„Það góða sem fagnaðarerindið færði mér,“ Líahóna, sept. 2024.
Frá Síðari daga heilögum
Það góða sem fagnaðarerindið færði mér
Ég fann fyrir heilögum anda fyrir tilstilli fólksins í kirkjunni.
Á uppvaxtarárum mínum var hetjan mín móðurafi minn, Acheii minn. Hann var sterkur í trú sinni. Ég fór í margar ólíkar kirkjur með honum, en trúmál voru ekki fyrir mig.
Þegar ég kynntist Ginu, sem varð eiginkona mín, var hún trúfastur meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hún vildi að ég lærði um kirkjuna svo að við gætum gift okkur í musterinu. En ég vildi það ekki. Ég var ekki trúaður.
Að lokum giftumst við borgaralega. Eftir að við eignuðumst barn hafði ég enn ekki áhuga á kirkjunni, en Gina hélt áfram að mæta.
Loks ákvað ég að ég myndi sanna að hennar kirkja hefði rangt fyrir sér með því að fara í aðrar kirkjur. Svona gekk þetta í nokkur ár en hvert sem ég fór leið mér ekki vel.
Loks var það sunnudag einn, er Gina var að gera dóttur okkar klára fyrir kirkju, fór ég líka að klæða mig fyrir kirkju. Hún leit á mig og spurði: „Hvað ertu að gera?“ Ég svaraði: „Ég er að fara í kirkju með þér.“ Hún leit á dóttur okkar og sagði: „Gerðu þig tilbúna fljótt! Við viljum ekki að hann skipti um skoðun!“
Svo við fórum. Vegna þess að ég fann fyrir heilögum anda í gegnum fólkið í kirkjunni, átti það stóran þátt í trúarumbreytingu minni. Eftir það komu trúboðarnir heim til okkar. Þeir voru frábærir, mér fannst kenningarnar sem þeir miðluðu mér vera yndislegar og andinn fyllti hjarta mitt (sjá Moróní 10:4–5).
Þegar ég heimsótti afa minn til að segja honum hvað ég hafði uppgötvað, var hann ekki ánægður. Ég vissi þó að ég yrði að fylgja hjarta mínu.
Ég gekk í kirkjuna og brátt vorum við Gina innsigluð í musterinu. Dóttir okkar var innsigluð okkur og við eigum nú þrjú börn að auki sem fæddust í sáttmálanum.
Það tók 10 ár fyrir acgeii minn að virða loksins það sem við trúum á í kirkjunni. Þegar sonur minn útskrifaðist úr menntaskóla sagði hann við alla á Navajomáli: „Ég nýt þessarar fjölskyldu. Ég styð það sem þau trúa á. Börn þeirra kunna svo sannarlega að biðja bæna.“
Ég er eini meðlimur kirkjunnar í stórfjölskyldu minni, en ég veit að þau samþykkja að trúarumbreyting mín hafi verið einlæg og þau sjá hið góða sem fagnaðarerindið hefur fært eiginkonu minni, börnum okkar og mér.