Líahóna
Fyrirgefning
Júlí 2024


Boðskapur svæðisleiðtoga

Fyrirgefning

Þegar frelsarinn lifði á jörðu, sýndi hann elsku sína til fólks með því að þjóna því. Hann miðlaði visku og þekkingu með því að kenna þeim um hamingjuáætlun himnesks föður. Hann bauð öllum að koma til sín—og sagði: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ Þetta sama boð stendur enn og er til okkar allra svo við mættum læra að þekkja hann og líkjast honum meir.

Jesús Kristur er fyrir okkur hið fullkomna fordæmi um fyrirgefningu. Hann kenndi lærisveinum sínum hversu oft þeir ættu að fyrirgefa bróður sínum ef hann héldi áfram að gera rangt: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ Þetta gefur til kynna stöðuga fyrirgefningu. Kristur kenndi okkur að biðja til himnesks föður: „Fyrirgef oss vorar syndir enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.“ Æðsta dæmið um getu frelsarans til að fyrirgefa var bæn hans til Guðs, þegar hann var krossfestur og hann sagði: „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera.“

„Að fyrirgefa er guðlegur eiginleiki. Það er að fyrirgefa eða afsaka einhvern frá sök fyrir brot eða misgjörð. Ritningarnar vísa til fyrirgefningar á tvo vegu. Drottinn býður okkur að iðrast synda okkar og leita fyrirgefningar hans. Hann býður okkur einnig að fyrirgefa þeim sem móðga okkur eða meiða.“ Kristur kenndi: „Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður.“ „Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum.“

Við fæddumst inn í heiminn til að fá jarðneskan líkama sem gerir okkur kleift að læra, vaxa og þroskast. Við upplifum andstæður og við höfum frelsi til að velja, sem er í samræmi við áætlun himnesks föður. Jafnvel þó við gerum okkar besta, gerum við öll mistök, við syndgum, okkur verður á og tökum rangar ákvarðanir. Vegna friðþægingar Jesú Krists getum við fengið fyrirgefningu synda okkar með einlægri og fullkominni iðrun sem felur í sér sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda og að finna til guðlegrar sorgar.

„Fyrirgefning krefst þess að við iðrumst synda okkar um leið og við eflum og styrkjum trú okkar á Jesú Krist. Er við iðrumst og komum til hans erum við á veginum til fyrirgefningar.

Öldungur Neil L. Andersen hefur kennt: „Við verðum samt að muna að aldrei er hægt að vinna sér inn fyrir hinni guðlegu gjöf fyrirgefningar; það er einungis hægt að öðlast hana. Já, boðorðum þarf að hlýða og virða þarf helgiathafnir til að fá fyrirgefningu, en persónuleg viðleitni, hversu mikil sem hún er, dofnar í samanburði við gjald endurlausnarinnar. Í raun er enginn samanburður.“ „Fyrirgefning er gjöf og sá eini sem getur gefið gjöfina er lausnari og frelsari heimsins, Jesús Kristur. Hann gefur ómetanlega gjöf sína fúslega öllum sem snúa sér til hans til að þiggja hana.“

Fjölskylduyfirlýsingin minnir okkur á að ein af mikilvægum meginreglum hamingjusams lífs er fyrirgefning, óháð því hversu margir tilheyra fjölskyldu okkar: Hamingju í fjölskyldulífi hljótum við fyrst og fremst þegar við byggjum á kenningum Drottins Jesú Krists. Farsælt hjónaband og fjölskyldulíf byggist og varðveitist á reglum trúar, bænar, iðrunar, fyrirgefningar, virðingar, kærleika, umhyggju, vinnu og heilbrigðrar dægrastyttingar.“

Nelson forseti lagði fyrir okkur beiðni: „Ákall mitt í dag, kæru bræður og systur, er að þið bindið enda á átök sem geisa í hjörtum ykkar, á heimilum ykkar og í lífi ykkar. „… Ég endurtek ákall mitt um að enda átökin í lífi ykkar. Auðsýnið þá auðmýkt, hugrekki og styrk sem þarf til þess að bæði fyrirgefa og biðja um fyrirgefningu. Frelsarinn hefur lofað að ef [við fyrirgefum] mönnum misgjörðir þeirra þá mun og himneskur faðir [okkar] einnig fyrirgefa [okkur].’” „Sjá, þeim sem hefur iðrast synda sinna er fyrirgefið, og ég, Drottinn, minnist þeirra ekki lengur.“

Á sama hátt ættum við að fyrirgefa og gleyma því ranglæti sem við verðum fyrir. Fyrirgefning er ein stærsta gjöfin sem himneskur faðir hefur gefið okkur. Vegna friðþægingar Jesú Krists getum við tekið á móti hinu gleðilega kraftaverki fyrirgefningarinnar – með því að upplifa kröftuga umbreytingu hjartans með því að gerast „Heilagur …, sem barn, undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður, fullur af kærleika“, með því að finna fyrir friði og fullvissu og með því að hljóta huggun og styrk til að halda áfram glaður á sáttmálsveginum.

Þetta er ástæðan fyrir því að „vér tölum um Krist, gleðjumst í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist, og vér skrifum samkvæmt spádómum vorum, til þess að börn okkar megi vita, í hvaða uppsprettu þau geta leitað til fyrirgefningar synda sinna.“

Prenta