2023
Styðja við meðlimi sem upplifa hjónaskilnað
Júlí 2023


Styðja við meðlimi sem upplifa hjónaskilnað

Himneskur faðir mun hjálpa okkur að vita best hvernig skapa á öruggt og bjóðandi umhverfi í deildum okkar og greinum fyrir þá sem hafa skilið eða eru að skilja.

Ljósmynd
hús á mynd sem rifin er í tvennt

Tveir karlar í deild urðu einhleypir um svipað leiti, báðir eftir margra ára hjónaband. Þegar sá fyrri varð einhleypur bauð deildin fram aðstoð sína, útbjó máltíðir og fann leiðir til að ganga úr skugga um að hann yrði ekki jafn einmana. Þegar kom að hinum síðari, átti þessi þjónusta sér ekki stað og hann upplifði einangrun og ójafnrétti.

Hver var munurinn á þessum mönnum? Sá fyrri var ekkill og hinn síðari fráskilinn. Þegar hinn fráskildi miðlaði upplifun sinni með mér, var ákall hans einfalt: Getum við hjálpað meðlimum kirkjunnar að skilja betur hvernig þjóna má þeim sem eru fráskildir og að þeir átti sig á að þeir hafi enn jafna stöðu og séu metnir að verðleikum í deildum okkar og greinum?

Margar deildir standa sig dásamlega í þjónustu við þá sem upplifa áhrif hjónaskilnaðar, þó getur ákall þessa manns leitt til þess að við öll spyrjum hvort við getum gert eitthvað betur. Þessi þörf fyrir að finnast maður velkominn og finna fyrir stuðningi tengist viðvarandi boði kirkjuleiðtoga – að elska alla í hjörð Guðs og að hjálpa þeim að finnast þeir velkomnir og öruggir í stikum Síonar.1

„Í hvert skipti sem við lyftum einhverjum upp erum við í raun að skapa örugga staði fyrir þá.“2 Deildir okkar og greinar ættu að vera meðal þeirra staða sem við leitumst við að halda æðstu boðorðin tvö að elska Guð og að elska aðra eins og okkur sjálf (sjá Matteus 22:37–39). Eftirfarandi grunnatriði geta hjálpað okkur að vita hvernig hægt er að styðja við þá í deildum okkar eða greinum, sem hafa upplifað eða eru að ganga í gegnum hjónaskilnað.

Hafið í huga að hjónaskilnaði fylgja margar tilfinningar

Vegna vitneskju okkar um grundvallarkenningu eilífs hjónabands og mátt innsiglunarsáttmálans í sáluhjálparáætlun Guðs, getur hjónaskilnaður verið átakanlegur. Þó bera ekki allir sömu tilfinningar til hjónaskilnaðar síns. Dallin H. Oaks forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, kenndi að hjónaskilnaður „er viðkvæmt mál vegna þess að það vekur svo sterkar tilfinningar hjá þeim sem það hefur snert á ýmsan hátt. Sumir líta á sig eða ástvini sína sem fórnarlömb skilnaðar. Sumir telja sig njóta góðs af hjónaskilnaði. Sumir telja hjónaskilnað sönnun á mistökum þeirra. Aðrir telja hann nauðsynlega undankomuleið úr hjónabandinu.“3

Í stað þess að gera ráð fyrir því hvernig einstaklingur sem upplifir hjónaskilnað lítur á aðstæður sínar, ljáið honum þá eyra hvenær og hvernig sem einstaklingurinn er tilbúinn. Þið gætuð einfaldlega spurt: „Hvernig get ég veitt stuðning á þessum tíma?“ eða: „Á hvaða hátt getum við stutt við þig er þú gengur í gegnum skilnað og jafnvel eftir hann?“

Spurningar til að hafa í huga:

  • Hvernig gætu einstaklingarnir verið að upplifa margbreytilegar tilfinningar á ýmsum tímum dagsins, vikunnar eða mánaðarins? Hvernig get ég sýnt hugulsemi og stuðning á tímum hverrar þessara tilfinninglegra upplifana?

  • Hvernig get ég viðhaldið móttækileika fyrir opinberun um það hvernig ég geti hjálpað á ýmsum stundum?

  • Hvaða ályktanir dreg ég, sem ég þarf að láta af til að leita betur eftir og breyta eftir opinberunum varðandi það hvernig skuli hjálpa?

