínu og las ritningarnar. Svo kraup ég og baðst innilega fyrir um huggun og létti en fann hvorugt. Ég fór í rúmið en gat ekki sofnað. Ég fór tvisvar aftur á fætur, las, kraup og baðst fyrir, en allt kom fyrir ekki.

„Jæja þá,“ hugsaði ég, „himneskur faðir svarar ekki alltaf bænum okkar eins og við kjósum eða þegar við viljum.“ Ég sætti mig við nöturlega, svefnlausa nótt.

En þegar ég lagðist út af að nýju, hugsaði ég: „Ég get gert eitt í viðbót.“ Ég þuldi orð helgiathafna musterisins fyrir sjálfri mér í huganum. Þegar ég gerði þetta gerðist undursamlegt kraftaverk. Öll vansældin og myrkrið flæddu frá mér og dásamlegur friður og gleði flæddu að og fylltu alla sál mína.

Ég fór fram úr, baðst fyrir og þakkaði tárvot himneskum föður. Ég fór svo aftur í rúmið og sofnaði. Næsti dagur, sem hefði átt að vera fullur af ótta og vansæld, var hamingjusamasti dagur sem ég hef nokkru sinni varið með námsbekk barna.

Ég skildi að Drottinn hafi viljað að ég hugleiddi musterishelgiathafnirnar. Brigham Young forseti (1801–1877) sagði við hina heilögu, sem ferðuðust yfir slétturnar eftir að þeir höfðu hlotið blessanir sínar í Nauvoo-musterinu: „Látið eld sáttmálans sem þið gerðuð í húsi Drottins brenna í hjörtum ykkar sem óslökkvandi væri.“ Þegar musterissáttmálar okkar brenna í hjörtum okkar og huga, munum við einnig finna styrk, frið og huggun.

Prenta