„Klæði hins heilaga prestdæmis,“ Líahóna, sept. 2024.
Musterisklæði hins heilaga prestdæmis
Sem hluta af musterisgjöfinni, höfum við hlotið helga og áþreifanlega áminningu um sáttmála okkar – tákn um frelsarann sjálfan.
Hluti af Adam og Eva, eftir Douglas M. Fryer
Burt séð frá undirbúningnum sem Adam og Eva vafalaust fengu og fullvissunni sem þau reyndu að hafa í huga, þá hlýtur það að hafa verið þeim mikil viðbrigði að yfirgefa paradísargarðinn Eden og stíga inn í fallinn heim.
Af alvöruþunga varð þeim ljóst hvað fólst í umskiptum hins friðsæla, áhyggjulausa lífs yfir í heim andstæðna og svita, þyrna og sorgar – og endanlega þar á eftir nokkru sem kallaðist dauði. Í upphafi gátu þau ekki hafa vitað hvað allt þetta þýddi, en þeim lærðist fljótt að hver dagur gæti fært þeim nýjan sársauka. Sársaukafyllst alls var vissulega sú vitneskja að þau myndu takast á við allt þetta aðskilin frá föður sínum á himnum – „útilokuð úr návist hans,“ skráði Móse síðar.
Í ljósi þessa aðskilnaðar og einmanaleika í köldum og drungalegum heimi, hve hughreystandi það hlýtur að hafa verið fyrir Adam og Evu að minnast eins atriðis: Að loforð höfðu verið gefin – nokkuð sem er heilagt og eilíft og kallast sáttmálar. Þau höfðu lofað að hlýða föður sínum alla daga lífs síns og hann hafði lofað að sjá þeim fyrir frelsara sem myndi lina þjáningar þeirra og sorg, friðþægja fyrir mistök þeirra og leiða þau aftur í návist hans.
Hvernig myndu svo þessar dauðlegu manneskjur minnast þess sem þær höfðu lofað? Hvernig gætu þær verið meðvitaðar um hættulegar aðstæður sínar – stöðugt sýnt árvekni, dag og nótt?!
Áminning um sáttmála þeirra
Fyrir slíka áminningu færði hann þeim „skinnklæði.“ Hvílík gjöf sem það var og hve vel tímasett. Eftir að Adam og Eva höfðu neytt af hinum forboðna ávexti, urðu þau næstum samstundis meðvituð um að þau væru nakin. Í fyrstu reyndu þau að hylja nekt sína með fíkjulaufum. Síðan, af ótta við að það væri ófullnægjandi, reyndu þau að fela sig fyrir Drottni. (Svo kjánaleg viðleitni var staðfesting á því að hið dauðlega líf var að taka yfir!) Frá þeirri stundu fram til okkar tíma, hefur kærleiksríkur faðir boðið börnum sínum að koma úr felum til sín. Og eins og með skinnklæðin þá og ýmsan fatnað upp frá því, hefur hann af miskunn sinni, ekki skilið okkur eftir nakin, heldur íklætt hina hlýðnu „skikkju réttlætisins,“ sem áminningu um loforð okkar og sáttmála. Þessi „klæði hjálpræðisins“ tákna æðstu gjöf allra, friðþægingu Jesú Krists.
Klæðin eru táknræn fyrir frelsarann
Öll þessi hugsun um Adam og Evu og sáttmála og klæðnað er auðvitað meira en bara huglæg æfing. Það er ekki erfitt að ímynda sér hvernig Adam og Evu leið, því við stöndum líka frammi fyrir erfiðleikum í þessum fallna heimi. Við höfum einnig verið aðskilin návist Guðs og við fjarlægjumst enn frekar í hvert sinn sem við brjótum af okkur. Eins og Adam og Evu, hefur okkur hefur verið gefinn þessi sami frelsari, Jesú Krist frá Nasaret, Alfa og Ómega, son hins lifanda Guðs. Líkt og Adam og Eva, höfum við gert sáttmála við Guð. Sem hluta af musterisgjöfinni, hefur okkur einnig verið veitt helg og áþreifanleg áminning um þessa sáttmála – tákn um frelsarann sjálfan. Á okkar ráðstöfunartíma nefnist hún klæði hins heilaga prestdæmis.
Við klæðumst þessum klæðum undir ytri fatnaði okkar. Hver sem ábyrgð mín er, hvert sem hlutverk mitt er í lífinu, hverjar sem skyldur daglegs lífs eru, þá eru sáttmálar mínir undirstaða alls þessa – alltaf og að eilífu. Undirstaða alls þessa eru hin helgu loforð sem ég sárlega held fast í. Klæðunum er ekki flaggað frammi fyrir heiminum og ekki heldur sáttmálum mínum. Ég held hins vegar hvorutveggja nálægt mér – eins nálægt og ég mögulega get. Þau eru mér afar persónuleg og einstaklega heilög.
Til að minnast þessara sáttmála, þessara tvíhliða loforða, þá klæðumst við þessum klæðum allt okkar æviskeið. Þessi iðkun endurspeglar þrá okkar um að frelsarinn hafi stöðug áhrif á líf okkar. Önnur ástkær tákn eru reglubundin. Við skírumst einu sinni á ævinni. Við meðtökum sakramentið einu sinni í viku. Við förum í musterið eins og aðstæður leyfa. Annað á þó við um klæði hins heilaga prestdæmis: Það tákn heiðrum við dag og nótt.