Ljósmynd
hjarta flýtur fyrir ofan hönd

Einblínið á að elska frekar en að dæma

Þegar kemur að hjónaskilnaði munum við sjaldan, ef nokkurn tímann, komast að öllum þeim atriðum sem leiddu til skilnaðar hjónanna – og við þurfum þess ekki. „Þegar hjónaskilnaður verður, er það skylda einstaklinga að fyrirgefa, upplyfta og hjálpa í stað þess að dæma“;4 þetta er bæði rétt í tilfelli hjónanna og þeirra sem umhverfis eru. Við verðum að vera varkár við að einblína á að elska aðra, ekki dæma þá, sama hvorn aðila hjónabandsins við eigum sterkara samband við.

Í stað þess að einblína á það að dæma, getum við einblínt á elsku og einingu, eins og systir J. Anette Dennis, fyrsti ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins, kenndi:

„Hve oft dæmum við aðra eftir útliti þeirra og hegðun, eða vegna skorts á gjörðum, þegar, ef við hefðum fullan skilning, við myndum frekar bregðast við með samúð og þrá til að hjálpa, frekar en að bæta við byrðar þeirra með fordómum okkar? …

Okkur er boðið að elska aðra, að dæma þá ekki. Leggjum niður þessar þungu byrðar, það er ekki okkar að bera þær. Þeirra í stað, getum við tekið upp kærleiks- og samúðarbyrðar frelsarans. …

Allir þurfa að finna það að þeir tilheyri raunverulega og að þeirra er þörf í líkama Krists.“5

Spurningar til að hafa í huga:

  • Hvað get ég gert til að einblína meira á að elska aðra eins og Jesús Kristur gerir?

  • Er ég á einhvern hátt að dæma einhvern, meðal annars með því að finna og gera upp sök, sem gæti haldið mér frá því að geta veitt nauðsynlegan stuðning?

  • Hvað get ég gert til að finna betur fyrir elsku Guðs til annarra?

Leitið leiða til að hafa þau með

Einstaklingar glata oft vinum í hjónaskilnaði, sem þeir eignuðust í gegnum vini eða fjölskyldu fyrrverandi maka. Hvað gerist svo þegar vinátta myndaðist á tíma hjónabandsins og vinir geta ekki lengur boðið báðum aðilum á sama tíma á uppákomur?

Ein systir miðlaði því að hún og eiginmaður hennar hefðu oft sótt vikulegt leikjakvöld með vinum þeirra í deildinni. Eftir skilnaðinn var hún döpur yfir því að vera ekki lengur boð á leikjakvöldið, þar sem einungis hjón mættu. Önnur systir sagði að margir meðlimir deildarinnar gerðu ráð fyrir að þar sem hún væri nú einstæð móðir, hefði hún ekki tíma til að sækja uppákomur með vinum eins og áður fyrr; því buðu þeir henni ekki svo hún yrði ekki leið yfir því að komast ekki. Hvað sem því líður, þá fann hún einfaldlega til meiri einangrunar og einmanaleika. Þessi systir sagði að það hefði verið góð tilfinning að fá áfram boð (jafnvel þótt hún gæti ekki mætt) – að vita að hinir vildu félagsskap hennar.

Hvert tilfelli er einstakt, en „við höfum öll þörf fyrir ljúfa vináttuhönd og yfirlýst orð óhagganlegrar trúar.“6

Spurningar til að hafa í huga:

  • Hvaða breytingar á viðburðum get ég innleitt til að hjálpa meðlimum sem eru einstæðir að líða jafn vel með að mæta og hjónum?

  • Hvernig getur deild okkar veitt aukin tækifæri til að bjóða þeim sem hafa gengið í gegnum skilnað að vera með á uppákomum?

  • Hvaða uppákomur gætu hjálpað vini mínum að þjóna eða leggja af mörkum, sérstaklega ef hann eða hún þurfa að endurheimta sjálfstraust eftir erfitt samband?

Ljósmynd
fólk í hring

„Fylgjast fyrst með, síðan þjóna.“7

Þeir sem ganga í gegnum skilnað eru að aðlagast breytingum á fjármálum, tímatöflum, tilfinningum, daglegum og árlegum hefðum, búsetu og fleiru. Þetta á við um fullorðna sem og börn þeirra, sem gætu einnig verið að taka við aukinni ábyrgð á heimilinu.

