Ritningar
Kenning og sáttmálar 105


105. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith við Fishing River, Missouri, 22. júní 1834. Undir stjórn spámannsins gengu heilagir frá Ohio og öðrum svæðum til Missouri, í leiðangri sem seinna kallaðist Síonarfylkingin. Tilgangur þeirra var að fylgja hinum heilögu, sem vísað hafði verið burt úr Missouri, aftur tilbaka til landa þeirra í Jacksonsýslu. Íbúar Missouri, sem höfðu áður ofsótt hina heilögu, óttuðust hefndaraðgerðir af hálfu Síonarfylkingarinnar og réðust því að fyrra bragði á nokkra heilaga sem bjuggu í Claysýslu, Missouri. Eftir að fylkisstjóri Missouri dró tilbaka loforð sitt um að styðja hina heilögu, meðtók Joseph Smith þessa opinberun.

1–5, Síon mun uppbyggð í samræmi við himneskt lögmál; 6–13, Björgun Síonar er frestað um hríð; 14–19, Drottinn mun heyja orrustur Síonar; 20–26, Hinir heilögu skulu vera hyggnir og ekki guma af máttugum verkum, þegar þeir safnast saman; 27–30, Kaupa skal land í Jackson og nærliggjandi sýslum; 31–34, Öldungarnir skulu taka á móti musterisgjöf í húsi Drottins í Kirtland; 35–37, Hinir heilögu, sem bæði eru kallaðir og útvaldir munu helgaðir verða; 38–41, Hinir heilögu skulu hefja upp friðartákn fyrir heiminn.

1 Sannlega segi ég yður, sem safnast hafið saman til að heyra vilja minn varðandi lausn hins aðþrengda fólks míns —

2 Sjá, ég segi yður: Væri það ekki fyrir brot fólks míns, og þar er átt við kirkjuna en ekki einstaklinga, hefði lausn þeirra nú þegar átt sér stað.

3 En sjá, það hefur ekki lært að hlíta því sem ég krefst af þeirra hendi, heldur er fullt af alls kyns illsku og gefur ekki af eigum sínum til hinna fátæku og aðþrengdu meðal þess, eins og hinum heilögu hæfir —

4 Og er ekki sameinað á þann hátt, sem lögmál himneska ríkisins krefst —

5 Og Síon verður ekki reist nema eftir lögmálsreglum himneska ríkisins, að öðrum kosti get ég ekki tekið hana til mín.

6 Og aga verður fólk mitt, þar til það lærir hlýðni, enda þótt það þurfi að gerast þannig, að það þjáist.

7 Ég tala ekki um þá, sem útnefndir eru til að leiða fólk mitt, æðstu öldunga kirkju minnar, því að þeir eru ekki allir undir þessari fordæmingu —

8 En ég tala um fjarlægari söfnuði mína — margir eru þeir sem segja munu: Hvar er Guð þeirra? Sjá, hann mun bjarga þeim á erfiðleikatímum, annars förum við ekki til Síonar, og munum halda fé okkar.

9 Mér er þess vegna æskilegt vegna brota fólks míns, að öldungar mínir bíði um stund lausnar Síonar —

10 Svo að þeir sjálfir verði reiðubúnir og kenna megi fólki mínu betur og það hljóti reynslu og aukna þekkingu á skyldum sínum og því, sem ég krefst af því.

11 Og það getur ekki orðið fyrr en öldungum mínum veitist kraftur frá upphæðum.

12 Því að sjá, ég hef fyrirbúið mikla gjöf og blessun, sem úthellt verður yfir þá, svo sem þeir eru mér trúir og haldast auðmjúkir fyrir mér.

13 Mér er þess vegna æskilegt, að öldungar mínir bíði um hríð eftir lausn Síonar.

14 Því að sjá, ég ætla þeim ekki að heyja orrustu Síonar, því að það, sem ég sagði í fyrra boði, já, einmitt það mun ég uppfylla — ég mun heyja orrustur yðar.

15 Sjá, eyðandann hef ég sent til að tortíma og eyða óvinum mínum, og innan fárra ára verða þeir ekki lengur til að vanhelga arfleifð mína og hæða nafn mitt á þeim landsvæðum, sem ég hef helgað til samansöfnunar minna heilögu.

16 Sjá, ég hef boðið þjóni mínum Joseph Smith yngri að segja við styrk húss míns, já, stríðsmenn mína, unga menn mína og miðaldra, að safnast saman til lausnar fólki mínu, brjóta niður turna óvina minna og dreifa varðmönnum þeirra —

17 En styrkur húss míns hefur ekki hlýtt orðum mínum.

18 En sem þeir hafa hlýtt orðum mínum, hef ég fyrirbúið þeim blessun og gjöf, séu þeir áfram trúir.

19 Ég hef heyrt bænir þeirra og veiti fórn þeirra viðtöku, og mér þykir æskilegt að leiða þá þetta langt til að reyna trú þeirra.

