97. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 2. ágúst 1833. Þessi opinberun varðar sérstaklega málefni hinna heilögu í Síon, Jacksonsýslu, Missouri, og er svar við beiðni spámannsins til Drottins um upplýsingar. Meðlimir kirkjunnar í Missouri urðu á þessum tíma fyrir hörðum ofsóknum og höfðu hinn 23. júlí 1833 neyðst til að undirrita samning um að yfirgefa Jacksonsýslu.
1–2, Margir hinna heilögu í Síon (Jacksonsýslu, Missouri) eru blessaðir fyrir staðfestu sína; 3–5, Parley P. Pratt er lofaður fyrir störf sín í skólanum í Síon; 6–9, Drottinn veitir þeim viðtöku, sem virða sáttmála sína; 10–17, Hús skal reist í Síon, þar sem hinir hjartahreinu munu sjá Guð; 18–21, Síon er hinir hjartahreinu; 22–28, Síon fær umflúið svipu Drottins, ef hún er staðföst.
1 Sannlega segi ég yður, vinir mínir: Ég beini til yðar rödd minni, já, rödd anda míns, svo að ég fái sýnt yður vilja minn varðandi bræður yðar í Síonarlandi, en margir þeirra eru sannlega auðmjúkir og leitast af kostgæfni við að nema vísdóm og finna sannleika.
2 Sannlega, sannlega segi ég yður: Blessaðir eru slíkir, því að þeim mun hlotnast. Því að ég, Drottinn, er miskunnsamur öllum hógværum og hverjum þeim sem ég vil, svo að ég sé réttlættur, þegar ég leiði þá til dóms.
3 Sjá, ég segi yður varðandi skólann í Síon, að ég, Drottinn, er mjög ánægður yfir því að skóli skuli vera í Síon og einnig með þjón minn Parley P. Pratt, því að hann er trúr í mér.
4 Og sem hann er áfram trúr í mér, svo skal hann halda áfram að vera í forsæti skólans í Síonarlandi, uns ég gef honum önnur fyrirmæli.
5 Og ég mun blessa hann margföldum blessunum við útlistun á öllum ritningum og leyndardómum, til uppbyggingar skólanum og kirkjunni í Síon.
6 Og öðrum í skólanum sýni ég, Drottinn, fúslega miskunn. Þó eru þeir sem aga verður, og verk þeirra skulu kunngjörð.
7 Öxin er lögð að rótum trjánna, og sérhvert tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggið og í eld kastað. Ég, Drottinn, hef talað það.
8 Sannlega segi ég yður, að öllum þeim, sem vita hjörtu sín einlæg og sundurkramin og anda sinn sáriðrandi og virða fúslega sáttmála sína með fórn — já, sérhverri fórn, sem ég, Drottinn, gef boð um — þeim veiti ég viðtöku.
9 Því að ég, Drottinn, mun láta þá bera ávöxt líkt og afar frjósamt tré, sem gróðursett er á gjöfulu landi, við tært vatn, og ber ríkulega dýrmætan ávöxt.
10 Sannlega segi ég yður, að það er vilji minn, að hús verði reist mér í landi Síonar, að þeirri fyrirmynd, sem ég hef gefið yður.
11 Já, reisið það skjótt fyrir tíundargreiðslur fólks míns.
12 Sjá, þetta er tíundin og fórnin, sem ég, Drottinn, krefst af þeirra hendi, að hús verði reist mér, Síon til sáluhjálpar —
13 Hús til þakkargjörðar fyrir alla hina heilögu og til leiðbeiningar öllum, sem kallaðir eru til helgra þjónustustarfa í öllum hinum mörgu köllunum þeirra og embættum —
14 Svo að þeir geti fullkomnast hvað varðar skilning á helgri þjónustu sinni, fræðisetningum, grundvallarreglum og kenningum í öllu er lýtur að ríki Guðs á jörðu, en yður hafa verið afhentir lyklar þess ríkis.
15 Og reisi fólkið mér hús í nafni Drottins og láti ekkert óhreint inn í það koma, svo að það vanhelgist ekki, skal dýrð mín hvíla á því —
16 Já, og návist mín mun vera þar, því að ég mun koma inn í það, og allir hjartahreinir, sem inn í það koma, skulu sjá Guð.
17 En verði það vanhelgað mun ég ekki inn í það koma og dýrð mín mun ekki vera þar, því að ég kem ekki inn í vanheilög musteri.
18 Og sjá nú, gjöri Síon þetta, mun henni vegna vel, hún mun breiða úr sér og verða afar dýrðleg, mikil og ógnþrungin.
19 Og þjóðir jarðar munu heiðra hana og segja: Vissulega er Síon borg Guðs okkar og vissulega getur Síon hvorki fallið né má hræra hana úr stað, því að Guð er þar og hönd Drottins er þar —
20 Og hann hefur unnið þess eið með valdi máttar síns að vera hjálpræði hennar og hár turn.
21 Þess vegna segir Drottinn sannlega svo: Lát Síon fagna, því að þetta er Síon — hinir hjartahreinu. Lát því Síon fagna á meðan allir hinir ranglátu syrgja.
22 Því að sjá og tak eftir, refsingin kemur skyndilega yfir hina óguðlegu sem hvirfilvindur. Og hver fær umflúið hana?
23 Refsivöndur Drottins mun ríða yfir nótt og dag, og frásögnin af því mun hrella alla. Já, því mun ekki linna fyrr en Drottinn kemur —
24 Því að réttlát reiði Drottins er tendruð gegn viðurstyggð þeirra og öllum ranglátum verkum þeirra.
25 Engu að síður mun Síon komast undan, ef hún gætir þess að gjöra allt, sem ég hef boðið henni.
26 En gæti hún þess eigi að gjöra það, sem ég hef boðið henni, mun ég vitja hennar í samræmi við öll verk hennar, með sárum þrengingum, með drepsótt, með plágu, með sverði, með refsingu, með eyðandi eldi.
27 Lát það eigi að síður hljóma einu sinni enn fyrir eyrum hennar, að ég, Drottinn, hef veitt fórnum hennar viðtöku, og syndgi hún ekki framar, mun ekkert af þessu yfir hana ganga —
28 Og ég mun blessa hana með blessunum og úthella margföldum blessunum yfir hana og ættliði hennar alltaf og að eilífu, segir Drottinn Guð yðar. Amen.