2023
Vegur okkar til Emmaus
Júlí 2023


„Vegur okkar til Emmaus,“ Líahóna, júlí 2023.

Kom, fylg mér

Lúkas 24:13–35

Vegur okkar til Emmaus

Fimm einfaldar athafnir sem geta hjálpað okkur að vita að frelsarinn er alltaf nálægur.

Ljósmynd
Jesús og lærisveinar á veginum til Emmaus

Á veginum til Emmaus, eftir Wendy Keller, með góðfúslegu leyfi frá Havenlight

Faðir minn dó úr krabbameini þegar ég var 4 ára. Ég ólst upp með vangaveltur um það hvers vegna hann hefði þurft að deyja. Ég efaðist um Guð og spurði hvers vegna lífið væri svona ósanngjarnt. Tíu árum síðar, þegar ég var 14 ára, hitti ég trúboðana. Þegar þeir kenndu okkur, fannst móður minni að þeir væru að kenna sannleikann og að við ættum að hlusta. Þegar við gengum í kirkjuna, kom fagnaðarerindi Jesú Krists og skilningur á sáluhjálparáætluninni í líf mitt á tíma þar sem ég þurfti virkilega á því að halda.

Síðar, þegar ég innsiglaðist foreldrum mínum í musterinu, hvíslaði móðir mín að mér: „Ég finn fyrir nærveru föður þíns.“ Þegar ég ígrundaði blessanir þess að vera innsigluð, vissi ég að Drottinn væri meðvitaður um fjölskyldu okkar og að hann hefði oft verið með okkur, jafnvel þótt við tækjum ekki eftir því.

Hafið þið nokkurn tíma íhugað hvort frelsarinn sé meðvitaður um ykkur? Veit hann hver barátta ykkar og áhyggjur eru? Hvað myndi hann segja við ykkur ef þið gætuð gengið með honum og rætt við hann?

Hann gekk með þeim

Þremur dögum eftir dauða Jesú Krists, gengu tveir af lærisveinum hans á veginum til þorpsins Emmaus, sem er um 12 km frá Jerúsalem. Þeir voru djúpt sokknir í eigin hugsanir og áhyggjur, þegar ókunnugur maður slóst í för með þeim.

Ókunnugi maðurinn spurði: „Hvað er það sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“

Lærisveinarnir töluðu um nýafstaðna atburði varðandi „þetta um Jesú frá Nasaret.“ Þeir trúðu að Jesús hefði komið til að endurleysa Ísrael, en hann hafði verið dæmdur ranglega og krossfestur. Þeir sögðu líka að þeir sem best þekktu Krist hefðu sagt að hann hefði risið upp frá dauðum.

Ókunnugi maðurinn sagði þeim að þeir væru „[skilningslausir] menn, svo tregir til að trúa því öllu sem spámennirnir hafa sagt fyrir um!“ Hann fór yfir það sem ritningarnar kenndu og hvernig Kristur hefði uppfyllt spádóma. Þetta færði lærisveinunum gleði.

Þegar þeir komu til Emmaus, buðu lærisveinarnir ókunnuga manninn að „[vera] hjá [sér].“ Þegar þeir snæddu kvöldverð, blessaði ókunnugi maðurinn brauðið og braut það. Skyndilega sáu lærisveinarnir að ókunnugi maðurinn var alls ekki ókunnugur, heldur sjálfur frelsarinn! (Sjá Lúkas 24:13–32.)

Hann er hjá okkur

Ef til vill veltum við því fyrir okkur hvers vegna lærisveinarnir tveir hafi ekki borið kennsl á frelsarann, sem gekk með þeim. En hversu oft skiljum við ekki að hann gengur með okkur? Við erum oft svo einbeitt á áskoranirnar og jafnvel gleðina í daglegu lífi, að við sjáum ekki að frelsarinn er okkur við hlið.

Kannski sjáum við ekki hvernig hann dvelur hjá okkur, berst með okkur, vinnur með okkur og grætur með okkur. Jafnvel á okkar döprustu augnablikum getum við, ef við gefum því gaum, fundið fyrir honum hjá okkur og heyrt orð hans: „Hættið og játið að ég er Guð“ (Sálmarnir 46:11, leturbreyting hér; sjá einnig Kenning og sáttmálar 101:16).

Persónulegur vegur okkar

Við höfum öll ákvörðunarstað að komast á í þessu lífi. Stundum gætum við glímt við veikindi á ferðalagi okkar, eða eigum erfitt með eigin veikleika. Við gætum átt í fjárhagslegum vandræðum eða þeim áskorunum sem fylgja árangri, ríkidæmi og drambi.

Þegar við ferðumst persónulegan veg okkar til Emmaus, þurfum við aldrei að ganga einsömul. Við getum beðið frelsarann að vera hjá okkur. Hér eru fimm einfaldar athafnir sem munu hjálpa okkur að komast nær honum.

Ljósmynd
biðjandi kona

Myndskreyting: Lovetta Reyes-Cairo

1. Biðja dag hvern

Bænin ætti að vera í fyrsta sæti í lífi okkar. Hún getur hjálpað okkur að njóta samneytis himnesks föður og hljóta leiðsögn hans. Við getum beðið um styrk til að fylgja syni hans og fyrir krafti andans, sérstaklega á þeim stundum þegar hugsanir okkar gætu leitt til syndar.