Það á líka við um sáttmála – sem ekki eru settir til hliðar vegna þæginda eða kæruleysis og þeim er ekki breytt til að aðlagast háttum og tísku samfélagsins. Í lífi lærisveins Jesú Krists verður að breyta háttum heimsins, til að þeir samræmist sáttmálum okkar, en ekki öfugt.
Þegar við klæðumst klæðunum, erum við, eins og Æðsta forsætisráðið hefur kennt, að íklæðast heilögu tákni um Jesú Krist. Ef svo er, hvers vegna ættum við að leita að ástæðu til að afklæðast því tákni? Hvers vegna ættum við að afsala okkur fyrirheitinu um kraftinn, verndina og miskunnina sem klæðin standa fyrir? Þvert á móti, ættum við óðfús að vilja fara í þau aftur, eins fljótt og auðið er, hvenær sem við þurfum að fara tímabundið úr klæðunum, því við höfum bæði loforðin og hætturnar í huga sem ljá sáttmálum okkar merkingu. Framar öllu, þá minnumst við krossins og hinnar tómu grafar Krists.
Sumir gætu sagt: „Ég minnist Jesú á annan máta.“ Og ég myndi svara: Það er dásamlegt. Því meira því betra. Hugsum öll um eins margar leiðir og við getum til að standa við þá skuldbindingu okkar að „hafa hann ávallt í huga.“ Í þeirri viðleitni væri óheiðarlegt að vanrækja af ásettu ráði áminninguna sem Drottinn sjálfur veitti þeim sem hafa hlotið musterisgjöf, klæði hins heilaga prestdæmis.
Jesús Kristur og fagnaðarerindi hans skipta mig öllu. Allar mínar eilífu vonir og væntingar, allt sem mér er kært, tengist honum. Hann er „bjarg sáluhjálpar minnar,“ leið mín til að komast til himnesks föður, eina leið mín til baka til þess sem ég eitt sinn átti og vil nú upplifa aftur, ásamt svo ótal mörgu öðru. Gjöf hans til okkar er sú rausnarlegasta sem ég hef nokkru sinni hlotið, sú rausnarlegasta sem nokkru sinni hefur verið gefin – keypt eins og hún var, með óendanlegum þjáningum, fyrir óendanlega marga, gefin af óendanlegri elsku. Þyrna og þistla, sársauka og angist, sorg og synd þessa fallna heims hefur „Kristur innbyrt.“
Ég hef því klæðst musterisklæðum hins heilaga prestdæmis – alla daga og nætur, eftir því sem hefur verið viðeigandi, frá því að mér var veitt musterisgjöf mín fyrir 64 árum, þá 19 ára – vegna þess að ég elska hann og þarfnast fyrirheitanna sem þau standa fyrir.
Spurningar um notkun klæðanna?
Sum ykkar gætu verið að lesa þessa grein í þeirri von að ég svari ákveðinni spurningu um klæðin. Þið gætuð verið að vonast eftir setningum eins og „svo segir Drottinn“ – eða jafnvel „svo segja þjónar hans“ – varðandi hjartansmál ykkar. Spurning ykkar gæti stafað af persónulegum aðstæðum sem tengjast atvinnu, líkamsrækt, hreinlæti, loftslagi, siðferðiskennd, hreinlætisaðstöðu eða jafnvel heilsufarsástandi.
Svör við sumum slíkum spurningum má finna í temples.ChurchofJesusChrist.org og í kafla 38.5 í Almennri handbók. Hægt væri að ráðfæra sig við trausta fjölskyldumeðlimi og leiðtoga varðandi persónuleg málefni. Í helgiathöfnum innvígslunnar er þó veitt mjög skýr leiðsögn og svo er það ávallt og ævarandi faðir ykkar á himnum, sem þekkir og elskar ykkur og skilur allt varðandi aðstæður ykkar. Hann myndi gleðjast yfir því að þið spyrðuð hann þessara spurninga persónulega.
Ljósmynd af turn St. George musterisins, Utah
Vinsamlega misskiljið ekki. Þegar þið leitið guðlegrar leiðsagnar, mun andinn ekki innblása ykkur til að draga úr því að fylgja fyrirmælunum sem musterið veitti og þeirri spámannlegu leiðsögn sem Æðsta forsætisráðið miðlaði í nýlegri yfirlýsingu sinni. Kærleiksríkur faðir mun ekki réttlæta að þið gerið minna en þið getið til að fylgja hollustu- og siðferðisstöðlum hans, sem munu blessa ykkur nú og ævinlega. En skilur hann hins vegar spurningar ykkar og hjálpar hann ykkur að hljóta blessanir þess að virða klæðin og halda sáttmála ykkar? Já! Ættuð þið einnig að ráðfæra ykkur við viðurkennt sjúkra- og heilbrigðisstarfsfólk þegar þörf krefur? Auðvitað! Ættuð þið að hunsa heilbrigða skynsemi eða horfa yfir markið? Ég bið þess að þið gerið það ekki.
Ég get ekki svarað öllum spurningum sem þið hafið. Ég get ekki einu sinni svarað öllum spurningum mínum. Ég get hinsvegar, sem postuli Drottins Jesú Krists, lofað ykkur liðsinni kærleiksríks Guðs, sem óskar ykkur allrar farsældar og blessana á þann hátt sem þið fáið ekki skilið eða séð fyrir, er þið haldið sáttmálana sem þið hafið gert við hann.