2022
Leyfa Drottni að leiða líf sitt
September 2022


„Leyfa Drottni að leiða líf sitt,“ Líahóna, sept. 2022.

Ungt fullorðið fólk

Leyfa Drottni að leiða líf sitt

Ég gat ekki alltaf séð hvernig hlutirnir myndu ganga upp, en þegar ég brást við í trú, blessaði Drottinn mig.

Ljósmynd
maður stendur á fjalli og horfir á sólsetur

Trúarbrögð voru ekki vinsæl á heimili mínu þegar ég var að alast upp – þótt foreldrar mínir hafi verið afar trúaðir mestan hluta ævi sinnar, leiddi endanleg sjúkdómsgreining föður míns, og aðrar þrengingar, til þess að þau sögðu skilið við trúarbrögðin sem þau voru alin upp við. Ég var fjögurra ára þegar hann dó úr krabbameini og var líka yngstur þrettán barna og móðir mín, sem var ekkja, trúði því einfaldlega ekki að Guð myndi láta eitthvað svona yfir okkur ganga.

Þegar ég varð 14 ára fannst mér þó eitthvað vanta í líf mitt. Ég velti því fyrir mér hvort ég hefði meiri tilgang sem ég vissi ekki af. Mér leið eins og Joseph Smith, þar sem „hugur minn [hneigðist] til alvarlegra hugleiðinga og mikils kvíða“ (Saga – Josephs Smith 1:8). Þótt ég hefði aldrei heyrt minnst á Joseph Smith á þeim tíma, tók ég að leita, afar líkt því sem hann gerði og sótti margar kirkjur í von um að ég myndi finna sannleikann.

Það gerði ég svo dag einn er ég sá tvo unga menn í jakkafötum fara heim til nágranna míns. Ég var forvitinn og spurði þá hvort ég mætti koma með á stefnumót þeirra. Eftir að hafa fengið samþykki móður minnar, tók ég að læra trúboðslexíurnar og gekk að lokum í kirkjuna.

Að ganga í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, hjálpaði mér að finna tilgang, einkum á mínum yngri fullorðinsárum, er ég þurfti að taka margar ákvarðanir sem fólkið umhverfis var ekki sammála. Þótt ég hefði tilgang og stefnu, var ég þó ekki alltaf viss um hvernig hlutirnir myndu ganga upp.

Þegar ég hins vegar ég stóð frammi fyrir óvissuþáttum og því óþekkta og svo mörgum breytingum, var leiðsögn himnesks föður stöðug er ég sneri mér til hans. Ég lærði nokkrar aðferðir til að treysta á hann og trú mína, sem hjálpaði mér að sækja fram og halda áfram að finna tilgang minn.

Ákvörðun um trúboð

Á þeim aldri er flestir jafnaldrar mínir voru að búa sig undir að fara í háskóla, var ég að finna út hvernig ég ætlaði að fara í trúboð. Í Síle verða allir að taka próf áður en þeir fara í háskóla. Það er aðeins í boði einu sinni á ári, svo ef ég færi í trúboð myndi ég ekki bara seinka námi mínu um tvö ár, heldur þyrfti ég líka, eftir það, að bíða í eitt ár til viðbótar með að fara í skóla.

Fjölskylda mín, einkum móðir mín, var á móti trúboði. Það var henni mjög mikilvægt að ég hlyti háskólamenntun. Ég trúði þó að Drottinn myndi hjálpa mér að gera það sem var nauðsynlegt, svo ég tók að vinna kostgæfið að undirbúningi mínum, þrátt fyrir allt.

Þegar biskupinn minn kom heim til mín með útfyllt trúboðsskjöl og bað um undirskrift móður minnar, varð hún hissa; ég hafði ekki sagt henni að ég væri að vinna í þessu ferli. Það þurfti töluverða sannfæringu, en Drottinn mildaði hjarta hennar og hjálpaði henni að skilja að ég vildi þjóna.

Fagnaðarerindið veitti mér fullvissu um að ég væri að gera rétt, en það var aðeins með því að sækja fram í trú, skref fyrir skref – þrátt fyrir allar spurningar mínar og óvissuatriði – sem ég hélt áfram að vaxa.

Fylgja opinberun eftir opinberun

Að snúa heim úr trúboði mínu, var líka að fara aftur út í óvissu. Þegar ég leitaði leiðsagnar hjá himneskum föður með hjálp bænar og föstu, fékk ég opinberun um að ég þyrfti að flytja til Bandaríkjanna og fara í Brigham Young háskólann, sem virtist næstum ómögulegt að gera.

Ég gerði mitt besta og tók næstu bestu skrefin. Stundum leið mér eins og ég væri staðnaður – ég vann eins mikið og ég gat, en ég vissi ekki fyrir víst að erfiði mitt yrði mér til hjálpar við að ná markmiðum mínum. Megin markmið mitt var þó að fylgja því sem Drottinn vildi að ég gerði og það markmið var mér dýrmætt.

