2023
Kraftaverk Guðs halda áfram
Júlí 2023


„Kraftaverk Guðs halda áfram,“ Líahóna, júlí 2023.

Fyrirmyndir trúar

Kraftaverk Guðs halda áfram

Ég áttaði mig á því að trú Síðari daga heilagra var meira í samræmi við Biblíuna en sú fullyrðing að Biblían hafi komið í stað spámanna og opinberunar. Ég fann til raunverulegrar gleði þegar ég komst í skilning um að ég lifði ef til vill á nútíma „biblíulegum tíma.“

Ljósmynd
fjölskylda stendur saman utandyra

Ljósmynd birt með leyfi höfundar

9. nóvember 1989, tilkynnti Austur-Þýskur embættismaður fyrir mistök að þegar í stað væri borgurum höfuðborgarinnar leyft að ferðast í gegnum Berlínarmúrinn. Nokkrum mínútum síðar höfðu landamæraverðirnir, sem yfirleitt leiddist, engra kosta völ en að leyfa hinum stóra og sífellt stækkandi hópi að yfirgefa landsvæði Þýska alþýðulýðveldisins.

Ég og besti vinur minn, Jakub Górowski – sem þá vorum unglingar – fylgdumst með hinu óvænta kraftaverki gerast á sjónvarpsskjánum frá heimili okkar í Póllandi. Heimurinn var svo sannarlega í ljósum logum, en ekki skaðlegum. Andi frelsis og vonar brann í hjörtum milljóna manna.

Draumur minn og Jakubs hafði verið að flytja dag einn frá Póllandi til vesturlanda – Danmörku, Svíþjóðar, Vestur-Þýskalands. Bandarískar kvikmyndir og sjónvarpsþættir veittu okkur innblástur. Uppáhaldið mitt var The Wonder Years. Ég hafði dálæti á lífinu í úthverfum Bandaríkjanna.

Ég held ekki að nokkur hvorumegin járntjaldsins hafi búist við því að kalda stríðinu lyki. En himneskur faðir hafði aðra áætlun. Árið 1975, án þess að við vissum af því, hafði Spencer W. Kimball (1895–1985) forseti boðið Síðari daga heilögum að „sameinast í einlægri og stöðugri bæn til Drottins um að opna hlið þjóðanna og milda hjörtu konunga og leiðtoga með því markmiði að trúboðar mættu fara inn í öll lönd og boða fagnaðarerindið.“1

Tveimur árum síðar, heimsótti Kimball forseti Varsjá, Póllandi. Einn morguninn fór Kimball forseti af hóteli sínu, ásamt litlum hópi samstarfsmanna, þar á meðal öldungi Russell M. Nelson, og gekk fram hjá Gröf hins óþekkta hermanns og inn í Saski-garðinn. Hann kraup niður, ekki langt frá stórum gosbrunni, sem er þar enn í dag, og endurvígði Pólland fyrir boðun fagnaðarerindisins.

Áratugur óeirðar og fjöldamótmæla kom í kjölfarið. Á meðan fullorðna fólkið treysti ekki og stóð gegn pólitískum leiðtogum, hafði unga fólkið efasemdir um gildi, hefðir og hegðun foreldra sinna. Ég og vinur minn, Jakub, vorum óánægðir með kristna trú eins og við skildum hana. Hann missti áhugann á trúarbrögðum yfirleitt, en ég laðaðist að heimspeki frá Asíu.

Í apríl 1990, fórum við Jakub á puttanum til Austurríkis. Í Vín hittum við tvær indælar konur sem stóðu á gangstétt fjölfarinnar götu. Önnur þeirra hélt á Mormónsbók á pólsku. Hún sagði okkur frá heimsókn Jesú til fólksins í Ameríku til forna og lofaði að hún myndi senda bókina heim til okkar ef við gæfum henni heimilisföng okkar. Við opnuðum líka tengiliðaskrá okkar og skrifuðum niður heimilisföng margra vina okkar. Okkur fannst að það hlyti að vera óvæntur glaðningur fyrir þá að fá gjöf.

Nokkrum mánuðum síðar var Varsjártrúboðið í Póllandi stofnað og fjórir trúboðar komu til okkar borgar. Ég komst að því síðar að hinn mikli fjöldi „tilvísana“ okkar – heimilisföng vina okkar – væru í lykilhlutverki þegar kom að ákvörðuninni um að opna borgina okkar fyrir trúboðunum. Nokkrum mánuðum síðar var ég hissa þegar Jakub sagði mér að tveir trúboðar „Mormóna“ hefðu heimsótt hann og að hann hafi ákveðið að ganga í kirkjuna þeirra.

Ég var sár yfir þessari yfirlýsingu hans. Ég hafði í mörg ár reynt að glæða áhuga hans á trúmálum, en án árangurs. Hvernig gátu bláókunnugir menn frá öðru landi skyndilega snúið honum til trúar? Ég var ákveðinn að mæta þeim og sýna Jakub að þeir ættu enga möguleika í rökræðum við mig.

