„Finna líkn í sáttmálssambandi okkar við Guð,“ Líahóna, sept. 2024.
Finna líkn í sáttmálssambandi okkar við Guð
Jesús Kristur er uppspretta hreinnar elsku, lækningar, hamingju og líknar.
Hluti af Hann kemur aftur til að ráða og ríkja, eftir Mary R. Sauer
Að finna líkn í sáttmálssambandi okkar við Guð hefur verið ofarlega í hjarta mínu og huga um nokkurt skeið. Er spámaður Drottins hefur kennt okkur og hvatt til að læra um sáttmála, musteri og prestdæmiskraft, hef ég leitað, elskað og nærst af hinum endurnærandi sannleika sem er að finna í sáttmálum.
Okkur var ætlað að vinna með Drottni á öflugan máta í gegnum sáttmála okkar. Hann þráir að vera með okkur í áhyggjum okkar og ákvörðunum. Við þurfum ekki að takast á við áskoranir okkar, sorgir, óöryggi og sorgir lífsins ein á báti. Hann verður við hlið okkar. Hann hefur sagt: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. “ (Jóhannes 14:18).
Russell M. Nelson forseti lýsti persónuleika Guðs og mikilli elsku hans til okkar, er hann kenndi: „Sáttmálsvegurinn snýst eingöngu um samband okkar við Guð.“ Hann sagði: „Þegar þið og ég höfum gert sáttmála við Guð, verður samband okkar við hann miklu nánara en áður en við gerðum sáttmála okkar. Við erum nú bundin saman. Vegna sáttmála okkar við Guð, mun hann aldrei þreytast á viðleitni sinni til að hjálpa okkur og við munum aldrei þurrausa hina náðarsamlegu þolinmæði hans til okkar. Sérhvert okkar á sér sérstakan stað í hjarta Guðs. Hann bindur miklar vonir við okkur.“
Mín mesta uppspretta friðar
Sem ógift systir, á þetta kærleiksríka og miskunnsama sáttmálssamband við föður minn á himnum og frelsarann, sterkan sess í lífi mínu og hefur verið og er mín mesta uppspretta líknar og friðar. Burtséð frá hjúskaparstöðu okkar eða bakgrunni, þá þráir Drottinn að við vinnum með honum á kröftugan hátt – að vera „eitt“ (3. Nefí 19:23) með honum í „öllu, sem [við tökum okkur] fyrir hendur“ (Alma 37:37). Þegar við áköllum Drottin um stuðning okkar og „látum elsku [hjarta okkar] streyma til [hans] að eilífu“ (Alma 37:36; skáletrað hér), þá getur líf okkar fyllst þessum fallegu sáttmálsböndum.
Fyrir tilstuðlan Jesú Krists getum við hlotið líkn frá því að takast ein á við áskoranir lífsins.
Við höfum öll áhyggjur og þarfir sem okkur finnst við takast á við ein. Hann lætur sig skipta áhyggjur okkar, hversu smáar eða stórar sem þær eru. Ég hef fundið þörf fyrir hjálp hans þegar ég hef áhyggjur af því sem virðist vera smávægilegt en er ávallt til staðar og sem ég kalla „húsnæðisviðhald.“ Án maka til að ráðfæra mig við get ég haft áhyggjur einsömul af réttum verktaka, sanngjörnum kostnaði, að taka mér frí frá vinnu til að vera heima og verið góður ráðsmaður yfir fjármálum mínum og heimili. Það var sigur um daginn að fá gert við bílskúrshurðina mína! Drottinn heyrði áhyggjur mínar. Þótt smávægilegt væri í stærra samhengi, þá svaraði hann bæn minni. Hvernig? Ég öðlaðist þá blessun að vita hvað ég ætti að gera til að laga hurðina með aðstoð góðs nágranna, hjálp andans og myndbandi á YouTube.
Ef Drottinn er vakandi fyrir hinum smæstu þörfum, ímyndið ykkur þá þrá hans til að blessa okkur og styðja í mikilvægari málefnum hjartans og sálarinnar, sem eru ófá talsins: Misnotkun, ánetjun, erfið fjölskyldusambönd, missir og vonbrigði, viðvarandi andleg og líkamleg heilsuvandamál, fjárhagserfiðleikar, stöðugar áhyggjur af foreldrahlutverkinu og af því að annast foreldra, erfiðleikum með persónulega trú, barni eða maka sem velur að taka ekki þátt í fagnaðarerindinu.
Í umfangi og hrumleika lífsins hef ég hallað mér mikið að og haldið fast í sáttmálssamband mitt við Guð. Þegar ég hef treyst á kærleiksríka umönnun hans og reynt mitt besta til að helga honum líf mitt, hefur hann veitt líkn með prestdæmiskrafti sínum og annast andlegar og stundlegar þarfir mínar. Hann hefur veitt líkn frá ótta, líkn frá óöryggi, líkn frá drambi, líkn frá synd, líkn frá einmanaleika, líkn frá sorg.
Nelson forseti kenndi skýrt og af öryggi: „Umbun þess að halda sáttmála við Guð, eru himneskur kraftur – kraftur sem styrkir okkur til að standast betur prófraunir okkar, freistingar og sorgir.“
Fyrir tilstuðlan Jesú Krists getum við hlotið líkn frá því að takast á við áskoranir lífsins einsömul.
Systir Yee með tveimur systrum í Míkrónesíu sem eru að ala upp börn sem foreldrar hafa yfirgefið.
Systur „á eyjum úthafs“
Á sama tíma og ég hef verið að hugleiða blessanir sáttmálssambandsins sem við eigum við Guð, varð mér hugsað um verkefni mitt að heimsækja Norður-Asíusvæðið.
