2022
Fegurð öldrunar
September 2022


„Fegurð öldrunar,“ Líahóna, sept. 2022.

Að eldast trúfastlega

Fegurð öldrunar

Ég vil frekar hafa andlit sem sýnir hrukkur hláturs og gráturs.

Ljósmynd
amma knúsar barnabarnið sitt

Ég minnist þess er ég var barn að virða fyrir mér hrukkótta vanga ömmu minnar. Hrukkurnar í augnkrókunum og fíngerðar hrukkur sem prýddu efri vörina. Ég spurði hana hvernig ég gæti komið í veg fyrir hrukkur.

„Ekki brosa,“ sagði hún. „Og ekki gráta.“

Ég fór að ráðum hennar – í einn dag. Svo gafst ég upp. Hvernig gat einhver lifað án þess að brosa eða gráta? Ég ákvað að ég vildi frekar hafa andlit sem sýnir hrukkur hláturs og gráturs.

Í Mormónsbók kenndi Lehí syni sínum Jakobi að við værum hér í jarðlífinu til að njóta gleði (sjá 2. Nefí 2:25). Hann kenndi líka að til að þekkja gleði, verðum við að upplifa sorg (sjá 2. Nefí 2:22–23). Ég hef séð vísbendingar um bæði gleði og sorg greypt í andlit þeirra sem hafa lifað lífinu. Andlit þeirra hafa að geyma lífssögu þeirra.

Ég er sammála þeim sem sagði: „Fallegt, gamalt fólk er listaverk.“1 Sumt fólk þróar með sér persónuleika með aldrinum, sem gerir það merkilegt. Ég hef til dæmis horft í augu hvíthærðra, hvítklæddra musterisþjóna og hrifist af því ótrúlega ljósi sem skín úr augum þeirra og ljómar á brosandi andlitum þeirra.

Nú, þegar ég er sjálf að verða eldri kona, er mér að lærast að það er ákveðin gleði sem fylgir öldrun. Mér líður til dæmi betur í eigin líkama. Ég er bara þakklát fyrir að hann virkar enn! Ég geng ef til vill og tala hægar en ég gerði áður fyrr. Það er ef til vill aðeins meiri fylling utan á mér og handleggirnir eru mýkri. Ég vil þó trúa því að snertingin mín sé líka mildari.

Ég veit að ég get enn haldið áfram að taka framförum og læra, því að „hvert það vitsmunastig, sem við öðlumst í þessu lífi, mun fylgja okkur í upprisunni“ (Kenning og sáttmálar 130:18). Ég hlakka því til lexíanna sem ég get enn lært. Það sem meira er, ég get hjálpað öðrum – eins og barnabörnunum mínum – að læra af þeim sögum lífs míns sem ég get sagt þeim.

Ljósmynd
eiginkona og eiginmaður sitja saman

Uppstilling

Ég og eiginmaður minn eigum auðveldar með að meðtaka hvort annað og vita að við getum líka lært og vaxið saman. Stormarnir sem við höfum staðið af okkur saman hafa auðgað hjónabandið okkar. Börnin okkar hafa vaxið úr grasi til að gera okkur stolt eða áhyggjufull, allt eftir dagsins önn. Barnabörnin vekja okkur raunverulega gleði og fögnuð.

Með aldrinum kemur meðvitundin um að jarðlífið varir ekki að eilífu. Nú er kominn tími til að gera þá hluti sem ég hef ætlað mér að gera. Ef ekki núna, hvenær þá? „Já, sjá. Dagur þessa lífs er dagurinn, sem menn hafa til að leysa verk sitt af hendi“ (Alma 34:32). Með aldrinum gerum við okkur vonandi grein fyrir því að nú er kominn tími til að segja ósögðu orðin, lækna samböndin og ná þeim markmiðum sem eftir eru.

Þegar ég eldist hugsa ég um arfleifðina sem ég mun skilja eftir fyrir afkomendur mína. Ég vona að í henni felist að ég fann visku við að upplifa gleði og sorg. Af þeim sökum, fann ég fegurð í öldrun.

Höfundur býr í Kaliforníu, Bandaríkjunum.

Heimildir

  1. Eignað Eleanor Roosevelt; sjá A–Z Quotes, azquotes.com.

Prenta