2023
Köllun okkar til að miðla fagnaðarerindi frelsarans
Júlí 2023


„Köllun okkar til að miðla fagnaðarerindi frelsarans,“ Líahóna, júlí 2023.

Köllun okkar til að miðla fagnaðarerindi frelsarans

Sem þjónar Guðs, erum við kölluð til að miðla voninni sem frelsarinn býður með lífi sínu, kenningum, friðþægingu og hinu endurreista fagnaðarerindi.

Ljósmynd
tveir öldungar í trúboði horfa á spjaldtölvu

Félagi minn og ég kenndum manni þegar við vorum ungir trúboðar á Englandi, sem hafði upplifað skelfilega, lífshættulega atburði í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hafði tekið þátt í vopnuðum átökum á landi og lifað af hrikalega árás sem gerð var á skipið sem hann var á, áður en hann sneri aftur heim til Englands. Þegar hann kom loks aftur til Englands, var hann svo yfirkominn af tilfinningum og þakklæti fyrir að hafa snúið aftur heill á húfi að hann kraup, kyssti jarðveginn og gjörði þakkir.

Þegar við kenndum honum um endurreisnina og lýstum Fyrstu sýn Josephs Smith, grét hann. Hann lýsti með tárin í augunum hinum yfirþyrmandi vitnisburði sem hann hafði hlotið. Hann útskýrði að boðskapur endurreisnarinnar hafi vakið með honum svipaðar tilfinningar og þegar hann sneri öruggur heim til Englands. Hann fann að hann átti eilíf örlög.

Ljósmynd
hópur trúboða á Englandi

„Hið endurreista fagnaðarerindi býður fram það ljós sem börn Guðs þurfa á að halda á umbrotatímum,“ segir öldungur Quentin L. Cook (efri röð, fimmti frá hægri), sem þjónaði í breska trúboðinu ásamt öldungi Jeffrey R. Holland (efri röð, sjöundi frá vinstri).

Hægri: ljósmynd birt með leyfi höfundar

Köllun okkar sem þjónar Guðs

Við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, erum þjónar Guðs. Sem þjónar hans, er takmark okkar að miðla öðrum – eins og þeim sem ég kenndi á Englandi – voninni sem frelsarinn býður með lífi sínum, kenningum, friðþægingu og endurreistu fagnaðarerindi (sjá 3. Nefí 27:13–14). Það er ekki auðvelt verkefni í heimi sem er fullur af efasemdum, örvæntingu og myrkri, en hið endurreista fagnaðarerindi býður fram það ljós sem börn Guðs þurfa á að halda á umbrotatímum.

Russell M. Nelson forseti hefur lýst því yfir að heimurinn þarfnist fagnaðarerindis Jesú Krists nú meira en nokkurn tímann áður: „Fagnaðarerindi hans er eina svarið, er margir í heiminum eru slegnir ótta. Þetta undirstrikar hina brýnu nauðsyn að við fylgjum boði Drottins til lærisveina sinna: ‚Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni‘ [Markús 16:15, leturbreyting hér; sjá einnig Matteus 28:19]. Við höfum þá helgu ábyrgð að deila krafti og friði Jesú Krists með öllum sem vilja hlusta og láta Guð ríkja í eigin lífi.“ Nelson forseti bætti við: „Hvert okkar hefur hlutverki að gegna í samansöfnun Ísraels.“1

Ljósmynd
systurtrúboðar og hjón horfa á síma

Ein leið til að uppfylla þetta hlutverk er að samþykkja köllun um að þjóna sem fastatrúboðar. Eins og Nelson forseti lagði nýlega áherslu á, þá vitum við að ábyrgð trúboðsstarfsins hvílir aðallega á herðum pilta sem hafa verið varðveittir til samansöfnunar á síðari dögum. Fyrir þá er trúboðsþjónusta „prestdæmisskylda.“ Þótt trúboðsstarf sé valkvætt fyrir stúlkur, hefur Nelson forseti hvatt þær til að spyrja Drottin hvort hann vilji að þær þjóni einnig. Við þær sagði hann: „Framlag ykkar í þessu verki er stórfenglegt!“ Og auðvitað þarf Drottinn á þjónustu eldri hjóna að halda, ef aðstæður þeirra leyfa. „Framlag þeirra,“ sagði Nelson forseti, „er einfaldlega óviðjafnanlegt.“2

Önnur leið til að uppfylla hlutverk okkar í samansöfnun Ísraels, er að minnast sáttmála okkur um að „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar“ (Mósía 18:9). Við þurfum ekki köllun fastatrúboða til að standa sem vitni. Þegar við lifum eftir fagnaðarerindinu, elskum og þjónum, stöndum sterk frammi fyrir freistingum og ofsóknum og gefum vitnisburð í orði og verki, þá löðum við aðra til Jesú Krists.

Það getur verið ógnvekjandi að miðla fagnaðarerindinu, jafnvel fyrir þá sem hafa nú þegar þjónað í trúboði. En þegar við höfum sterkan vitnisburð um frelsarann og endurreisnina, getum við ekki annað en borið vitni um það sem við vitum.

