2010–2019
Finna varanlegan frið og þróa eilífar fjölskyldur
október 2014


Finna varanlegan frið og þróa eilífar fjölskyldur

Fagnaðarerindi Jesú Krists veitir … undirstöðu og á henni getum við fundið varanlegan frið og þróað eilífar fjölskyldur.

Lífsferð okkar markast bæði af góðum og slæmum tímabilum. Hvert þeirra hefur sínar áskoranir. Hvernig við aðlögumst breyttum aðstæðum lífsins, fer eftir þeirri undirstöðu sem við byggjum á. Fagnaðarerindi Drottins okkar og frelsara er okkur örugg og traust undirstaða. Hún styrkist lið fyrir lið eftir því sem við hljótum þekkingu á eilífri áætlun Drottins fyrir börn hans. Frelsarinn er yfirkennarinn. Við fylgjum honum.

Ritningarnar vitna um hann og sjá okkur fyrir fullkomnu fordæmi til eftirbreytni. Ég hef sagt kirkjusöfnuðinum hér á fyrri ráðstefnu að ég á fjölda glósubóka með efni sem móðir mín skráði og notaði við að undirbúa lexíur sínar í Líknarfélaginu. Efnið á ekki síður við í dag og þá. Þar er að finna tilvitnun í Charles Edward Jefferson, sem skráð var 1908, um eiginleika Jesú Krists. Hún hljóðar svo:

„Að vera kristinn, er að hrífast svo einlæglega og innilega af Jesú, að allt líf manns snýst um hann, í þrá eftir að líkjast honum.

… Við getum þekkt hann fyrir orðin sem hann mælti, verkin sem hann gerði og þögn hans og rósemd. Við getum þekkt hann af þeim áhrifum sem hann hafði fyrst á vini sína og svo á óvini sína og loks á allt sitt samtíðarfólk. …

Óánægja [og vandamál] eru eitt af því sem er ríkjandi á okkar tíma. …

… Heimurinn kallar á eitthvað og veit vart hvað það er. Auðæfi hafa komið, … heimurinn er yfir fullur af … uppfinningum hæfra manna og snillinga, en … samt erum við friðlaus, óánægð og ráðvillt. … [Ef við opnum] Nýja testamentið, [eru þetta orðin sem við lesum]: ‚Komið til mín, og ég mun veita yður hvíld. Ég er brauð lífsins. Ég er ljós heimsins. Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki. Minn frið gef ég yður. þér munuð öðlast kraft. hjarta yðar mun fagna‘“ (The Character of Jesus [1908], 7, 11, 15–16).

Karlar og konur mótast að nokkru af þeim sem þau kjósa að umgangast. Þau mótast líka af þeim sem þau hrífast af og reyna að líkjast. Jesús er hin undursamlega fyrirmynd. Við getum aðeins fundið varanlegan frið með því að líta til hans og lifa.

Hvað getum við lært um Jesú sem verður okkur mikils virði?

„Höfundar Nýja testamentisins … létu sig engu skipta útlit hans, klæðnað eða híbýli. … Hann fæddist í fjárhúsi, vann í trésmiðju, kenndi í þrjú ár og dó loks á krossi. … Nýja testamentið var ritað af mönnum sem vildu fá okkur … til að beina augliti okkar að [honum],“ (The Character of Jesus, 21–22) í þeirri fullvissu að hann væri sannlega sonur Guðs, frelsari og lausnari heimins.

Ein dæmisaga frelsarans á einkum við um okkar tíma, að ég tel.

Hún er í 13. kapítula í Matteusarguðspjalli, þar sem við lesum:

„En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan.

Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós.

Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?

Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gjört. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu, að vér förum og tínum það?

Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið.

Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína“ (vers 25–30).

Hinn forni óvinur alls mannkyns hefur notað jafn margar blekkingar og hann fær tölu á komið, til að dreifa illgresi út og suður. Hann hefur fundið leiðir til að rjúfa jafnvel friðhelgi heimila okkar. Ranglætið og veraldarhyggjan eru orðin svo útbreidd að ekkert virðist vera hægt að gera til að reita það allt saman í burtu. Það berst með leiðurum og lofti í þau tæki sem við höfum þróað okkur til fræðslu og skemmtunar. Illgresið og hveitið hefur vaxið þéttar saman. Sá ráðsmaður sem heldur við akrinum, verður að leggja sig allan fram við að næra það sem gott er og gera það svo fagurt, að illgresið nái hvorki til auga, né eyra. Hve blessuð við erum sem meðlimir kirkju Drottins, að hafa hið dýrmæta fagnaðarerindi Drottins okkar og frelsara sem okkar lífsundirstöðu.

Í 2. Nefí í Mormónsbók, lesum við: „Því að sjá. Ég segi yður enn á ný, að ef þér viljið fara inn um hliðið og taka við heilögum anda, þá mun hann sýna yður allt, sem yður ber að gjöra“ (2 Nefí 32:5).

Við megum aldrei láta skarkala heimsins varna því að við fáum heyrt í þeirri kyrrlátu og lágu rödd.

Við höfum vissulega verið vöruð við atburðum sem við þurfum að takast á við á okkar tíma. Áskorun okkar er að búa okkur undir þá atburði sem Drottinn hefur sagt að komi örugglega.

Margir í okkar uggandi samfélagi skilja að upplausn fjölskyldunnar mun aðeins leiða til sorgar og vonleysi í hrjáðum heimi. Við, sem meðlimir kirkjunnar, höfum þá ábyrgð að vernda og varðveita fjölskylduna sem grunneiningu samfélags og eilífðar. Spámennirnir hafa margsinnis varað við óumflýjanlegri og eyðileggjandi afleiðingum hnignandi fjölskyldugilda.

