„Guð bauð upp á eitthvað betra fyrir okkur,“ Líahóna, sept. 2024.
Frá Síðari daga heilögum
Guð bauð upp á eitthvað betra fyrir okkur
Þegar trúboðarnir kenndu mér að ég væri barn Guðs, vissi ég að hann væri með fleiri blessanir fyrir mig og fjölskyldu mína.
Ég ólst upp í litlum bæ í dreifbýli Filippseyja. Fjölskylda mín var fátæk. Á Filippseyjum geturðu ekki farið í skóla ef þú átt ekki peninga. Þrátt fyrir þessa hindrun, var ég metnaðarfullur ungur maður.
Ég sagði foreldrum mínum að ég vildi verða læknir eða kennari eða einhvers konar fagmaður, en þau sögðu mér alltaf að hætta að láta mig dreyma. Við áttum ekki peninga fyrir mig til að fara í háskóla. Foreldrar mínir vildu að ég væri sáttur og ekki vonsvikinn með líf mitt.
„Að vera faglega menntaður er ekki fyrir okkur,“ sögðu þau. Þau trúðu ekki að neitt betra væri í vændum fyrir fjölskyldu okkar en það sem við höfðum nú þegar.
Það var hinsvegar áður en við gengum í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Við bjuggum langt í burtu frá öllum borgum, en trúboðarnir fundu okkur og héldu áfram að koma aftur. Þeir færðu margar fórnir til að kenna fjölskyldu minni, en þeir breyttu lífi okkar varanlega.
Þegar við gengum í kirkjuna, lærði ég að ég var barn Guðs með möguleika á að vaxa, læra og verða (sjá HDP Móse 1:39; „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Gospel Library). Með þekkingu á fagnaðarerindinu, vissi ég að það var kominn tími til að bæta stöðu fjölskyldu minnar. Við vorum ekki lengur bara fátækt fólk úr litlu þorpi – við vorum verðugir synir og dætur Guðs og verðskulduðum blessanir sem hann hefur lofað trúföstum fylgjendum sínum.
Trúboðarnir komu með fagnaðarerindið inn í líf mitt, fagnaðarerindið færði tónlist inn í líf mitt og tónlist veitti mér styrk til að fara í háskóla. Ég lauk BA gráðu í kennslufræðum og síðan gráðu í tónlist, með kórstjórn sem aðalgrein. Nú kenni ég tónlist við Liceo de Cagayan háskólann og stjórna sönghóp Liceo U menntaskólans. Ég leiði líka kór meðlima kirkjunnar. Ætlunarverk okkar er að miðla sannleika Guðs með tónlist.
Að útskrifast úr háskóla veitti mér nýtt líf. Ég veit ekki hvar ég væri í dag án fagnaðarerindis Jesú Krists.
Allir verðskulda tækifæri til að læra, eins og ég gerði, að vita að þeir eiga himneskan föður og að hann hefur blessað þá með möguleikum til að vaxa, læra og verða.