„Von og huggun í Kristi,“ Líahóna, sept. 2022.
Von og huggun í Kristi
Við skulum reiða okkur á loforðið um að Drottinn minnist sinna trúföstu heilagra og umbunar þeim.
Jens og Ane Cathrine Andersen gáfu djúpan og varanlegan vitnisburð um sannleiksgildi hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Þrátt fyrir reiðan múg og ofsóknir samfélags og safnaðar, gengu þau í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, árið 1861.
Um vorið næsta ár, hlýddu þau kalli Síonar og héldu af stað til Saltvatnsdalsins, í 8.000 kílómetra fjarlægð. Að safnast til Síonar, þýddi að skilja þurfti við sitt góða líf í Danmörku – þar á meðal vini, stórfjölskyldu og fallega bújörð sem í kynslóðir hafði gengið frá föður til elsta sonar. Bújörðin var stór og frjósöm og staðsett í þorpinu Veddum, nærri Álaborg, á hinum frjósama Jótlandsskaga í Norður-Danmörku. Þar störfuðu tugir manna og veitti það Andersen-fjölskyldunni virðingu og góðan efnahag.
Jens og Ane Cathrine deildu þessum efnahag með trúsystkinum sínum og greiddu brottflutningskostnað um það bil 60 annarra heilagra sem lögðu leið sína til Síonar. Þann 6. apríl 1862 gengu hjónin Andersens, ásamt 18 ára syni sínum, Andrew, til liðs við 400 aðra danska heilaga á litla gufuskipinu Albion og sigldu til Hamborgar í Þýskalandi. Þegar þau komu til Hamborgar tveimur dögum síðar gengu þau til liðs við fleiri samansafnaða heilaga um borð í stærra skipi, til að hefja ferð sína yfir Atlantshafið.
Gleðin yfir að safnast saman til Síonar breyttist þó fljótlega í sorg. Nokkur barnanna sem höfðu farið um borð í Albion báru með sér mislingaveiruna. Þegar sjúkdómurinn breiddist út meðal innflytjendanna, létust 40 börn og nokkrir fullorðnir og var sökkt í sjó til greftrunar. Þar á meðal var Jens Andersen, 49 ára, langalangafi minn.
Draumur Jens um að fara til og byggja upp Síon með fjölskyldu sinni og öðrum dönskum heilögum tók enda aðeins 10 dögum frá Hamborg. Einn sagnfræðingur skrifaði: „Bjargvætturinn Jens Andersen, frá [Veddum], Álaborg, sem hafði aðstoðað ekki færri en sextíu félaga sína að flytja úr landi, steig aldrei fæti á fyrirheitna landið, líkt og Móse; hann dó á Norðursjó árið 1862 skömmu eftir að hann fór frá [Þýskalandi].“1
Raunir jarðlífsins
Var sú fórn Andersen-fjölskyldunnar – að yfirgefa þægilega býlið sitt og missa ástríkan eiginmann sinn og föður – þess virði? Ég er þess fullviss að heimurinn myndi svara því neitandi. Heiminn skortir trú, framsýni og „eilífa sýn“2 sem hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists býður upp á.
Það sjónarhorn hjálpar okkur að skilja hið jarðneska líf okkar og margskonar raunir þess. Við stöndum frammi fyrir ótta, svikum, freistingum, synd, missi og einmanaleika. Sjúkdómar, hörmungar, þunglyndi og dauði splundra draumum okkar. Stundum virðast byrðar okkar meiri en við getum borið.
„Þó að smáatriðin séu mismunandi, þá verða hörmungar, óvæntar prófraunir og erfiðleikar, bæði líkamlegir og andlegir, á vegi okkar allra, því svona er jarðlífið,“ sagði öldungur Neil L. Andersen, í Tólfpostulasveitinni. Hann sagði ennfremur: „Við leitum að hamingju. Við þráum frið. Við vonumst eftir ást. Drottinn úthellir svo yfir okkur ótrúlegum fjölda blessana. Eitt er samt öruggt, í bland við gleði og hamingju, þá verða andartök, stundir, dagar og stundum ár, sem sálir ykkar upplifa sársauka.“3
Við horfumst í augu við hið beiska, til að geta notið hins sæta (sjá Kenning og sáttmálar 29:39). Að orðum Jesaja spámanns, þá erum við öll fáguð – og útvalin – „í ofni þrengingarinnar“ (Jesaja 48:10).
Loforð friðþægingarinnar
Þrenging er hluti af hinni „miklu sæluáætlun“ föðurins (Alma 42:8; sjá einnig 2. Nefí 2:11). Miðpunktur þessarar áætlunar er þó huggunin og vonin sem kemur frá „hinni miklu og dýrðlegu friðþægingu.“4 Með friðþægingu sinni kom Jesús Kristur okkur til bjargar. (Sjá Alma 36:3.)
Frelsarinn „sté neðar öllu“ (Kenning og sáttmálar 88:6), svo að hann gæti tekið á sig erfiðleika okkar og mistök. Hann veit hvernig á að þjóna okkur af fullum skilningi á því hvar og hvers vegna það er sárt.
„Þar sem frelsarinn hefur þjáðst af hverju því sem við gætum nokkru sinni fundið fyrir eða upplifað, getur hann hjálpað hinum veiku að verða sterkari,“ sagði James E. Faust forseti (1920–2007), annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu. „Hann hefur persónulega upplifað þetta allt. Hann skilur sársauka okkar og mun ganga með okkur jafnvel á okkar myrkustu stundum.“5
Af þeirri ástæðu getum við fest endanlega von okkar á Jesú Krist og friðþægingu hans.
