2024
Andinn gerði gæfumuninn
September 2024


„Andinn gerði gæfumuninn,“ Líahóna, sept. 2024.

Frá Síðari daga heilögum

Andinn gerði gæfumuninn

Ég skynjaði kærleika deildarmeðlimanna þegar þeir sungu án undirleiks míns.

mynd af konu sem leikur á orgel og lætur hughreystast af tveimur manneskjum

Myndskreyting: Katy Dockrill

Við bjuggum í litlum bæ í Georgíu í Bandaríkjunum þegar faðir minn lést, aðeins 55 ára gamall. Flestir í fjölskyldu okkar bjuggu í öðru ríki. Aldrei hafa þessir 3.200 km á milli okkar verið lengri en á þeirri stundu.

Eiginmaður minn var biskupinn og ég organisti litlu deildarinnar okkar. Vegna allra tilfinninganna og streitunnar yfir því að hjálpa til við skipulagningu útfararinnar, var ég einstaklega þreytt þennan sunnudag þegar komið var að lokasálmi sakramentissamkomunnar: „Guð sé með þér uns við hittumst heil“ (Sálmar, nr. 49).

Þegar annað erindið var hálfnað, yfirbugaði sorgin mig. Einhvern veginn náði ég að klára að spila þetta vers, en hendur mínar skulfu og augu mín voru svo full af tárum að ég varð að hætta þegar heilt vers var eftir. Ég gat ekki hætt að gráta.

Stutt hlé varð þegar söfnuðinum varð ljóst að orgelið hafði hætt að spila. Þá byrjuðu meðlimir deildarinnar að syngja án undirleiks. Söngurinn var ekki fullkominn. Við vorum hvort sem er bara fá. En andinn gerði gæfumuninn. Í gegnum tár mín og skömm fann ég kærleika margra er þeir sungu.

Guð sé með þér uns við hittumst heil.

Fel þig í hans faðminn blíða,

Fari hættur lífs að stríða.

Guð sé með þér uns við hittumst heil.

Þegar sálminum lauk, hélt tónlistarstjórnandinn utan um mig er ég grét í gegnum lokabænina. Nokkrir komu síðan að orgelinu með tárin í augunum til að segja hversu leitt þeim þætti þetta með föður minn.

Seinna sagði ég tónlistarstjóranum að ég myndi spila á píanóið í jarðarförinni. Það virtist eflaust slæm hugmynd eftir það sem á undan var gengið, en pabbi naut þess svo að heyra mig spila á píanóið. Mig langaði að spila fyrir hann. Mér varð þá ljóst hve nálægur hann hafði verið í lokasálminum.

Ég er svo þakklát fyrir sálmana. Ég ber vitni um að tónlist getur kennt okkur og hughreyst á þann hátt sem orð fá oft ekki gert. Eins og Æðsta forsætisráðið ritaði í formála sálmabókarinnar: „Sálmar … hugga þreytta, hugga syrgjendur og hvetja okkur til að standast allt til enda.“ Ég er einnig þakklát fyrir kærleika góðrar deildar þegar ég var svo fjarri minni eigin fjölskyldu. Ég veit að ég og faðir minn munum sannarlega hittast aftur.