Barnavinur
Háværir hvellir og bjartir litir
Júlí 2024


„Háværir hvellir og bjartir litir,“ Barnavinur, júlí 2024, 10–11.

Háværir hvellir og bjartir litir

„Hví lætur himneskur faðir ekki háværu hvellina fara?“ spurði Charlotte.

Þessi saga gerðist í Bandaríkjunum.

Charlotte hataði hávaða! Henni líkaði ekki hvernig hljóðið glumdi í eyrum hennar og bergmálaði í höfði hennar. Jafnvel þótt hún vissi að hún væri örugg varð hún spennt þegar ískraði í bílum, mannfjöldi fagnaði eða trommur drundu.

Charlotte var mjög illa við flugelda!

Fjölskylda hennar reyndi marga hluti til að hughreysta hana þegar hávaðinn var mikill. Pabbi hennar keypti sérstök heyrnarskjól til að útiloka hávaðann. Í þrumuveðri fékk hún að kúra undir sænginni hjá mömmu. Charlotte baðst líka fyrir um hjálp til að vera ekki hrædd.

Allir þessir hlutir hjálpuðu. En hún hélt áfram að vera hrædd við hávær hljóð.

„Við erum að fara á sérstaka flugeldasýningu í garðinum í kvöld sagði mamma við Charlotte. Viltu koma með?“

Charlotte yggldi brýrnar. „En flugeldar eru svo háværir.“

„Nú þegar þú ert eldri gæti verið skemmtilegra að horfa á flugelda,“ sagði mamma. „Allir vinir þínir verða þarna. Við getum meira að segja tekið heyrnarskjólin þín með. Heldurðu að þú sért tilbúin að prófa það?“

Charlotte andvarpaði. „Allt í lagi. Ætli ég geti ekki reynt það.“

Flugeldasýningin í garðinum byrjaði fullkomlega. Charlotte og vinir hennar hlupu um grasið, skiptust á góðgæti og fóru í leiki. Brátt varð himininn svartur. Charlotte settist niður og setti heyrnarskjólin á sig og horfði taugaóstyrk upp til himins.

BÚMM! BÚMM! HVELLUR!

Hjarta Charlotte sló hraðar og brjóstkassinn þandist út. Hún stökk á fætur og reyndi að komast frá háværu hvellunum allt um kring.

Mamma Charlotte hljóp á eftir henni og greip í hana. Þær settust aftur niður og mamma hennar faðmaði hana þéttingsfast. Tár runnu niður andlit Charlotte.

„Mér þykir leitt að þetta hafi hrætt þig,“ sagði mamma. „Ég er hérna hjá þér. Einbeitum okkur að litunum svo þú takir ekki svo mikið eftir hljóðunum. Hvað sérðu með augunum?“

Charlotte dró djúpt andann. „Ég sé gyllt og rautt og grænt.“

„Notaðu nú nefið,“ sagði mamma. „Hvernig lykt finnurðu?“

„Ég finn lykt af reyknum og grasinu“ sagði Charlotte. Og poppkorni!“

„Hvaða önnur skynfæri geturðu notað núna?“

Charlotte lokaði augunum. „Ég finn fyrir þeim. Þegar flugeldarnir springa, finn ég titring í brjóstkassanum.“

„Finnurðu eitthvað bragð?“ Spurði mamma.

Charlotte rak út úr sér tunguna. „Ég get ekki fundið bragð af flugeldunum.“ Hún hló.

Allt þetta gerði Charlotte forvitna. Hvernig gera menn þessa mismunandi liti? velti hún fyrir sér. Hvers vegna springa flugeldar? Hvernig gera þeir þessi mismunandi mynstur? Flugeldar virtust ekki svo hræðilegir núna.

„Mamma flugeldar eru frábærir!“ sagði Charlotte.

Ljósmynd
Stúlka með heyrnarskjól og mamma hennar liggja á grösugri hæð og horfa saman á flugelda

Þegar mamma hennar bjó um hana í rúmið þetta kvöld spurði Charlotte: „Hvers vegna svaraði himneskur faðir ekki bænum mínum þegar ég bað hann um að láta háværu hljóðin hverfa?“

Mamma hugsaði í smástund. „Himneskur faðir tekur ekki alltaf hræðilegu hlutina í burtu,“ sagði hún. „En stundum hjálpar hann okkur að sjá hlutina á annan hátt eða leiðir til okkar fólk sem hughreystir okkur.“

„Eins og hann hjálpaði mér í kvöld!“ sagði Charlotte.

„Það er rétt!“ Mamma brosti. „Þú fórst að sjá flugeldasýninguna þrátt fyrir að vera hrædd. Þá hjálpaði himneskur faðir þér að sefa óttann þinn. Hann hjálpaði þér einnig að sjá fegurðina í flugeldunum með því að nota önnur skynfæri.“

Charlotte hugsaði um björtu litina á himnum og brosti. Henni var samt illa við hávær hljóð. Þau hræddu hana enn. Hún vissi samt að himneskur faðir gæti alltaf hjálpað henni að vera hugrökk.

Ljósmynd
PDF-saga

Myndskreyting: Adam Howling

Prenta