Deildar- eða greinarráð getur íhugað hvernig hægt væri að styðja hvern meðlim fjölskyldunnar, þar með talin börnin. Við, sem einstaklingar, höfum mörg tækifæri til að sjá þarfir og bregðast svo við persónulegri opinberun í bænarhug til að uppfylla hana.

Systir nokkur var blessuð þegar nágranni áttaði sig á að fyrrverandi eiginmaður hennar hefði yfirleitt séð um hausthreingerningu í garðinum, meðal annars að undirbúa garðúðarana fyrir veturinn og bauðst til að gera það fyrir hana og sýna henni hvernig ætti að bera sig að. Einstæður faðir var blessaður þegar nágrannar hans gáfu honum hugmyndir um áreiðanlegar barnapíur í nýja hverfinu.

Hér eru aðrar leiðir sem meðlimir hafa aðstoðað fjölskyldur:

  • Deildar-, ungmenna- og Barnafélagsleiðtogar sýndu viðeigandi fordæmi með föður- og móðurlegum áhrifum miðað við þarfir barnsins og á viðeigandi hátt.

  • Gefnar voru jólagjafir, einnig peningar til að hjálpa til við trúboðskostnað.

  • Aukalegur matur eftir ungmennaráðstefnur eða viðburði var sendur heim til fjölskyldunnar.

  • Meðlimir deildarinnar sóttu íþróttaviðburði barnanna.

  • Kennararáð ræddu hvernig hægt væri að vera aðgætin þegar kæmi að börnum sem byggju á skilnaðarheimili, einkum varðandi lexíur um fjölskyldur eða þegar börnin sóttu aðeins kirkju aðra hverja viku með ákveðnu foreldri.

  • Eldri hjón tóku fjölskyldu einstæðs foreldris undir sinn verndarvæng.

Við getum einnig haft það í huga að einstaklingar og fjölskyldur þurfa tíma til að aðlagast nýjum aðstæðum. Gefið þeim tíma til að græða sárin og taka framförum samkvæmt tímatöflu Guðs og þeirra sjálfra, ekki okkar.

Spurningar til að hafa í huga:

  • Hvernig get ég eflt vinskap svo að þeir sem ganga í gegnum hjónaskilnað geti áhyggjulaust tekið á móti hjálp þegar þeir þurfa á því að halda, þótt það sé ekki í augnablikinu?

  • Hvaða „fyrstu skipti“ gætu verið sérlega erfið fyrir fjölskylduna, t.d. fyrsta skiptið þegar börnin eru ekki með foreldri í fríi? Hvernig get ég veitt aukinn vinskap á þessum stundum?

  • Hvaða úrræðum gæti fjölskyldan þurft á að halda, sem ég get aðstoðað við, eða hvernig gæti ég tengst öðrum sem hafa kunnáttu til að hjálpa?

Þegar við reynum að skilja betur og þjóna þeim í bænaranda sem eru fráskildir, ásamt fjölskyldum þeirra, getum við fundið fyrir og miðlað hluta af elsku Guðs til allra barna hans.

Heimildir

  1. Sjá, t.d., Quentin L. Cook, „Hjörtu tengd böndum réttlætis og einingar,“ aðalráðstefna, okt. 2020; D. Todd Christofferson, „Kenningin að tilheyra,“ aðalráðstefna, okt. 2022; Gary E. Stevenson, „Hjörtu tengd böndum,“ aðalráðstefna, apr. 2021.

  2. Virginia U. Jensen, „Creating Places of Security,“ Ensign, nóv. 1997, 91.

  3. Dallin H. Oaks, „Hjónaskilnaður,“ aðalráðstefna, apr. 2007.

  4. Gospel Topics, „Divorce,“ topics.ChurchofJesusChrist.org.

  5. J. Anette Dennis, „Hans ok er ljúft og byrði hans létt,“ aðalráðstefna, okt. 2022.

  6. Jeffrey R. Holland, „Vera með þeim og styrkja þau,“ aðalráðstefna, apr. 2018.

  7. Linda K. Burton, „Fylgjast fyrst með, síðan þjóna,“ aðalráðstefna, okt. 2012.

  8. Jeffrey R. Holland, „Ég trúi,“ aðalráðstefna, apr. 2013.

  9. Sjá Jackie Witzel, „Rebuilding My Life after Divorce,“ Ensign, júní 2000, 54–57.

Prenta