Ljósmynd
kona brosir

Mikilvægi vitnisburðar

Hvernig eflum við vitnisburð okkar svo að við getum orðið árangursríkir trúboðar? Við þurfum einfaldlega að fylgja ráðum lifandi spámanns okkar. Vitnisburður okkar eflist þegar við:

  • Aukum andlegan skriðþunga okkar.3

  • Helgum Drottni tíma.4

  • Styrkjum andlega undirstöðu okkar.5

  • Látum Guð ríkja í lífi okkar.6

  • Hlýðum á hann.7

Þegar við lesum orð Nelsons forseta og hlýðum leiðsögn hans, eflum við vitnisburð okkar um frelsarann og fagnaðarerindi hans, hlutverk spámannsins Josephs Smith í endurreisninni, sannleiksgildi Mormónsbókar og köllun nútíma spámanna og postula. Sterkari vitnisburður mun búa okkur undir – og auka þrá okkar – að hlýða spámannlegu kalli Nelsons forseta um að safna saman Ísrael beggja vegna hulunnar.

Til að miðla fagnaðarerindinu árangursríkt, þurfum við ekki að vera hæfileikaríkir ræðumenn. Við þurfum ekki að þekkja hvern smástaf og stafkrók trúarkenninganna. Við þurfum ekki að læra utanbókar fjölda ritningarversa. Við þurfum ekki einu sinni að vera hámenntuð. Þessir hlutir geta hjálpað okkur við miðlun boðskaparins, en sannur kraftur umbreytingar hlýst með auðmjúku hjarta, geislandi vitnisburði og staðfestandi vitni frá heilögum anda.

„Enginn maður,“ sagði spámaðurinn Joseph Smith, „getur prédikað fagnaðarerindið án heilags anda.“8

„Eldur hið innra“

Eftir að hafa heyrt trúboða kenna boðskap hins endurreista fagnaðarerindis árið 1830, vildi Brigham Young komast sjálfur að sannleikanum um það sem þeir kenndu. Hann nam Mormónsbók skipulega, en einnig manngerð þeirra sem vitnuðu um hana og spámanninn Joseph Smith.

Eitthvað við þessa fyrritíma trúboða snerti hjarta og sál Brighams. „Vitnisburður þeirra var sem eldur hið innra,“ sagði hann.9

Einn þessara trúboða, Eleazer Miller, hafði einungis verið meðlimur kirkjunnar í fjóra mánuði.10 Hann var, samkvæmt talsmáta trúboða dagsins í dag, „grænn“ og ekki góður ræðumaður. En það skipti engu.

Ljósmynd
Eleazer Miller

Eleazer Miller

Mörgum árum síðar sagði Brigham Young forseti: „Þegar ég sá mann án málsnilldar eða hæfileika til að tala yfir almenningi, sem gat varla sagt: ‚Ég veit fyrir kraft heilags anda að Mormónsbók er sönn [og] að Joseph Smith er spámaður Guðs[,]‘ þá upplýsti heilagur andi, sem stafaði frá þessum einstaklingi, skilning minn, og ljós, dýrð og eilíft líf birtist mér.“

Young forseti sagði að hann hefði verið umkringdur og uppfullur af því ljósi og þeirri dýrð, og að hann vissi að vitnisburður Eleazers væri sannur.

„Heimurinn, með allri sinni visku og mætti, með allri dýrð sinni og gylltu sjónarspili konunga og höfðingja,“ sagði Young forseti, „visnar fullkomlega í samanburði með hinn einfalda, óskreytta vitnisburð þjóns Guðs.“11

Hve mikil er gleði okkar

Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Þegar allt kemur til alls er mesta og mikilvægasta skyldan sú að prédika fagnaðarerindið.“12

Miðlun fagnaðarerindisins er innifalin í því að virða sáttmála okkar sem meðlimir í ríki Guðs. Að miðla fagnaðarerindinu er eitt af æðstu tjáningarformum þess að elska náunga okkar eins og okkur sjálf (sjá Matteus 22:37–39). Að miðla fagnaðarerindinu er mesta boð frelsarans til okkar.

Þau okkar sem hafa tekið þátt í að leiða sálir til Krists, höfum fengið smjörþefinn af hinni eilífu gleði sem lofuð er þeim sem vinna að því að bjarga börnum Guðs (sjá Kenning og sáttmálar 18:15–16). Ég lít enn aftur til trúboðstíma míns, sem ungur trúboði á Englandi – félaganna sem ég þjónaði með, fólkinu sem við hittum, hinum dýrmætu sonum og dætrum Guðs sem við hjálpuðum að koma í hjörð hans. Líf mitt var aldei samt eftir það.

Af eigin reynslu endurtek ég loforð Æðsta forsætisráðsins til þeirra sem „boða sannleikann,“13 hvort sem heldur heima eða erlendis: „Drottinn mun launa þér og blessa þig ríkulega þegar þú þjónar honum af auðmýkt í bænaranda. Meiri gleði bíður þín en þú hefur áður upplifað er þú starfar meðal barna hans.“14

Prenta