2023
Sjá kraftaverk frelsarans í lífi okkar
Júlí 2023


„Sjá kraftaverk frelsarans í lífi okkar,“ Líahóna, júlí 2023.

Kraftaverk Jesú

Sjá kraftaverk frelsarans í lífi okkar

Fjórar lexíur um frelsarann lækna hina blindu.

Ljósmynd
Jesús læknar blindan mann

Hluti af Hann smurði augun, eftir Walter Rane

Í lífinu vonumst við stundum eftir og biðjum fyrir kraftaverkum. Það gæti verið fyrir ástvini okkar eða í eigin þágu. Von okkar er að ákalli okkar verði svarað, hinar brotnu aðstæður lagaðar, hin bitra sál milduð og að Drottinn kraftaverka veiti þá útkomu sem við þráum. Þegar niðurstaðan er ekki sú sem við áttum von á eða innan þess tímaramma sem við báðumst fyrir um, veltum við yfirleitt fyrir okkur af hverju.

Moróní kennir: „Og ég brýni fyrir yður, ástkæru bræður mínir, að hafa það hugfast, að hann er hinn sami í gær, í dag og að eilífu, og að svo lengi sem heimurinn stendur verða allar þær gjafir, sem ég hef minnst á og eru andlegs eðlis, aldrei burtu teknar, nema fyrir vantrú mannanna barna“ (Moróní 10:19).

Standa þessar gjafir og þessi kraftaverk sem ritningarnar geyma okkur enn til boða á okkar tíma? Hvernig getum við hlotið þessar blessanir? Er frelsarinn meðvitaður um hvað er að gerast í lífi okkar og fús til að bjarga okkur frá áskorunum okkar?

Ég vil nota kraftaverk frelsarans er hann veitti hinum blindu sjón, sem grunn til að svara þessum spurningum. (Sem dæmi, sjá Matteus 9:27–31; 12:22–23; Markús 8:22–26; 10:46–52; Jóhannes 9:1–11.)

Hvað lærum við um ætlunarverk frelsarans af kraftaverkum hans?

Til að skilja áhrif kraftaverks á okkur og líf okkar, skulum við byrja á því að skilgreina kraftaverk. Kraftaverkum „var ætlað að vera sönnun fyrir gyðinga um að Jesús var Kristur … Mörg þeirra voru einnig táknræn og kenndu … guðlegan sannleika … Kraftaverk voru og eru svar við trú og besti hvati hennar. Þau bárust aldrei án bænar, mikillar nauðsynjar og trúar.“1

Öldungur Ronald A. Rasband, í Tólfpostulasveitinni, sagði á einfaldan og fallegan hátt:

„Kraftaverk eru guðlegar athafnir, birtingarmyndir og tjáning á takmarkalausum krafti Guðs og staðfesting á því að hann sé ‚hinn sami í gær, í dag og að eilífu‘ [Moróní 10:19]. …

Kraftaverk eru viðauki hinnar eilífu áætlunar Guðs; kraftaverk eru líflína himins til jarðar.“2

Því er gagnleg leið til að nema kraftaverk frelsarans og læra um þau, að muna að hvert kraftaverk bendir til einhvers meira en atburðarins sjálfs og leita að tilteknum sannindum um Guð og verk hans.

Ræðum nokkur þau sannindi sem við lærum af því þegar frelsarinn veitti hinum blindu sjón. Hægt er að skipta þeim upp í fjórar lexíur á eftirfarandi hátt.

1. Að veita þeim sjón, var til vitnis um Messías.

Fornir spámenn sem vitnuðu um komu Messíasar töluðu um kraftaverkin sem hann myndi gera, þar á meðal að veita hinum blindu sjón.

Heilagur engill sagði Benjamín konungi að frelsarinn myndi „ferðast um meðal [fólksins] og gjöra máttug kraftaverk, svo sem að gjöra sjúka heila, reisa látna upp frá dauðum, veita lömuðum mátt, blindum sýn“ (Mósía 3:5; sjá einnig Jesaja 35:4–5).3

Kraftaverkin þar sem blindum er veitt sjón staðfesta því þessa spádóma um komu frelsarans og þjónustu hans við börn Guðs.

2. Jesús er ljós heimsins

Þessi sannleikur var ítrekaður greinilega þegar Jesús hitti mann sem hafði verið blindur frá fæðingu (sjá Jóhannes 9:1–11). Þegar lærisveinarnir spurðu hvort maðurinn hefði fæðst blindur vegna syndar, sagði Jesús nei, „heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum“ (vers 3). Áður en frelsarinn veitti manninum sjónina, sagði hann: „Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins“ (vers 5).

Öldungur Bruce R. McConkie (1915–1985), í Tólfpostulasveitinni, útskýrði: „Áður en Jesús lauk upp augum hinna blindu, líkamlega, minnti hann þá sem hlustuðu á fyrri yfirlýsingu sína, ‚ég er ljós heimsins,‘ eins og til að kenna: ‚Hvenær sem þið minnist þess að ég lauk upp augum hinna blindu, líkamlega, minnist þess einnig að ég kom til að færa augum ljós, andlega.‘“4

Við þurfum að hafa í huga hve algengt það er í ritningunum að synd sé talin siðferðileg blinda og að frelsun frá synd sé að fjarlægja þessa blindu. Sá sem er „ljós heimsins,“ notaði þennan atburð á táknrænan hátt um hið æðra verk sem hann kom í heiminn til að áorka.

