Verið trú Guði og verki hans
Við þurfum öll að sækjast eftir eigin vitnisburði um Jesú Krist, hafa taumhald á ástríðum okkar, iðrast synda okkar og vera trú Guði og verki hans.
Síðastliðinn október var mér úthlutað því verkefni að heimsækja Bretland ásamt M. Russell Ballard forseta og öldungi Jeffrey R. Holland, þar sem við þrír höfðum þjónað sem ungir trúboðar. Við fengum þau forréttindi að kenna og vitna, ásamt því að endurlifa kirkjusöguna á Bretlandseyjum, þar sem langalangafi minn, Heber C. Kimball, og félagar hans voru fyrstu trúboðarnir.1
Russell M. Nelson forseti stríddi okkur vegna verkefnisins og vakti athygli á að óvanalegt væri að senda þrjá postula til svæðis þar sem þeir höfðu þjónað sem trúboðar á yngri árum. Hann viðurkenndi að allir þráðu það að heimsækja gamla trúboðið sitt. Hann útskýrði hnitmiðað með skínandi brosi að ef aðrir þrír postular væru til, sem þjónuðu í sama trúboði fyrir meira en 60 árum, þá gætu þeir einnig hlotið svipað verkefni.
Í undirbúningi mínum fyrir verkefnið, las ég aftur bókina Life of Heber C. Kimball, skrifaða af barnabarni hans, Orson F. Whitney, sem síðar var kallaður sem postuli. Þessa bók gaf mér kær móðir mín, þegar ég var næstum sjö ára. Við vorum að búa okkur undir vígslu minnivarðans Þetta er staðurinn, þann 24. júlí 1947, sem George Albert Smith forseti framkvæmdi.2 Hún vildi að ég vissi meira um forföður minn, Heber C. Kimball.
Í bókinni er djúpstæð yfirlýsing sem rakin er til Kimballs forseta, sem er mikilvæg á okkar tíma. Áður en ég segi ykkur frá yfirlýsingunni, ætla ég að segja stuttlega frá aðdragandanum.
Meðan spámaðurinn Joseph Smith var vistaður í Liberty-fangelsinu, var það á ábyrgð postulanna Brighams Young og Hebers C. Kimball, í gífurlega fjandsamlegum kringumstæðum, að hafa umsjón með brottflutningi hinna heilögu frá Missouri. Brottflutningarnir voru að mestum hluta nauðsynlegir vegna útrýmingartilskipunar fylkisstjórans, Lilburn W. Boggs.3
Nærri 30 árum síðar rifjaði Heber C. Kimball, þá í Æðsta forsætisráðinu, upp þessa sögu með nýrri kynslóð og kenndi: „Ég segi ykkur að mörg ykkar munu upplifa tíma þar sem þið munið standa frammi fyrir öllum þeim erfiðleikum, raunum og ofsóknum sem þið fáið staðist og fjölda tækifæra til að sýna að þið séuð trú Guði og verki hans.“4
Heber hélt áfram: „Til að geta tekist á við þá erfiðleika sem fyrir ykkur liggja, er nauðsynlegt að þið sjálf hafið þekkingu á sannleika þessa verks. Erfiðleikarnir verða svo krefjandi að sá karl eða sú kona sem ekki hefur þessa persónulegu vitneskju eða vitnisburð, mun bregðast. Ef þið hafið ekki vitnisburð, lifið þá réttlátlega og ákallið Drottin og látið ekki af því [fyrr en] þið [öðlist] hann. Ef þið gerið það ekki, fáið þið ekki staðist. … Sá tími mun koma að enginn karl eða kona fær þraukað með ljósi sem fengið er að láni. Hver og einn mun þurfa að vera leiddur af sínu innra ljósi. … Ef þið hafið það ekki, þá fáið þið ekki staðist; leitið þess vegna vitnisburðar um Jesú og haldið ykkur fast við hann, svo að þið hrasið hvorki né fallið á tíma prófrauna.“5
Við þurfum öll persónulegan vitnisburð um verk Guðs6 og hið mikilvæga hlutverk Jesú Krists. Í 76. kafla Kenningar og sáttmála er sagt frá dýrðarríkjunum þremur og himneskri dýrð líkt við sólina. Þar á eftir er yfirjarðneska ríkinu líkt við tunglið.7
Áhugavert er að sólin lýsir eigin ljósi, en tunglið endurspeglar ljósinu eða „ljósi sem fengið er að láni.“ Í versi 79 þar sem sagt er frá yfirjarðneska ríkinu, segir: „Þetta eru þeir, sem ekki eru hugdjarfir í vitnisburðinum um Jesú.“ Við getum ekki erft himneska ríkið og lifað með Guði föðurnum með lánuðu ljósi; við þurfum eigin vitnisburð um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans.