Í þessu erfiði mínu, hlaut ég dag einn innblástur um að hafa samband við góðan vin minn sem var frá Bandaríkjunum og bjó í heimabæ mínum. Ég vissi ekki hvernig hlutirnir myndu þróast á þeim tíma – ég hafði samband einfaldlega vegna þess að andinn hafði hvatt mig til þess – en vinur minn og faðir hans enduðu á því að hjálpa mér að vita hvað ég ætti að gera til að sækja um og fá þá vegabréfsáritun sem þurfti til að fara í nám í BYU. Með hjálp þeirra og miklum fórnum móður minnar til að borga fyrir ferðalagið mitt komst ég þangað. Þetta var kraftaverk.

Líf mitt hélt áfram að þróast á sama hátt. Ég gerði mitt besta og hlaut síðan innblástur, skref fyrir skref, um það sem ég átti að gera næst. Þannig fékk ég atvinnu í trúboðsskólanum, fann leiðir til að borga skólagjöldin, tók ákvörðun um námsbraut og útskrifaðist að lokum og giftist.

Svörin sem ég hlaut komu ekki alltaf undireins og ég fékk aldrei nákvæma áætlun, en ég hlaut fullvissu um að Drottinn væri ánægður með þá stefnu sem ég hafði tekið.

Ljósmynd
maður horfir út um glugga

Þegar opinberun gengur gegn skynsemi

Nokkrum árum síðar lærði ég hversu nauðsynleg fórn er, til að lifa eftir fagnaðarerindinu. Ef við viljum að Drottinn veiti okkur tilgang og leiðsögn, verðum við að vera fús til að taka þá stefnu.

Eftir skóla gengu hlutirnir ekki samkvæmt áætlun hjá fyrirtækinu sem ég starfaði hjá, svo við hjónin áttum tvo kosti: vera áfram í Bandaríkjunum eða fara aftur til Síle. Okkur fannst báðum greinilega að við þyrftum að fara aftur til Síle. Það gæti virst eðlilegt að vilja fara aftur heim, en þetta var á mjög erfiðum tíma. Það var ekki mikið um atvinnu í Síle. Ég átti í vandræðum með að selja húsið okkar. Fjárhagslega og skipulega virtist þetta ekki vera það besta að gera í stöðunni; jafnvel fjölskyldur okkar héldu að við værum gengin af vitinu.

Hvað gerið þið þegar opinberun gengur gegn heilbrigðri skynsemi? Þó erfitt væri, þá vissum ég og eiginkonan mín hvað við áttum að gera. Við minntum okkur á að fagnaðarerindið hefði komið okkur svona langt. Án Drottins, hefði ég ekki hlotið þann innblástur sem hjálpaði mér að þjóna í trúboði, afla mér menntunar og hitta eiginkonu mína. Við urðum bara að treysta því að hverjar sem ástæðurnar voru, þá væri þörf fyrir okkur í Síle.

Við fólum biskupi okkar húsið okkar, svo hægt væri að leigja það þar til hann gæti selt það og við fluttum í burtu. Það var erfitt, en við upplifðum svo margar blessanir og kraftaverk er við hlýddum kalli Drottins. Drottinn veit hvar þörf er fyrir okkur og hvar við getum best þjónað tilgangi hans og hann blessar okkur fyrir hlýðni.

Finna lausnir með Drottni

Ég vona að ungt fullorðið fólk í dag fylgi fordæmi bróður Jareds. Þótt Jaredítarnir hafi vitað að þeir þyrftu að ferðast til fyrirheitna landsins, vissu þeir ekki nákvæmlega hvernig þeir hugðust komast þangað. Þegar bróðir Jareds hafði „ákallað nafn Drottins,“ (Eter 2:15), bauð hann honum nokkrar lausnir. Drottinn sagði honum að smíða báta og útskýrði fyrir honum hvernig sjá ætti þeim fyrir lofti sem voru í bátunum.

Þá spurði Drottinn bróður Jareds þessarar spurningar: „Hvað vilt þú, að ég gjöri, til að þið hafið ljós í skipum ykkar?“ (Eter 2:23). Í stað þess að segja bróður Jareds nákvæmlega hvað hann ætti að gera, bað Drottinn hann að fara og finna sína eigin lausn.

Þannig hefur það verið í lífi mínu. Stundum gefur Drottinn mér skýrar leiðbeiningar. Á öðrum stundum bíður hann eftir því að ég komi til hans með mínar eigin hugmyndir. Hvort heldur sem er, þá er nauðsynlegt að ég hafi hann með í ferlinu. Fasta, bæn og samráð við Drottin, eru nauðsynleg skref öllum sem reyna að taka ákvarðanir varðandi eigið líf.

Ungu fullorðnu fólki sem leitar að auknum tilgangi, veiti ég þessa leiðsögn: snúið ykkur til Drottins til að fá persónulega opinberun. Ígrundið oft patríarkablessun ykkar. Verið svo fús til að fórna því síður mikilvæga í lífi ykkar, ef Drottinn segir að hann hafi æðri tilgang fyrir ykkur.

Ég elska Drottin. Fagnaðarerindið er mér allt. Ég veit að Drottinn sér möguleika ykkar og vill hjálpa ykkur að ná ykkar guðlega tilgangi.

Prenta