20 Og sannlega segi ég yður nú: Fyrirmæli gef ég yður, að allir þeir, sem hingað eru komnir og geta dvalið í nærliggjandi héruðum, dvelji þar —

21 En þeir, sem ekki geta dvalið þar og eiga fjölskyldur í austri, skulu halda kyrru fyrir um stund, eða eins og þjónn minn Joseph tilnefnir þeim.

22 Því að ég mun ráðleggja honum í þessu máli, og allt sem hann tilnefnir þeim mun uppfyllast.

23 Og allt mitt fólk, sem dvelur í nærliggjandi héruðum, sé mjög staðfast, bænheitt og auðmjúkt fyrir mér og opinberi ekki það, sem ég hef opinberað því, fyrr en ég tel viturlegt að það sé opinberað.

24 Talið ekki um dóm og hreykið yður hvorki af trú né máttugum verkum, heldur safnist gætilega saman á einum stað, eftir því sem unnt er, með tilliti til tilfinninga fólksins —

25 Og sjá, ég mun láta yður njóta hylli og náðar í augum þess, svo að þér fáið hvílst í friði og öryggi, meðan þér segið við fólkið: Látið oss njóta réttar og réttvísi í samræmi við lögin og bætið oss þann órétt, sem vér höfum verið beittir.

26 Sjá, ég segi yður nú vinir mínir: Á þennan hátt getið þér fundið náð fyrir augum fólksins, þar til Ísraelsher verður afar voldugur.

27 Og ég mun milda hjörtu fólksins öðru hverju eins og ég mildaði hjarta Faraós, þar til þjónn minn Joseph Smith yngri og öldungar mínir, sem ég hef tilnefnt, hafa fengið ráðrúm til að sameina styrk húss míns —

28 Og hafa sent hyggna menn til að gjöra það, sem ég hef boðið varðandi kaup á öllu því landi, sem unnt er að kaupa í Jacksonsýslu og nærliggjandi héruðum.

29 Því að vilji minn er, að þetta land verði keypt, og eftir að það hefur verið keypt, þá sé það eign minna heilögu, samkvæmt helgunarlögmálinu, sem ég hef gefið.

30 Og eftir að þessi lönd hafa verið keypt, mun ég ekki sakfella Ísraelsheri fyrir að taka til eignar sitt eigið land, sem þeir hafa áður keypt fyrir eigið fé, og brjóta niður turna óvina minna, sem á því kunna að vera, og dreifa varðmönnum þeirra og ná rétti mínum yfir óvinum mínum í þriðja og fjórða ættlið þeirra, sem forsmá mig.

31 En gjörið fyrst her minn mjög voldugan og lát helga hann fyrir mér, svo að hann verði bjartur sem sólin og heiður sem máninn og gunnfáni hans ógnvekjandi öllum þjóðum —

32 Svo að ríki þessa heims neyðist til að viðurkenna, að ríki Síonar sé vissulega ríki Guðs og Krists hans. Þess vegna skulum vér verða undirgefin lögum hennar.

33 Sannlega segi ég yður: Mér er það æskilegt, að æðstu öldungar kirkju minnar fái musterisgjöf sína frá upphæðum í húsi mínu, sem ég hef boðið að reist verði nafni mínu í landi Kirtlands.

34 Og þau boðorð, sem ég hef gefið varðandi Síon og lög hennar, skulu framkvæmd og uppfyllt, eftir lausn hennar.

35 Verið hefur dagur köllunar, en tíminn er kominn fyrir dag útvalningar, og þeir skulu útvaldir, sem verðugir eru.

36 Og það mun opinberað þjóni mínum með rödd andans, hverjir eru útvaldir, og þeir munu helgaðir verða —

37 Og sem þeir fylgja þeim ráðum, sem þeim eru gefin, svo munu þeir, eftir marga daga, hafa kraft til að afreka allt er Síon varðar.

38 Og enn segi ég yður: Biðjið um frið, ekki aðeins við þá sem hafa lostið yður, heldur við alla —

39 Og dragið upp friðartákn og sendið friðarboð til endimarka jarðar —

40 Og færið þeim friðarboð, sem hafa lostið yður, í samræmi við rödd andans, sem í yður býr, og allt mun samverka yður til góðs.

41 Verið þess vegna staðföst, og sjá og tak eftir. Ég er með yður, já, allt til enda. Já, vissulega. Amen.