„Góðvild í hádeginu,“ Barnavinur, maí 2024, 36–37.
Góðvild í hádeginu
Myndu hinir drengirnir líka gera gys að honum?
Þessi saga gerðist í Filippseyjum.
Dave heyrði mömmu sína banka á svefnherbergisdyrnar. Það var kominn tími til að fara á fætur. Hann velti sér út úr rúminu og þvoði sér í framan. Síðan sameinaðist hann mömmu, pabba og systkinum sínum í dagstofunni.
„Góðan daginn,“ sagði mamma. Dave brosti hálf sofandi. Fjölskyldan kraup saman og pabbi fór með bæn til að hefja daginn.
„Mig langar að miðla frábærri ritningargrein þennan morguninn,“ sagði mamma. Hún opnaði Mormónsbók. „Þetta er Moróní 7:45. ‚Kærleikurinn er langlyndur og góðviljaður.‘“
Dave hugsaði um ritningargreinina er hann tók sig til fyrir skólann. Áður en hann gekk út um dyrnar, fór hann með bæn. „Viltu hjálpa mér að sýna góðvild í dag?“ bað hann.
Í kennslunni var Dave glaður er hann vann námsefnið sitt. Hann hlustaði vandlega er Frida kennari lagði fyrir þau ný stafsetningarorð til að læra.
Það var brátt komið hádegi. Dave keypti sykraðar sætar kartöflur og kaldan safa. Hann settist niður með vinum sínum og fór að spjalla.
Fljótlega heyrði hann í nokkrum krökkum á næsta borði. Tveir drengir voru að stríða nýrri dreng að nafni Jose. Jose var lítill fyrir aldur sinn, en hann sýndi öðrum góðvild og vann vel í kennslustundunum. Hinir drengirnir voru með hádegismat, en ekki Jose.
„Hvers vegna ertu svona lítill? Færðu ekki að borða heima hjá þér?“ spurði Antonio.
Dave snéri sér að drengjunum og sá þegar Joaquin tók tösku Jose og henti henni til Antonio. Jose hljóp á eftir Antonio til að ná dótinu sínu.
„Viltu láta mig fá töskuna mína?“ sagði Jose.
En Antonio og Joaquin hlusta ekki. „Taskan þín er svo gömul og ljót!“ sagði Joaquin.
Dave heyrði öll þessi ljótu orð en var hræddur við að hjálpa Jose. Hvað myndu hinir krakkarnir hugsa? Myndu Joaquin og Antonio líka gera gys að honum?
Þá hugsaði hann um ritningargreinina sem mamma las um morguninn. Kærleikurinn er góðviljaður. Jesús Kristur myndi vilja að hann sýndi góðvild. Það væri hið rétta að gera.
Dave stóð upp og stillti sér upp fyrir framan hina drengina. „Hættið að stríða Jose. Látið hann fá töskuna sína til baka.“
„Hvað er að þér?“ spurði Joaquin.
„Af hverju eruð þið svona vondir við Jose? Hann gerði ekkert af sér,“ sagði Dave. Hann dró síðan djúpt andann. „Jesús elskar okkur og vill að við séum góð við hvert annað. Hættið að stríða Jose. Einelti er ekki í lagi. Ef þið haldið áfram að gera það þá næ ég í Fridu kennara.“
Antonio leit niður á skóna sína. Hann rétti Jose töskuna hans. „Fyrirgefðu,“ muldraði hann. Hann og Joaquin fóru aftur í sæti sín.
„Takk,“ sagði Jose.
Dave klappaði á öxl Jose. „Við erum vinir núna.“
Jose brosti.
Heima sagði Dave frá því sem hafði gerst.
„Þetta var ekki auðvelt, en þú gerðir það sem var rétt,“ sagði pabbi.
„Ég er stolt af þér fyrir að sýna góðvild,“ sagði mamma.
Næsta dag þegar þau mamma smurðu nesti fyrir hann, spurði Dave: „Getum við útbúið tvær samlokur?“
„Af hverju? Ertu svona svangur?“ spurði mamma.
Dave hló. „Nei, en í gær sá ég að Jose var ekki með neitt nesti. Mig langar að deila mínu.“
„Það er frábær hugmynd!“ Mamma náði í meira brauð og Dave bjó til aðra samloku.
Í hádeginu sátu Dave og Jose saman og borðuðu samlokurnar sínar. Það hafði þurft hugrekki til að stoppa hina krakkana í að leggja Jose í einelti. En Dave þótti vænt um nýja vin sinn og hann vissi að himneskur faðir var glaður að hann hefði valið að sýna góðvild.