Á meðan heimurinn gefur okkur vökult auga, skulum við vera viss um að fordæmi okkar styðji og efli þá áætlun sem Drottinn hefur gert fyrir börn sín hér í jarðlífinu. Mikilvægasta kennslan verður að eiga sér stað með réttlátu fordæmi. Heimili okkar þurfa að vera helgir staðir til að fá staðist þrýsting heimsins. Hafið í huga að sú blessun Drottins sem er mest allra, hlýst með réttlátum fjölskyldum.

Við verðum að meta vandlega frammistöðu okkar sem foreldra. Árangursríkasta kennslan sem barn getur hlotið, er veitt af umhyggjusömum feðrum og mæðrum. Við skulum fyrst benda á hlutverk mæðra. Hlýðið á þessa tilvitnun í Gordon B. Hinckley forseta:

„Sú kona sem gerir hús að heimili, leggur meira af mörkum til samfélagsins, en þær sem stjórna fjölmennum herflokkum eða stórum fyrirtækjum. Hver fær mælt þau áhrif sem móðir hefur á börn sín eða amma hefur á afkomendur sína eða frænkur og systur hafa á ættmenni sín?

Við fáum ekki mælt eða afmarkað áhrif þeirra kvenna, sem af eigin raun byggja og ala upp traust fjölskyldulíf, komandi kynslóðum til ævarandi góðs. Ákvarðanir kvenna þessarar kynslóðar munu hafa eilífar afleiðingar. Ég bendi á að ekkert tækifæri og engin áskorun mæðra okkar tíma er mikilvægari en sú að gera allt sem þær geta til að efla heimilið“ (Standing for Something [2000], 177–78). 10 Neglected Virtues That Will Heal Our Hearts and Homes [2000], 152).

Við skulum nú ræða um hlutverk feðra í lífi okkar:

Feður veita börnum sínum blessanir og framkvæma helgiathafnir fyrir þau. Það munu verða andlegir hápunktar í lífi þeirra.

Feður taka persónulega þátt í fjölskyldubænum, daglegum ritningalestri og vikulegum fjölskyldukvöldum.

Feður stuðla að fjölskylduhefðum með því að hjálpa við að skipuleggja sumarfrísferðir og skemmtiferðir með öllum í fjölskyldunni. Minningar um þessar sérstöku samverustundir munu aldrei hverfa úr huga barna þeirra.

Feður ræða reglulega við börn sín undir fjögur augu, til að kenna þeim reglur fagnaðarerindisins.

Feður kenna sonum sínum og dætrum um gildi vinnusemi og hjálpa þeim að setja sér góð lífsmarkmið.

Feður setja fordæmi um trúarlega þjónustu.

Bræður, minnist helgrar köllunar ykkar sem feður í Ísrael – mikilvægustu köllunar ykkar um tíma og eilífð – köllunar sem þið verðið aldrei leystir frá.

Á stikuráðstefnu, fyrir mörgum árum, sýndum við myndskeið til að útskýra efni boðskapar okkar. Efni myndarinnar festist vel í minni okkar á því ári sem við ferðuðumst um kirkjuna á tilteknar stikuráðstefnur. Við gátum næstum þulið upp textann utanbókar. Boðskapurinn hefur ekki horfið mér úr huga öllu þessi ár. Harold B. Lee forseti var sögumaður myndarinnar og sagði frá atviki sem gerðist á heimili dóttur hans. Hún var eitthvað á þessa leið:

Kvöld eitt var húsmóðir nokkur að reyna allt hvað hún gat til að ljúka því að setja ávexti í krukkur. Loks voru börnin tilbúinn í háttinn og friður kominn á. Nú var tími til að vinna ávextina. Þegar hún byrjaði að afhýða og skera ávextina, birtust tveir litlir drengir í eldhúsinu og sögðust vera tilbúnir fyrir kvöldbænina.

Móðirin, sem vildi vera ótrufluð, sagði snöggt við drengina: „Getið þið ekki bara flutt sjálfir bæn í kvöld, svo mamma geti haldið áfram að vinna við ávextina?“

Sá drengjanna sem eldri var stóð sem fastast og spurði: „Hvort er mikilvægar, bænir eða ávextir?“ Sjá Kenningar forseta kirkjunnar: Harold B. Lee [2000], 143–44.)

Stundum sjáum við aðstæður koma upp þar sem við gætum kennt barni lexíu, sem hefur varanleg áhrif á það á unga aldri. Auðvitað eru bænir mikilvægari en ávextir. Gott foreldri ætti aldrei að vera svo önnum kafið að það fái ekki gefið sér tíma til að eiga stund með barni sínu þegar hægt er að kenna mikilvæga lexíu.

Ég er viss um að aldrei áður á minni lífstíð hefur þörfin verið meiri en einmitt nú, á því að börn himnesks föður fái handleiðslu trúfastra og dyggra foreldra að halda. Við búum að þeirri göfugu arfleifð að foreldrar fórnuðu næstum öllum sínum eigum til að finna stað þar sem þeir mættu ala upp börn sín upp í trú og hugrekki, svo komandi kynslóð nyti fleiri tækifæra en þau höfðu. Við verðum að finna þennan sama einbeitta anda hið innra og sigrast á áskorunum okkar með sama fórnaranda. Við verðum að innræta komandi kynslóðum tiltrú á kenningar Drottins okkar og frelsara.

„Og nú synir mínir. Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið“ (Helaman 5:12).

Fagnaðarerindi Jesú Krists veitir þessa undirstöðu og á henni getum við fundið varanlegan frið og þróað eilífar fjölskyldur. Um það ber ég vitni, í nafni Drottins okkar og frelsara, já, Jesú Krists, amen.