Við lifum í heimi þar sem misgjörðir eru miklar8 og hjörtu hverfa frá Guði vegna mannasetninga.9 Eitt mest sannfærandi dæmi í ritningunum, sem tengist áhyggjum Hebers C. Kimball um að leita sér vitnisburðar um verk Guðs og Jesú Krist, er að finna í leiðsögn Alma til sona sinna þriggja – Helamans, Síblons og Kóríantons.10 Tveir sona hans höfðu verið trúir Guði og verki hans. Einn sonur hafði hinsvegar tekið slæmar ákvarðanir. Mér finnst þýðingarmesta atriðið við leiðsögn Alma vera það að hann veitti hana sem faðir, börnum sínum til gagns.
Helsta áhyggjuefni Alma, líkt og hjá Heber C. Kimball, var að hvert þeirra hefði vitnisburð um Jesú Krist og væri trúr Guði og verki hans.
Í markverðri kennslu Alma til sonar síns, Helamans, gefur hann afgerandi fyrirheit um að þeir sem „[setja] traust sitt á Guð, [hljóti] stuðning í raunum sínum, erfiðleikum og þrengingum, og [þeim muni] lyft upp á efsta degi.“11
Þótt Alma hafi hlotið opinberun þar sem hann sá engil, þá er slíkt sjaldgæft. Hughrif frá heilögum anda eru dæmigerðari. Slík hughrif geta verið jafn mikilvæg og birting engla. Joseph Fielding Smith forseti kenndi: „Hughrif sálarinnar sem koma frá heilögum anda, eru langtum þýðingarmeiri en sýnir. Þegar andi talar við anda er langtum erfiðara að afmá þau merki sem greypt eru í sálina.“12
Þetta leiðir okkur að leiðsögn Alma til næst elsta sonar hans, Síblons. Síblon var réttlátur, eins og bróðir hans Helaman. Sú leiðsögn sem ég vil leggja áherslu á er í Alma 38:12, sem að hluta hljómar svo: „Gættu þess að hafa taumhald á ástríðum þínum, svo að þú fyllist elsku.“
Taumhald er áhugavert orð. Þegar við ríðum á hesti, notum við tauminn til að stjórna honum. Gott samheiti gæti því verið að stýra, stjórna eða hafa heimil á. Gamla testamentið segir okkur hafa hrópað af gleði þegar við komumst að því að við myndum hljóta efnislíkama.13 Líkaminn er ekki illur – hann er fallegur og nauðsynlegur – en sumar ástríður geta fjarlægt okkur Guði og verki hans sé ekki rétt farið að og taumhald sé haft á þeim, og haft slæm áhrif á vitnisburð okkar.
Við skulum ræða tvenns konar ástríður sérstaklega – fyrst reiði, síðan losta.14 Áhugavert er að séu þær óbeislaðar og þeim gefinn laus taumur, geta þær valdið miklum harmi, dregið úr áhrifum andans og aðskilið okkur frá Guði og verki hans. Andstæðingurinn nýtir hvert tækifæri til að fylla líf okkar með myndum af ofbeldi og ósiðsemi.
Í sumum fjölskyldum er ekki óalgengt að reiður eiginmaður eða eiginkona lemji í maka sinn eða barn. Í júlí tók ég þátt í málþingi allra þingflokka Bretlands í London.15 Áhersla var lögð á að ofbeldi gagnvart konum og ungmennum væri gífurlegt vandamál um allan heim. Auk líkamlegs ofbeldis, hafa aðrir ástundað munnlegt ofbeldi. Fjölskylduyfirlýsingin segir okkur að þeir „sem misþyrma maka eða barni, … munu síðar meir verða að standa ábyrgir gerða sinna frammi fyrir Guði.“16
Nelson forseti lagði sterka áherslu á þetta í gærmorgun.17 Ákveðið því að þið munið ekki misþyrma maka ykkar eða börnum líkamlega, munnlega eða tilfinningalega, hvort sem foreldrar ykkar hafi beitt ykkur ofbeldi eða ekki.
Ein helsta áskorun okkar tíma er ágreiningur og munnlegt ofbeldi sem tengjast samfélagslegum vandamálum. Í mörgum tilfellum hafa reiði og svívirðilegt málfar komið í stað rökhyggju, umræðna og háttvísi. Margir hafa horfið frá því að fylgja áminningu leiðandi postula frelsarans, Péturs, um að tileinka sér kristilega eiginleika, líkt og sjálfsaga, þolgæði, guðrækni, bróðurelsku og kærleika.18 Þau hafa einnig látið af hinum kristilega eiginleika auðmýkt.