„Heimur okkar er svartsýnn og tortrygginn – heimur sem að miklu leyti á enga von í Jesú Kristi né á áætlun Guðs um mannlega hamingju,“ sagði Russell M. Nelson forseti. „Af hverju slíkar alþjóðlegar deilur og myrkur? Ástæðan er augljós. Ef það er engin von í Kristi, þá er engin viðurkenning á guðlegri áætlun um endurlausn mannkyns. Án þeirrar þekkingar, trúir fólk ranglega að tilverunni í dag fylgi útrýming á morgun – að hamingja og fjölskyldutengsl séu aðeins skammvinn.“6
Ég finn von og lækningu í Jesú Kristi þegar ég fer í musterið og hlusta á orð lifandi spámanna. Ég finn huggun þegar ég læri ritningarvers sem bera vitni um hann og friðþægingu hans. Þegar jarðlífið „ógnun oss fær,“7 snúið ykkur þá að því sem ég kalla „varnar-ritningarvers.“ Hér eru nokkur eftirlætis versin mín:
Gamla testamentið
-
„Hann [mun] afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu“ (Jesaja 25:8).
-
„En vorar þjáningar, voru það sem hann bar. … En hann var særður vegna vorra synda, kraminn vegna vorra misgjörða. Honum var refsað svo að vér fengjum frið og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir“ (Jesaja 53:4–5).
Nýja testamentið
-
„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“ (Matteus 11:28).
-
„Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn“ (Jóhannes 16:33).
Mormónsbók
-
„Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:12).
-
Og í hverju skal von yðar fólgin? Sjá, ég segi yður, að þér skuluð eiga von fyrir friðþægingu Krists og kraft upprisu hans, að vera reistir til eilífs lífs, og það vegna trúar yðar á hann, í samræmi við fyrirheitið“ (Moróní 7:41).
Kenning og sáttmálar
-
„Verið þess vegna vonglaðir og óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður. Og þér skuluð vitna um mig, já, Jesú Krist, að ég er sonur hins lifanda Guðs, að ég var, að ég er og að ég kem“ (Kenning og sáttmálar 68:6).
-
„Hræðist þess vegna ekki, jafnvel ekki dauðann, því að í þessum heimi er gleði yðar ekki algjör, en í mér er gleði yðar algjör“ (Kenning og sáttmálar 101:36).
Þessi vers og fjöldi annarra, vitna, með orðum Boyds K. Packer (1924–2015), forseta Tólfpostulasveitarinnar, um „loforð friðþægingar Krists.“8
Ákall spámanns
Þegar við skiljum það mikilvæga hlutverk sem frelsarinn gegnir í hamingju okkar nú og í komandi heimi, skiljum við hvers vegna Nelson forseti sárbiður okkur að gera hann að andlegum grunni lífs okkar:
„Ég sárbið ykkur að helga Drottni tíma! Tryggið ykkar eigin andlegu undirstöðu, svo hún fái staðist tímans tönn, með því að gera það sem gerir heilögum anda kleift að vera ætíð með ykkur. Að helga Drottni tíma, sagði Nelson forseti ennfremur, felur í sér að „helga Drottni tíma í hans heilaga húsi“ með þjónustu og tilbeiðslu í musterinu.9
Ykkur öll, sem hafið gert musterissáttmála, bið ég að reyna – kostgæfið og stöðugt – að skilja musterissáttmála og helgiathafnir. …
… Hvenær sem einhverjar hræringar verða í lífi ykkar, verður andlega öruggast að lifa innan marka musterissáttmála ykkar!
Trúið mér þegar ég segi, að þegar andleg undirstaða ykkar er örugglega byggð á Jesú Kristi, þá þurfið þið ekki að óttast.“10
Rist á lófa hans
Hvað varð um Ane Catherine og son hennar, Andrew? Örvæntu þeir og sneru aftur til Danmerkur eftir sorglegt sex vikna ferðalag til New York? Nei. Með því að treysta á vitnisburð sinn um frelsarann og sáluhjálparáætlunina og reiða sig á Guð, sóttu þau hugrökk fram með lest, gufubáti og vagnalest. Þau komu í Saltvatnsdalinn 3. september 1862 og sameinuðust uppbyggingu Síonar.
Þau settust að í Ephraim, Utah, þar sem Andrew giftist og stofnaði fjölskyldu. Síðar flutti Andrew fjölskyldu sína, þar á meðal móður sína, til Lehi, Utah, þar sem hann varð farsæll bóndi, bankastjóri og borgarstjóri. Hann þjónaði í þriggja ára trúboði í heimalandi sínu, meira en tvo áratugi í biskupsráði og meira en þrjá áratugi í háráðinu eða í háprestasveitinni. Þrír synir hans þjónuðu í trúboði í Danmörku og Noregi.
Með dauðlegum augum fáum við ekki séð hinn dýrðlega endi frá hinu tárfyllta upphafi. Í trú á Krist getum við þó horft vongóð til framtíðar. Við getum líka reitt okkur á loforðið um að Drottinn minnist og umbunar sínum trúföstu heilögu, líka Jens, Ane Catherine, and Andrew. Drottinn minnist þeirra og hann minnist okkar. Hann hefur lofað:
„Þá gleymi ég þér samt ekki.
„Ég hef rist þig í lófa mér“ (Jesaja 49:15–16).