Ég fann nokkuð sérstakt

Þegar ég sá ungu, brosandi trúboðana tvo standa í dyragætt íbúðar foreldra minna, gleymdi ég markmiði mínu um að afsanna það sem þeir hefðu að segja. Þeir voru glaðir og fyndnir. Þeir spurðu mig margra spurninga um mig og trú mína. Þeir sýndu sannfæringu minni virðingu. Þeir sögðu mér síðar að á þessum fyrsta fundi með hrokafulla náunganum með síða hárið og rifnu gallabuxurnar, sem var reykjandi, áttu þeir erfitt með að ímynda sér að ég yrði nokkurn tíma áhugasamur um að verða fylgjandi Jesú Krists. Ég fann þó nokkuð sérstakt í nærveru þeirra og ég var hugfanginn af því að kirkjan þeirra var eina kristna kirkjan sem ég vissi um sem trúði á fortilveru.

Mér þótti líka mikið til vitnisburðar þeirra koma og sterkrar sannfæringar Jakubs og Roberts Żelewski, hins nýja vinar hans í kirkjunni. Robert var sálfræðingur, gáfaður en jarðbundinn maður, sem jók áhuga minn á trú Síðari daga heilagra með innsýn sinni og upplifunum.

Allt sem öldungarnir, Jakub og Robert, sögðu mér var hrífandi, sérstaklega kenningin um sáluhjálparáætlunina, sem hófst með fortilveru og endaði með dýrðarríkjunum þremur. En ég sá ekki tilgang í að ganga í kirkjuna þangað til ég hefði betur skilið einstakar kenningar hennar. Skilningur minn á kristni var sá að í fornöld hafi Guð framkvæmt kraftaverk, sent engla og kallað spámenn, en að allt þetta tilheyrði biblíutímum. Þegar Biblían var fullunnin, þarfnaðist mannkyn ekki lengur kraftaverka og opinberana þar sem ritningin innihélt allt sem við þurftum að vita.

Þegar við ræddum hið mikla fráhvarf og endurreisn fyllingar fagnaðarerindisins fyrir tilstilli spámannsins Josephs Smith urðu tímamót. Ég áttaði mig á því að trú þeirra var meira í samræmi við Biblíuna en sú fullyrðing að Biblían hafi komið í stað spámanna og opinberunar. Ég fann til raunverulegrar gleði þegar ég komst í skilning um að ég lifði ef til vill á nútíma „biblíulegum tíma.“

Ég var tilbúinn til að spyrja Guð einlæglega um persónulega opinberun, en svarið barst ekki. Að endingu, sagði ég: „Himneski faðir, ef þú kallaðir Joseph Smith sem spámann þinn, mun ég fylgja hverju boðorði sem þú opinberaðir með honum.“ Þá barst svarið af þunga í hjarta og huga mér og ég vissi að Guð hafði endurreist fyllingu fagnaðarerindisins og að hana væri að finna í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Ljósmynd
öldungur með lest í bakgrunni

Jakub skírðist 3. nóvember 1990 og reyndist trúr allt til dauða síns, í hörmulegu fjallgönguslysi tveimur áratugum síðar. Ég gekk í kirkjuna 11. janúar 1991, ákveðinn í því að þjóna í trúboði. Robert var fyrsti heimamaðurinn til að vera kallaður sem greinarforseti í greininni okkar og hann keyrði mig alla leið til Freiberg, Þýskalandi, svo ég gæti hlotið musterisgjöfina. Í síðasta viðtalinu mínu við hann, lofaði ég að snúa aftur til Póllands eftir þjónustu mína í Illinois Chicago-trúboðinu, til að nota trúboðsreynslu mína til að efla kirkjuna í heimalandinu.

Tveimur árum síðar, sannfærði trúboðsforseti minn mig um að mennta mig í Brigham Young-háskóla í Bandaríkjunum. Ég gleymdi þó aldrei loforði mínu við Robert.

Ljósmynd
ungur öldungur stendur á milli eldri hjóna

Eftir að giftast árið 2000, flutti ég aftur til Póllands með eiginkonu minni, sem hafði árið 1988 verið aukaleikari í sjötta þætti The Wonder Years. Við sækjum kirkjufundi í Kraká, ölum upp tvo drengi og erum í nánum samskiptum við eldri börnin okkar tvö. Eldri sonur okkar tilkynnti nýlega að hann hafi ákveðið að þjóna í fastatrúboði.

Sumarið 2021 fór ég með fjölskylduna til Berlínar, þar sem ég sýndi þeim staðinn þar sem múrinn hafði verið. Hann stendur ekki lengur í vegi þess að þjónar Guðs miðli boðskap endurreisnarinnar með fólkinu í Austur-Evrópu. Kraftaverk Guðs halda áfram á okkar dögum.

Glósa

  1. Spencer W. Kimball, í „Insights from June Conference,“ Ensign, okt. 1975, 70.

Prenta