Hinn ungi Joseph Smith fann fyrir því er óvinurinn reyndi að stöðva hann, þegar hann leitaði til Guðs eftir bænasvari (sjá Joseph Smith – Saga 1:16). Við þurfum að halda fast við bænina eins og Joseph og treysta því að himneskur faðir þreytist aldrei á að hlusta á okkur. Hann mun hjálpa okkur að skilja tímasetningar sínar og svör sín.

Ljósmynd
opnar ritningar

2. Endurnærast á ritningunum

Frelsarinn setti okkur fordæmi með því að nema ritningarnar. Hann vísaði oft í þær, þegar hann kenndi. Reglulegt ritningarnám hjálpar okkur að hafa hreinan og opinn huga, móttækilegt hjarta sem varðveitir orð Guðs og hendur reiðubúnar að þjóna.

Þegar við lesum ritningarnar, getur heilagur andi fyllt okkur með þrá til að gera gott. Það mun skerpa sjón okkar svo við fáum séð það sem náttúrleg augu okkar sjá ekki. Það mun hjálpa okkur að taka eftir hrópum hinna bágstöddu. Við munum blessuð er við fylgjum fordæmi frelsarans við að hugga þá sem á huggun þurfa að halda (sjá Mósía 18:8–9). Svo, þegar við stöndum frammi fyrir daglegum verkefnum, göngum við aldrei einsömul. Frelsarinn gengur með okkur, eitt skref í einu.

Ljósmynd
Russell M. Nelson forseti

3. Fylgja lifandi spámönnum

Við ættum að fylgja leiðsögn okkar ástkæra spámanns, Russells M. Nelson forseta, og hinna spámannanna, sjáendanna og opinberaranna. Þá komumst við í raun um að vegur okkar til Emmaus verður öruggur og hindrunarlaus. Þeir munu leiða okkur örugglega og hjálpa okkur að vita að frelsarinn er hjá okkur.

Ljósmynd
tvær hendur teygja sig í hvor aðra

4. Bjóða honum að vera hjá sér

Þegar við lærum um Jesú Krist og fylgjum boðorðum hans, þá bjóðum við frelsaranum að vera hjá okkur. Við lærum að bera kennsl á áhrif hans í lífi okkar.

Lærisveinarnir tveir á veginum til Emmaus gengu með frelsaranum, töluðu við hann og fundu hjarta sitt brenna (sjá Lúkas 24:32). Bón þeirra til hans, „vertu hjá okkur“ (Lúkas 24:29), ætti líka að vera okkar bón.

Þegar lærisveinarnir báru kennsl á frelsarann, hvarf hann þeim skyndilega sjónum. Lærisveinarnir sneru undir eins við til Jerúsalem og báru postulunum vitni um að frelsarinn væri upp risinn. Þegar þeir báru vitni, „[stóð Drottinn] meðal þeirra“ (Lúkas 24:36). Við getum líka fundið fyrir honum þegar hann er meðal okkar.

Ljósmynd
sakramentisvatnsbakki

5. Endurnýja sáttmála reglulega

Helgiathafnir og sáttmálar fagnaðarerindis Jesú Krists geta breytt eðli okkar. Dallin H. Oaks forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Tilbeiðsla okkar og iðkun eilífra lögmála færir okkur nær Guði og eflir getu okkar til að elska.“1 Sem dæmi, þá gerir skírnin Drottni mögulegt að hreinsa okkur. Og ef við erum trúföst og hlýðin, þá búa musterissáttmálar og helgiathafnir okkur undir að dvelja dag einn í návist bæði föðurins og sonarins.

Sakramentið hjálpar okkur að muna og gerir okkur mögulegt að endurnýja sáttmála okkar, að iðrast og reyna aftur. Þegar við meðtökum sakramentið, er það til marks um fúsleika okkar til að taka á okkur nafn Jesú Krists og endurskuldbinda okkur að hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans. Okkur er þá lofað að andi hans verði ætíð með okkur. (Sjá Kenning og sáttmálar 20:77, 79.) Við ættum alltaf að muna þær helgiathafnir og þá sáttmála sem við höfum gert.

Ljósmynd
Jesús liðsinnir öðrum

Frelsarinn verður nærri

Á vegi okkar til Emmaus, bauð frelsarinn okkur ástúðlega að koma til sín og fagna í sér. Þegar við biðjumst fyrir daglega, endurnærumst á ritningunum, fylgjum lifandi spámönnum, bjóðum honum að vera hjá okkur og endurnýjum og virðum sáttmála okkar, þá mun hann vera okkur nálægur. Við hljótum þá vitneskju, eins og lærisveinarnir á veginum til Emmaus hlutu hana, um að Jesús Kristur er upp risinn og að hann lifir sannarlega og elskar okkur.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari okkar og lausnari. Hann vill óðfús vera með okkur og leiða okkur af öryggi á vegi okkar.

Prenta