Líahóna
Tvö sannindi sem hjálpa mér að skilja auðmýkt
Júlí 2024


„Tvö sannindi sem hjálpa mér að skilja auðmýkt,“ Líahóna, júlí 2024.

Ungt fullorðið fólk

Tvö sannindi sem hjálpa mér að skilja auðmýkt

Auðmýkt getur hjálpað við bæði dramb og vanmáttarkennd.

Ljósmynd
ungir karlmenn í kennslustofu í kirkju

Ljósmynd af meðlimum í Paragvæ: Leslie Nilsson

Staðreynd: Ég er barn Guðs. Og það er ótrúlegur og guðlegur sannleikur.

Jafn mikilvæg staðreynd: Fyrst allir aðrir á þessari jörðu eru einnig börn Guðs, þá eru þau líka ótrúleg og guðleg.

Bæði þessi sannindi virðast eflaust augljós, en það tók mig nokkurn tíma til að melta þau og skilja hvaða merkingu þau hafa í lífi mínu. Stundum verð ég uppvís að því að nálgast aðstæður af dramblæti og gera ráð fyrir að mín leið sé sú rétta eða að ég sé hæfari en aðrir. Á öðrum stundum geri ég hið gagnstæða, er mér finnst ég ekki jafnverðugur eða dýrmætur og aðrir umhverfis.

Svarið við báðum atriðum er hið sama:

Auðmýkt.

Stóð ég ekki undir væntingum?

Ein upplifun sem sannlega auðmýkti mig gerðist í trúboðinu mínu. Ég held að flestir trúboðar stríði við vanmáttarkennd er þeir reyna að leiða fólk til Jesú Krists. Í trúboði mínu varði ég mörgum klukkustundum á dag við að reyna að finna einhvern til að kenna og var hafnað aftur og aftur. Mér fannst ég ekki ná árangri. Mér fannst eins og framlag mitt stæðist ekki væntingar. Með tíð og tíma fannst mér eins og ég væri ekki nógu góður.

Þótt mig hefði ef til vill ekki skort auðmýkt, þá hjálpaði trúboðsforsetinn mér að skilja, er ég útskýrði tilfinningar mínar fyrir honum, að hluti vandans væri sá að ég áliti mig sjálfan undanskilinn þeim vanda sem trúboðar um heim allan standa frammi fyrir. En ég var ekki fyrsti trúboðinn til að finna fyrir höfnun og ég var langt frá því að vera sá síðasti.

Einhvern veginn hafði ég sannfært sjálfan mig um að erfiðleikar mínir væru aðeins mér að kenna, þrátt fyrir að einhverjir bestu trúboðar sögunnar – eins og upprunalegu postularnir tólf, synir Mósía og Alma yngri – hefðu upplifað mikið meiri höfnun og ofsóknir en ég nokkurn tíma.

Í stað þess að vorkenna sjálfum mér, fór ég að upplifa að ég gæti staðið við hlið Jesú Krists í erfiðleikunum. Og þegar ég fyrirvarð mig fyrir ófullkomið framlag mitt, minntist ég kennslu Jeffreys R. Holland, starfandi forseta Tólfpostulasveitarinnar: „Friðþæging [Krists] mun bera uppi trúboðana á jafnvel mikilvægari hátt en hún mun bera uppi trúarnemana. Þegar þið eigið erfitt, þegar ykkur er hafnað, … þá standið þið með besta lífi sem þekkst hefur í þessum heimi, hinu eina hreina og fullkomna lífi sem lifað hefur verið.“

Ég horfi enn til baka á þessa upplifun þegar ég þarf að minnast þess að vera auðmjúkur og treysta á Drottin.

Lexía um auðmýkt

Ég lærði margt um auðkenni mitt sem barn Guðs á meðan ég var í trúboði. En eftir að ég kom aftur heim, áttaði ég mig á að ég ætti margt eftir ólært um mikilvægi þess að minnast þess að aðrir menn eru líka börn Guðs.

Stuttu eftir að ég sneri aftur, var ég skyndilega kallaður í erfiða köllun og falið að stjórna mikilvægum viðburði. Það þyrmdi yfir mig og ég gat ekki náð sambandi við fólkið sem hefði átt að hjálpa mér. Ég sendi netpóst sem í sannleika sagt var nokkuð harðorður.

Rétt var að köllunin var mikilvæg og að ég þyrfti meiri stuðning, en ég áttaði mig fljótt á því að þetta var ef til vill ekki besta leiðin til að hvetja fólk. Ég þurfti á auðmýkt að halda; ég þurfi að muna að annað fólk þurfti líklega að takast á við eigin streituvaldandi hluti.

Líkt og öldungur Steven E. Snow kenndi, þegar hann var einn hinna Sjötíu: „Ef við auðmýkjum okkur, þá er bænum okkar svarað, við munum njóta hugarró, við munum þjóna á áhrifaríkari hátt í köllunum okkar og ef við höldum áfram að vera staðföst, þá munum við að lokum snúa til návistar föður okkar á himnum.“

Ég hef virkilega fundið meiri gleði í köllun minni og í lífi mínu er ég hef lært að vera auðmýkri.

Hafa tvö sannindi í jafnvægi

Fyrir mig hefur það að læra sanna auðmýkt snúist um að hafa þessi tvö sannindi í jafnvægi:

Ég er barn Guðs. Og ég er umlukinn öðrum börnum Guðs.

Við að læra meira um auðmýkt, hef ég komist að því að það sem öldungur Quentin L. Cook í Tólfpostulasveitinni kenndi er sannleikur: „Auðmýkt er ekki einhvað eitt merkjanlegt afrek eða jafnvel að sigrast á einhverri meiriháttar áskorun. … Hún er að búa yfir þeirri öruggu fullvissu að hægt er að reiða sig á Drottin, dag eftir dag, klukkustund eftir klukkustund, og ná fram tilgangi hans.“ Ég hef lært að ég get raunverulega náð tilgangi Drottins – en aðeins þegar ég fel honum vilja minn og treysti því að hann viti hvað sé best.

Ég veit að þegar við keppum að því að verða auðmýkri og kristilegri, mun himneskur faðir blessa okkur í viðleitni okkar.

Höfundur býr í Frankfurt, Þýskalandi.

Heimildir

  1. Jeffrey R. Holland, „Missionary Work and the Atonement,“ Ensign, mars 2001, 15.

  2. Steven E. Snow, „Ver auðmjúkur,“ aðalráðstefna, apr. 2016.

  3. Quentin L. Cook, „Hinn eilífi hversdagsleiki,“ aðalráðstefna, okt. 2017.

Prenta