2024
Þrjár leiðir til að takast á við lífið og njóta þess
September 2024


„Þrjár leiðir til takast á við lífið og njóta þess,“ Líahóna, sept. 2024.

Ungt fullorðið fólk

Þrjár leiðir til að takast á við lífið og njóta þess

Himneskur faðir vill að við finnum gleði í því lífi sem okkur hefur verið gefið.

ungt fullorðið fólk í Þýskalandi

Guido frá Þýskalandi

Hvenær varstu síðast einlæglega hamingjusamur eða hamingjusöm?

Var erfitt að svara þessari spurningu?

Á krefjandi tímum gætum við orðið svo föst í þrengingum okkar að við getum í raun ekki munað hvernig gleði er. Líkt og systir Reyna I. Aburto, fyrrverandi annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins, lýsti því: „Svört ský geta … myndast í lífi okkar og blindað okkur fyrir ljósi Guðs og jafnvel valdið því að við efumst um að ljósið sé til staðar fyrir okkur lengur.“

Stundum finnst okkur unga fólkinu að lífið sé eitthvað sem bara þarf að standa af sér – eitthvað sem þarf að berjast í gegnum þar til við loks hljótum þær blessanir sem okkur er lofað.

Við gleymum því þó stundum að það er líka eitthvað sem okkur ber að njóta. Blessanir eilífrar hamingju geta byrjað nú þegar.

Hér eru nokkrar leiðir til að endurvekja ljós og gleði í lífi okkar.

Munum hinn einfalda sannleika

Í stað þess að þjálfa augu okkar til að sjá í myrkrinu, þá getum við leitað að þeim ljósgeislum sem fagnaðarerindi Jesú Krists færir í líf okkar.

Russell M. Nelson forseti hefur minnt okkur á að „gleðin á rætur í honum og er sökum [Jesú Krists]. Hann er uppspretta hverskyns gleði.“ Þegar þið eigið erfitt með að finna ljós í lífi ykkar, ætti það alltaf að vera fyrsta skrefið að snúa sér til Jesú Krists.

Þið getið líka beðið himneskan föður um hjálp við að muna mikilvægi ykkar guðlegu sjálfsmyndar.

Öldungur Gary B. Sabin af hinum Sjötíu kenndi: „Forsenda hamingju okkar, er að hafa hugfast að við erum synir og dætur kærleiksríks himnesks föður.“ Að vita sannlega að Guð er meðvitaður um ykkur og vill það besta fyrir ykkur getur lýst upp líf ykkar.

Þrátt fyrir þær áskoranir sem þið standið frammi fyrir, getur það hjálpað ykkur að bjóða ljósi frelsarans í líf ykkar, ef þið minnist þessara grundvallaratriða fagnaðarerindisins.

Finnið hvað færir ykkur hamingju

Stundum getur reynst erfitt að muna að hamingja okkar lítur ekki alltaf eins út og hamingja einhvers annars. Oft er það í raun erfitt fyrir ungt fólk að bera ekki líf sitt saman við þá sem umhverfis eru. Munið þó að þið hafið stjórn á eigin hamingju.

Spyrjið ykkur sjálf: Hvað gerir ykkur hamingjusöm?

Hvað fær ykkur til að brosa?

Eins og þáverandi forseti Dieter F. Uchtdorf lagði til þegar hann var annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu: „Dragið úr hraðanum og gefið ykkur örlítinn tíma til að kynnast ykkur sjálfum.“ Leitið að fegurðinni í litlu hlutunum: Farið í göngutúr. Heimsækið musterið. Skráið ykkur í þjónustuverk Finnið ykkur nýtt áhugamál eða haldið áfram þar sem frá var horfið við það gamla.

Öldungur Richard G. Scott (1928–2015), í Tólfpostulasveitinni, talaði eitt sinn um hvernig sköpunargáfan getur upplýst líf okkar: „Veljið eitthvað eins og tónlist, dans, höggmyndir eða ljóðalist. Að vera skapandi mun hjálpa ykkur að njóta lífsins. Það elur af sér anda þakklætis Það þroskar dulda hæfileika, skerpir getu ykkar til að hugsa, starfa og finna tilgang í lífinu. Það hrekur burt einmanaleika og hugarangur. Það endurnýjar, veitir neista eldmóðs og eflir lífsþróttinn.“

Að uppgötva það sem fyllir hjarta ykkar af hamingju, getur hjálpað ykkur að endurvekja ljósið í lífi ykkar þegar þið eruð föst í sama farinu.

Einbeitið ykkur að því sem mestu skiptir

Ef lífið verður of yfirþyrmandi og ykkur finnst eins og það þurfi alla ykkar orku til að komast í gegnum hvern dag, takið ykkur þá smá kyrrðarstund til að einbeita ykkur að því sem skiptir mestu máli.

Til að gera það, lagði Uchtdorf forseti til: „Við skulum einfalda líf okkar örlítið.“ Beinið lífi ykkar aftur að elsku himnesks föður og hinni fallegu gjöf friðþægingar Krists. Forgangsraðið samböndum ykkar við fjölskyldu ykkar, vini og ykkur sjálf.

Berjist við hið neikvæða með hinu jákvæða, við myrkrið með ljósi Jesú Krists og fagnaðarerindi hans.

Eins og Nelson forseti hvatti okkur: „Við skulum ekki bara þrauka þennan líðandi tíma. Við skulum horfa til framtíðar í trú!“ Lærum líka að njóta fegurðar lífsins á meðan við tökumst á við erfiðleika þess. Hin eilífa hamingja sem fagnaðarerindið lofar hefst ekki einhvern tíma í framtíðinni – hún hefst núna.