„Skírnarloforð,“ Barnavinur, maí 2024, 8–9.
Skírnarloforð
„Af hverju vilt þú skírast?“ spurði pabbi.
Þessi saga gerðist í Bandaríkjunum.
„Pabbi, má ég skírast þegar ég verð átta ára?“ spurði Keaton.
Pabbi leit upp frá spilinu sem þeir voru að spila. „Það er stór ákvörðun. Væri betra að bíða þar til þú ert 18 ára?“
Keaton hugsaði málið. „En ég er næstum orðinn átta ára núna. Það er svo langt þar til ég verð 18 ára!“
Pabbi var hljóður í smá stund. Hann færði kallinn sinn í spilinu. „Af hverju vilt þú skírast?“
„Ég elska Jesú,“ sagði Keaton. „Og ég vil fylgja honum.“
„Það er frábær ástæða til að láta skírast,“ sagði pabbi. Hann brosti. „Ég skal styðja þig ef það er ákvörðun þín. Hvort sem þú ert átta eða átján ára.“
Keaton vafði örmum sínum utan um pabba. „Takk!“
Pabbi var ekki meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hann fór samt stundum í kirkju með Keaton og mömmu. Þegar Keaton flutti ræður eða söng með hinum Barnafélagsbörnunum á sakramentissamkomu kom pabbi alltaf.
Eftir að spilinu lauk fann Keaton mömmu í eldhúsinu.
„Pabbi sagði að ég mætti skírast þegar ég verð átta ára,“ sagði hann.
Mamma brosti. „Það er svo spennandi! Hefurðu hugsað út í það hvern þú vilt fá til að skíra þig?“
Keaton setti diska á borðið. „Heldurðu að afi gæti gert það?“ Amma og afi voru að þjóna í trúboði í annarri borg.
„Við getum spurt,“ sagði mamma.
Eftir kvöldmat hringdi Keaton til ömmu og afa í myndsímtali í síma mömmu. Eftir nokkrar hringingar fylltu brosandi andlit þeirra skjáinn.
„Hæ, amma! Hæ, afi!“ sagði Keaton. „Getið þið hvað! Ég ætla að láta skírast á afmælinu mínu á þessu ári.“
„Það er dásamlegt!“ sagði amma.
„Vilt þú skíra mig, afi?“ spurði Keaton.
Brosið á afa varð jafnvel enn breiðara. „Það þætti mér vænt um.“
Þegar skírnardagurinn hans kom, var Keaton tilbúinn. Mamma og pabbi keyrðu hann að lítilli kapellu nálægt því sem amma og afi voru að þjóna í trúboði.
Keaton og afi voru klæddir í hvít föt. Þeir sátu saman á meðan að allir sungu. Þá fór mamma með bæn.
Því næst flutti pabbi ræðu. „Þegar þú ert skírður lofar þú að fylgja Jesú Kristi og halda boðorð hans. Hann kenndi okkur að elska hvert annað. Það er best að lifa eftir kærleikanum,“ sagði hann.
Keaton horfði á myndina af Jesú sem pabbi hélt á.
„Þegar við elskum aðra þá líður þeim eins og einhverjum sé annt um þá. Það gerir okkur líka kleift að vera glöð og öðlast frið.“ Pabbi horfði beint á Keaton. „Ég er stoltur af þér í dag að lofa að fylgja Jesú Kristi. Ég vona að skírn þín muni ávallt minna þig á að elska Guð og elska aðra.“
Keaton faðmaði pabba þétt að sér. Síðan fylgdi hann afa ofan í litla fontinn. Keaton setti aðra hönd á handlegg afa og síðan hina í lófa afa. Afi fór með skírnarbænina. Síðan hjálpaði hann við að leggja Keaton ofan í vatnið.
Þegar Keaton kom upp úr vatninu, brosti hann. Honum tókst það! Hann hafði fylgt Jesú Kristi. Bráðum myndi hann einnig vera staðfestur og meðtaka gjöf heilags anda. Þá væri hann meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Keaton var spenntur að halda loforð sitt um að minnast Jesú og halda boðorð hans.