2022
Er ég eina unga fullorðna manneskjan í leit að tilgangi?
September 2022


„Er ég eina unga fullorðna manneskjan í leit að tilgangi?“ Líahóna, sept. 2022.

Ungt fullorðið fólk

Er ég eina unga fullorðna manneskjan í leit að tilgangi?

Mér leið eins og ég hefði klúðrað áætluninni – áætlun minni fyrir sjálfa mig og áætlun Guðs fyrir mig.

Ljósmynd
ung fullorðin kona að klifra upp á kubba

Á 25 ára afmælinu mínu var ég að þrífa svefnherbergið mitt. Herbergið var ekki í reglu og ég hugsaði stöðugt um það hvernig líf mitt væri ekki heldur í reglu. Ég var ekki þar sem ég hélt að ég yrði 25 ára. Ég var ekki þar sem ég átti að vera.

Ég hugsaði um það hvernig mér leið sem unglingur þegar ég fékk patríarkablessun mína. Alltaf þegar ég las um framtíð mína, sá ég fyrir mér einhvern sem var næstum fullkominn. Mér varð þó ljóst að ég var ekki orðin sú manneskja sem ég hafði ímyndað mér að verða. Ég velti fyrir mér hvort ég yrði fyrir vonbrigðum með sjálfa mig, ef mitt yngra sjálf gæti séð mig núna?

Allt í einu fór ég að gráta. Mér leið eins og ég hefði klúðrað eigin lífsáætlun. Ég hafði ekki gert nein skelfileg mistök, en mér fannst líka eins og ég hefði ekkert fram að færa í lífinu. Ég hafði ekki tilgang. Allir aðrir höfðu þetta allt á hreinu og þarna sat ég, grátandi á gólfinu í svefnherberginu mínu og fannst líf mitt allt vera sóun.

Mér fannst ég ein í ringulreið og örvæntingu. Ég vissi þó á þessum tíma að ég gæti ekki verið sú eina á yngri fullorðinsárum sem ætti erfitt með að finna tilgang. Þegar ég hef talað við aðra, hef ég komist að því að líf fæstra fer nákvæmlega eins og þeir höfðu vænst. Það hjálpar mér við að finnast ég síður ein.

Það hjálpar líka við að minna mig á að himneskur faðir vill ekki að mér líði eins og ég sé misheppnuð. Hann vill að ég „[sæki fram, staðfastur] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi“ (2. Nefí 31:20). Hann trúir á getu mína til að breytast og vaxa fyrir kraft friðþægingar frelsarans. Aðeins Satan myndi vilja að ég segði sjálfri mér að ég hafi glatað því tækifærið að verða sú manneskja sem himneskur faðir veit að ég get orðið.

Skilja sæluáætlunina

Mörg okkar eru stundum vonlaus varðandi framtíðina. Það gæti verið vegna þess að við misskiljum sæluáætlun Guðs. Ef til vill teljum við líf okkar vera eins og tölvuleik – með föstum söguþræði sem þarft að fylgja til að vinna? Þannig virkar þetta þó ekki. Á hverjum degi tökum við ákvarðanir, breytumst og vöxum. Það er engin lognmolla eða stöðnun þar. Val okkar mun aldrei koma himneskum föður á óvart, en það er samt okkar val. Við erum að skrifa okkar eigin sögu, með honum, á meðan við ferðumst.

Ef við svo „[leyfum] að Kristur verði höfundur og fullkomnari sögu [okkar],1 þá getum við alltaf vænst hamingjuríkra eilífra söguloka af fullvissu.

Stundum gerum við mistök eða villumst af leið og hlutskipti okkar verður að reika stefnulaust að eilífu.

Þetta er þó fagnaðarerindi vonar. Hins týnda sem finnst. Þetta er fagnaðarerindi lærdóms. Að fyrirgefa. Að reyna aftur. Líkt og öldungur Neil L. Andersen, í Tólfpostulasveitinni, kenndi: „Iðrun er ekki varaáætlun; hún er sjálf áætlunin.“2

Kærleikur himnesks föður til okkar er fullkominn og áætlun hans fyrir okkur er líka fullkomin. Þetta er fullkomin áætlun fyrir ófullkomið fólk, hönnuð af umhyggju og skilningi á þörfum okkar og möguleikum. Það er sveigjanleiki í áætlun hans fyrir mistök okkar – einlæg mistök og þrálátar syndir og reik um eyðimörkina. Það er líka sveigjanleiki í áætlun hans fyrir sigra okkar, sem við tryggjum í hvert sinn sem við lítum til hans og reynum aftur.

Finna tilgang sinn

Ég hef varið miklum tíma frá þessu afmæli í að hugsa um tilgang minn. Ég er samt ekki alveg búin að átta mig á öllu. Ég hef þó engar áhyggjur lengur. Ég veit að Guð þekkir mig og ef ég sný mér til hans, mun hann hjálpa mér að skapa merkingu í því rými sem ég er nú í.

Ef til vill mun einhver einhvern tíma finna lækningu við krabbameini eða binda enda á hungur í heiminum eða ná heimsfriði. Einhver í dag mun hugga syrgjandi vin eða hjálpa ókunnugum í erfiðleikum eða biðja í fyrsta sinn í mörg ár. Ég held að allt þetta merki eitthvað – jafnvel allt.

Sannleikurinn er sá að flest munum við ekki gera dýrðlega og aðdáunarverða hluti í þessu lífi. Það þýðir þó ekki að við höfum ekki tilgang. Hinn endanlegi tilgangur okkar sem börn Guðs er að verða eins og hann. Við vöxum inn í þann tilgang þegar við gerum hið smáa dag hvern, til að fylgja Jesú Kristi.

Mér hefur lærst að þykja vænt um þá kenningu fagnaðarerindisins að „fyrir hið smáa og einfalda verður hið stóra að veruleika“ (Alma 37:6). Þegar ég lít til baka á eigið líf, sé ég ekkert stórkostlegt. Ég sé þó margt „smátt og einfalt“ sem hefur gert mikinn gæfumun. Ég veit, fyrir náð frelsarans, að lítil, góð trúarverk mín gera mér kleift að verða eins og hann.

Vegur einhvers annars mun ekki líta út alveg út eins og ykkar. Ef þið hins vegar eruð að reyna ykkar besta til að taka skref í átt að Kristi, þá er leið ykkar góð. Hinn almáttugi skapari hefur trú á ykkur, svo standið upprétt og hafið trú á ykkur sjálfum. Guð geymir ykkur undursamlega hluti og jafnvel þegar ykkur finnst þið vera lítil og einföld, mun hann „hjálpa ykkur að verða miklu meira en það sem þið hélduð að væri mögulegt.“3

Heimildir

  1. Camille N. Johnson, „Bjóðið Kristi að vera höfundur sögu ykkar,“ aðalráðstefna, október 2021.

  2. Neil L. Andersen, í Sarah Jane Weaver, „Repentance Is Not a Backup Plan; It Is the Plan, Says Elder Andersen“ (fréttagrein), 3. júlí 2018, ChurchofJesusChrist.org.

  3. Dieter F. Uchtdorf, „Það virkar dásamlega!,“ aðalráðstefna, október 2015.

Prenta