Auk þess að halda aftur af reiði og hafa taumhald á öðrum ástríðum, þurfum við að lifa hreinu, dyggðugu lífi með því að hafa stjórn á hugsunum okkar, tungu og verkum. Við þurfum að forðast klám, meta réttmæti þess sem við streymum inn á heimili okkar og forðast hvers konar syndsamlegt framferði.
Þetta leiðir okkur að leiðsögn Alma til sonar hans, Kóríantons. Ólíkt bræðrum sínum, Helaman og Síblon, hafði Kóríanton brotið siðferðilega af sér.
Þar sem Kóríanton hafði sýnt af sér ósiðsemi, var nauðsynlegt fyrir Alma að kenna honum um iðrun. Hann þurfti að kenna honum um alvarleika syndar og svo hvernig ætti að iðrast.19
Hin fyrirbyggjandi leiðsögn Alma var að taumhald skyldi haft á ástríðum og leiðsögn hans til þeirra sem hefðu syndgað, var að þeir skyldu iðrast. Nelson forseti veitti meðlimum mikilvæga leiðsögn um iðrun á aðalráðstefnu í apríl 2019. Hann gerði ljóst að dagleg iðrun væri ómissandi í lífi okkar. „Iðrun er ekki atburður; hún er ferli. Hún er lykill að hamingju og hugarró,“ kenndi hann. „Dagleg iðrun er vegur hreinleikans og hreinleika fylgir kraftur.“20 Ef Kóríanton hefði gert það sem Nelson forseti lagði til, hefði hann iðrast um leið og óhreinar hugsanir hefðu komið upp í huga hans. Meiriháttar brot hefðu ekki gerst.
Lokaráð Alma til sona sinna er einhver mikilvægasta kenningin í öllum ritningunum. Hún tengist friðþægingunni sem Jesús Kristur framkvæmdi.
Alma bar vitni um að Kristur myndi bera burt synd.21 Án friðþægingar frelsarans, myndi hin eilífa regla réttlætis krefjast refsingar.22 Vegna friðþægingar frelsarans, getur miskunn verið ráðandi fyrir þá sem hafa iðrast og hún getur gert þeim kleift að snúa aftur í návist Guðs. Það væri gott fyrir okkur að ígrunda þessa dásamlegu kenningu.
Enginn getur snúið aftur til Guðs eingöngu vegna eigin góðverka; við þörfnumst öll ávinnings fórnar frelsarans. Allir hafa syndgað og það er einungis með friðþægingu Jesú Krists sem við fáum notið náðar og lifað með Guði.23
Alma veitti Kóríanton líka dásamlega leiðsögn sem á við um alla sem hafa farið eða munu fara í gegnum iðrunarferlið, sama hvort syndirnar séu smáar eða alvarlegar, eins og þær sem Kóríanton drýgði. Vers 29 í Alma 42 segir: „Og nú, sonur minn, þrái ég, að þú látir þetta ekki angra þig lengur, heldur látir einungis syndir þínar angra þig með því hugarangri, sem leiðir þig til iðrunar.“
Kóríanton fylgdi leiðsögn Alma og bæði iðraðist og þjónaði með sæmd. Vegna friðþægingar frelsarans, stendur lækning öllum til boða.
Á tíma Alma, á tíma Hebers og vissulega á okkar tíma, þurfa allir að sækjast eftir eigin vitnisburði um Jesú Krist, hafa taumhald á ástríðum sínum, iðrast synda sinna og finna frið með friðþægingu Jesú Krists og vera trúir Guði og verki hans.
Í nýlegri ræðu og aftur nú í morgun, orðaði Russell M. Nelson forseti það á þennan hátt: „Ég bið ykkur að axla ábyrgð á vitnisburði ykkar um Jesú Krist. Vinnið fyrir honum. Gerið hann að ykkar eigin. Hlúið að honum. Endurnærið hann, svo hann styrkist. Fylgist [síðan] með kraftaverkunum gerast í lífi ykkar.“24
Ég er þakklátur fyrir að við munum nú heyra frá Nelson forseta. Ég ber vitni um að Nelson forseti er spámaður Drottins á þessum tíma. Ég elska og varðveiti þann dásamlega innblástur og leiðsögn sem við hljótum með honum.
Sem postuli Drottins Jesú Krists, ber ég mitt örugga vitni um guðleika frelsarans og raunveruleika friðþægingar hans, í nafni Jesú Krists, amen.