2022
Við getum hjálpað öðrum að finna sig elskaða og meðtekna
September 2022


„Við getum hjálpað öðrum að finna sig elskaða og meðtekna,“ Líahóna, sept. 2022.

Reglur hirðisþjónustu

Við getum hjálpað öðrum að finna sig elskaða og meðtekna

Frelsarinn upplifði höfnun og kenndi okkur hvernig liðsinna á öðrum.

sláttuvél

Sasha er ung einstæð kona í fjölskyldnadeild, sem ekki er alltaf auðvelt. Henni finnst hún sjálf vera hamingjusöm og ánægð, en oft afar ólík – og svolítið áberandi – meðal annarra deildarmeðlima. Eins og flest okkar, þráir hún viðurkenningu og að falla í hópinn.

Thomas, eldri manni í deildinni, var falið að vera hirðisþjónn hennar og kom við hjá henni dag einn með eiginkonu sinni, til að kynnast Sasha. Heimsóknin var svolítið óþægileg, þar sem umræðan barst að stöðu hennar sem einhleypri. Þegar þau töluðu saman, varð Sasha ljóst að Thomas og eiginkona hans voru einungis að reyna að skilja aðstæður hennar og hvernig þau gætu hjálpað.

Á einum tímapunkti sagði Thomas: „Ég tók eftir því að garðurinn þinn gæti þurft smá umhirðu. Ég vil gjarnan hjálpa þér með hann.“

Sasha er svo önnum kafin í starfinu sínu að garðurinn hennar er ekki í forgangi. Henni finnst það auk þess ekki gaman. Hún veit hvernig á að halda garðinum við og að hún gæti gert það. Það breytir því þó ekki að henni leiðist það.

Þessi spurning hefði getað valdið henni særindum hér áður fyrr. Thomas minntist svo á að hann hefði verið í hernum og skildi þar af leiðandi hvað eiginkona þarf oft að gera sjálf þegar eiginmaður hennar er ekki til staðar. Hún áttaði sig á því að Thomas var einfaldlega að reyna að stuðla að vináttu þeirra. Hann var að reyna að finna samsvörun með þeim báðum og sameiginlegan grunn.

Báðir aðilar þessa þjónustusambands lærðu að elska og meðtaka hvor annan út frá núverandi stöðu og náin, ósvikin vinátta myndaðist.

Grasflötin hennar Sasha leit aldrei betur út.

Hið fullkomna dæmi um liðsinni

Í Gamla testamentinu spáði Jesaja að Jesús Kristur myndi vita nákvæmlega hvernig það er að vera öðruvísi. Hann upplifði útilokun og illa meðferð. „Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann; harmkvælamaður og kunnugur þjáningum“ (Jesaja 53:3). Með sinni fullkomnu elsku, veit hann hvernig okkur líður og hvernig best er að liðsinna okkur (sjá Alma 7:12). Hann er fullkomið fordæmi um það hvernig við getum sýnt öðrum kærleika svo þeim finnst þeir tilheyra, burtséð frá aðstæðum þeirra eða útliti.

Reglur til að hafa í huga

Þegar þið leitið leiða til að hjálpa öðrum að finnast þeir tilheyra, íhugið þá þessar reglur sem frelsarinn kenndi og lifði eftir:

  • Verið fús til að kynnast fleira fólki en aðeins því sem þið þegar þekkið (sjá Matteus 5:43–48).

  • Verið ekki hrædd við að eiga samskipti við þá sem kunna að lifa öðruvísi eða trúa öðru, ef það felst ekki í því að slaka á kenningum frelsarans (sjá Markús 2:14–17; Lúkas 7:38–50).

  • Öllum ætti að líða eins og við viljum fá þau í kirkju (sjá 3. Nefí 18:22–32). Það getur breytt hverjum sem er að vera þar sem mögulegt er að læra fagnaðarerindi frelsarans og finna elsku hans.

  • Frelsarinn veit hvað við þurfum, að hluta til vegna þess að hann veit hvernig okkur líður (sjá Alma 7:11–12). Við getum sýnt elsku með því að leitast við að skilja reynslu annarra og setja okkur í spor þeirra.

  • Frelsarinn gaf sér tíma til að vera til staðar til að bregðast við þörfum þeirra sem umhverfis hann voru. Hann staldraði við til að hugsa um aðra, jafnvel þegar hann hafði áform um að vera annars staðar (sjá Markús 5:22–43).

Hvað getum við gert?

tvær konur

Látið ekki ólíkan bakgrunn koma í veg fyrir að þið kynnist þeim sem þið þjónið. Sama hversu ólík við erum, þá er þar sameiginlegur grundvöllur sem þarf að uppgötva.