Ljósmynd
mynd af frelsaranum að lækna blindan mann

3. Trú kemur á undan kraftaverkum

Þegar Jesús gekk um götur Kapernaúm, fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: „Miskunna þú okkur, sonur Davíðs.“ Hann talaði þá til þeirra og spurði: „Trúið þið að ég geti gert þetta?“ Þeir sögðu: „Já, Drottinn.“

Sönnun trúar þeirra á að Drottinn gæti hjálpað þeim, er að finna í þrautseigju þeirra við að elta hann og í skjótri og opinni játningu trúar þeirra þegar þeir voru spurðir. Frelsarinn snart augu þeirra og mælti: „Verði ykkur að trú ykkar.“ Áhrifin gerðust tafarlaust: „Augu þeirra lukust upp“ (Matteus 9:27–31).

Öldungur McConkie veitti því eftirtekt: „Þegar Jesús lauk upp augum hinna blindu, eins og hér, samtvinnaði hann oft líkamlega aðgerð við hin töluðu orð. Í þessu dæmi og í önnur skipti, snerti hann augu hinna blindu.“

Af hverju gerði frelsarinn þetta? „Engin þessara óvenjulegu … athafna eru nauðsynlegar til að framkvæma lækningu,“ útskýrði öldungur McConkie. En við vitum að trú kemur á undan kraftaverkum, því virðist sem „tilgangur meistarans hafi verið að efla trú hins blinda eða daufa.“5

4. Kraftaverk berast stundum orð á orð ofan

Fólkið í Betsaídu færði blindan mann til Jesú. Eftir að leiða manninn burt frá bænum, þá „skyrpti [Jesús] í augu hans, [og] lagði hendur yfir hann.“ Sjón mannsins var aðeins að hluta til læknuð, því „lagði [frelsarinn] aftur hendur yfir augu hans,“ og færði honum fulla sjón. (Sjá Markús 8:22–26.)

Öldungur McConkie benti á sannindi sem við getum lært af frá þessum atburði:

„Svo virðist sem endurtekin tilvik líkamlegrar snertingar Jesú hafi haft áhrif aukinnar vonar, fullvissu og trúar hjá þeim sjónlausa.

… Fólk ætti að leita læknandi náðar Drottins af öllum mætti og trú, þó er það aðeins nóg fyrir lækningu að hluta. … Það getur síðan hlotið aukna fullvissu og trú og verið gert heilt og heilsuhraust í einu og öllu. Fólk er einnig oft læknað af andlegum kvillum smám saman, skref fyrir skref, er það lifir lífi sínu í samhljómi við áætlanir og tilgang Guðs.“6

Með því að framkvæma þetta kraftaverk í tveimur skýrum skrefum, hjálpaði Drottinn blinda manninum að búa sig undir fyllingu blessunarinnar. Getum við einnig séð þetta mynstur í eigin leit að kraftaverkum – eitthvað sem við þurfum að gera eða ekki gera, áður en við erum tilbúin fyrir æðra inngrip?

Trú án lækningar

Þótt við komum auga á mikilvægi trúar til að kraftaverk gerist, er mikilvægt að veita því eftirtekt að stundum er óskum og ákalli jafnvel hinna trúföstustu heilagra ekki mætt.

Öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni, kenndi okkur:

„Réttlæti og trú eiga svo sannarlega sinn þátt í að flytja fjöll – ef það að flytja fjöll nær fram tilgangi Guðs og er í samræmi við vilja hans. Réttlæti og trú eiga svo sannarlega sinn þátt í að lækna hina sjúku, daufu og lömuðu – ef slíkar lækningar ná fram tilgangi Guðs og eru í samræmi við vilja hans. Því bifast mörg fjöll ekki, þrátt fyrir sterka trú okkar. Ekki munu allir þeir sem veikir eru og veikburða vera læknaðir. Ef dregið væri úr allri mótstöðu, ef öll mein væru fjarlægð, þá hefði frumtilgangur áætlunar föðurins farið forgörðum.

Margar af lexíunum sem við þurfum að læra í jarðlífinu, er einungis hægt að læra með því að upplifa og stundum með því að þjást. Guð væntir og treystir því að við glímum við stundlegt, dauðlegt mótlæti með sinni hjálp, svo við getum lært það sem við þurfum að læra og að endingu orðið það sem við eigum að verða í eilífðinni.“7

Ég vil bæta mínum vitnisburði við vitnisburði bæði fornra og nútíma spámanna. Kraftaverk gerast enn mitt á meðal okkar. Frelsarinn Jesús Kristur er uppspretta alls máttar, ljóss og líknar. Ég ber vitni um að með trú okkar á hann, getum við verið læknuð og ef við skyldum ekki vera læknuð, þá getum við þrátt fyrir það fundið frið fyrir tilstilli Friðarhöfðingjans, Ljóss heimsins og Græðara allra Græðara.

Heimildir

  1. Sjá Bible Dictionary, „Miracles.“

  2. Ronald A. Rasband, „Sjá! Ég er Guð kraftaverka,“ aðalráðstefna, apríl 2021.

  3. Sjá Bruce R. McConkie, Doctrinal New Testament Commentary (1973), 1:320.

  4. Bruce R. McConkie, Doctrinal New Testament Commentary, 1:481.

  5. Sjá Bruce R. McConkie, Doctrinal New Testament Commentary, 1:320.

  6. Bruce R. McConkie, Doctrinal New Testament Commentary, 1:379–80.

  7. David A. Bednar, „Accepting the Lord’s Will and Timing,“ Liahona, ágúst 2016, 22.

Prenta