Ég naut þeirra forréttinda að ferðast til litlu eyjarinnar Chuuk í Míkrónesíu, um 2.400 kílómetrum suðaustur af Japan. Tvær systranna á Weno, Chuuk, hafa fórnað lífi sínu til að ala upp börn sem hafa verið yfirgefin af foreldrum sínum. Þessum systrum fannst mikilvægt að ala þessi börn upp í fagnaðarerindinu. Önnur þessara systra er einhleyp og er í fullri vinnu sem námsráðgjafi.
Ég miðlaði systrunum boðskap Nelsons forseta til systranna í kirkjunni, sem er að þið systurnar eruð elskaðar, nauðsynlegar og afar dýrmætar.
Hin fallega einhleypa systir sem er að ala upp frænkur sínar og frændur hágrét og sagðist ekki hafa upplifað sig dýrmæta undanfarið; henni hafði fundist hún gleymd. Hún bar þó vitni um að hún hefði fundið í orðum spámannsins að Guð elskaði hana og væri meðvitaður um hana, að hún væri vissulega „dýrmæt,“ og að hún vissi að það væri sannleikur. Hún fann læknandi kærleika Guðs; hún skynjaði líkn.
Drottinn hefur sagt: „Vitið þér ei, að ég, Drottinn Guð yðar, hef skapað alla menn og man eftir þeim, sem eru á eyjum sjávar?“ (2. Nefí 29:7).
Þessar systur eru kunnar himneskum föður sínum og frelsara. Þær eru ekki einsamlar. Það erum við ekki heldur í raunum okkar og áskorunum. Drottinn sendi mig um 13.700 km með flugvél, lest, bíl og bát til að færa „hinum eina“ á eyjum sjávar, kærleika Guðs og líkn. Á sama hátt mun hann finna ykkur og mig á persónulegum eyjum okkar, þar sem við gætum fundist við ein í áhyggjum og byrðum sem hvíla á hjörtum okkar. Hann er til staðar og undir það búinn að blessa, leiða og hughreysta okkur.
„Ég get komið til þín“
Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) lýsti eitt sinn reynslu ungrar fráskilinnar „[móður með sjö börn], sem voru þá á aldrinum 7 til 16 ára. Hún greindi frá því að hún hefði farið yfir götuna heima hjá sér til að færa nágranna eitthvað.“ Þetta eru hennar orð eins og hann rifjaði þau upp:
„Þegar ég sneri mér við og hugðist halda heim, sá ég húsið mitt uppljómað. Orðin sem börnin mín sögðu við mig um leið og ég hélt út um dyrnar nokkrum mínútum áður, ómuðu í huga mínum. Þau sögðu: ‚Mamma, hvað verður í kvöldmatinn?‘ ‚Geturðu skutlað mér á bókasafnið? Ég verða að fá efni í veggspjald í kvöld.‘ Ég horfði þreytt og úrvinda á húsið og hvert herbergi var upplýst. Mér varð hugsað um öll börnin sem heima væru og biðu þess að ég kæmi til að uppfylla þarfir þeirra. Byrði mín varð þyngri en ég fékk borið.
Ég man að mér varð litið til himins í gegnum tárin og ég sagði: ‚Kæri faðir, ég bara get þetta ekki í kvöld. Ég er svo þreytt. Ég bara get ekki tekist á við þetta. Ég get ekki farið heim til að hugsa einsömul um öll þessi börn. Get ég ekki bara komið til þín og fengið að dvelja hjá þér eina nótt? …‘
Ég heyrði í raun ekki svarið, en heyrði það þó í huga mínum. Svarið var: ‚Nei, elsku barn, þú getur ekki komið núna. … En ég get komið til þín.‘“
„Ég get komið til þín.“ Hann kom til hennar og hann mun koma til þín og mín, á sama hátt og frelsarinn kom til konunnar við brunninn, þar sem hún erfiðaði og stritaði alla ævi sína (sjá Jóhannes 4:3–42). Hann hvatti hana, kenndi henni, sagði henni frá messíasarhlutverki sínu og elskaði hana þegar hún elskaði kannski ekki sjálfa sig. Konunni við brunninn, hinni ungu sjö barna móður, þér og mér, er Jesús Kristur fús að veita líkn. Ég ber vitni um að við getum hlotið líkn fyrir tilstilli sáttmálsbanda okkar við elskulegan Guð.
Þið hafið, líkt og ég, kannski sárbeðið um hjálp, að vera ekki skilin eftir ein á einhverju mest krefjandi tímabili lífs ykkar, tilfinningalega, líkamlega og andlega. Þessi gríðarlegu erfiðu tímabil vaxtar hafa skilið eftir það sem ég kalla „andleg slitför“ á sálinni. Ég ber hins vegar vitni um að hann hefur borið mig og hann mun bera ykkur. Hann hefur rist ykkur á lófa sína (sjá Jesaja 49:16; 1. Nefí 21:16). Hann hefur verið þar þegar þið hafið leitast við að „vera réttlát í myrkrinu.“ Hann hefur ekki yfirgefið mig, né mun hann yfirgefa ykkur. Og ég mun elska hann eilíflega fyrir það.
Kæru systur og bræður, uppspretta hreinnar elsku, lækningar, hamingju og líknar hefur fundist í Jesú Kristi. Ég ber vitni um að Jesús Kristur er líkn.
Hann þráir að annast ykkur, blessa ykkur og fyrirgefa. Hann kom einmitt í þeim tilgangi, til að veita ykkur þá nauðsynlegu líkn sem þið leitið að. Hann er lausnari heimsins og ég ber vitni um að hann lifir og elskar ykkur.
Úr ráðstefnuræðu á kvennaráðstefnu við Brigham Young háskólann 3. maí, 2023.