2023
Þær breytingar sem við viljum – og viljum ekki – standa frammi fyrir
Júlí 2023


„Þær breytingar sem við viljum – og viljum ekki – standa frammi fyrir,“ Líahóna, júlí 2023.

Ungt fullorðið fólk

Þær breytingar sem við viljum – og viljum ekki – standa frammi fyrir

Hvert er langtímamarkmið ykkar? Ef þið vitið að hverju þið stefnið, þá verðið við viðbúin og jafnvel spennt að gera breytingar í lífi ykkar.

Ljósmynd
karlmaður velur í hvaða átt hann á að ganga á vegamótum

Hafið þið nokkurn tímann þurft að gera breytingu sem þið höfðuð í rauninni ekki áhuga á að gera? Eða breytingu sem þið áttuð ekki von á að þurfa að gera?

Fyrir um 15 árum sagði læknirinn minn að ég þyrfti að gera lífstílsbreytingu: „Byrjaðu að hreyfa þig meira, annars munt þú ekki lifa mjög lengi,“ sagði hann við mig. Ég tók þessari viðvörun alvarlega. Ég ákvað að byrja að hlaupa.

Til að gera þessa lífstílsbreytingu árangursríka, þurfti ég að horfa til framtíðar, því ég vissi að ef ég væri skammsýnn myndi ég ekki ná mjög langt.

Langtímasýn mín er endurtekið markmið um að hlaupa eitt maraþon á ári. Þetta markmið hjálpar mér að koma mér af stað og hlaupa á hverjum degi, því ég veit að á ákveðnum degi á næsta ári, þarf ég að hlaupa 42,2 kílómetra. Ég held aga til að þjálfa mig og ná skammtímamarkmiðum í hverri viku, því ég veit að þau búa mig undir kapphlaupið.

Stundum reyna utanaðkomandi áhrif að stöðva mig, svo sem veðrið. Kannski er of heitt eða kalt úti eða ef til vill er rigning. Þá þarf ég að hlaupa á hlaupabretti innandyra, jafnvel þótt ég vildi heldur hlaupa úti á götu. Meiðsli reyna einnig að stöðva mig. Kannski gerði ég ekki almennilegar teygjuæfingar áður en ég fór að hlaupa og togna á hásin. Það getur líka verið að það sé ekki mín sök að ég slasaðist. Sama hvernig það gerist, þá get ég ekki gefist upp, því ég veit að ég er á leiðinni að hlaupa maraþon á næsta ári. Þá geri ég breytingar á þjálfuninni. Ég næ mér og byrja aftur að hlaupa.

Hlaup hafa kennt mér mikið um fagnaðarerindið. Við eigum öll langtímamarkmið í fagnaðarerindinu um að standa stöðug allt til enda og hljóta upphafningu. En við setjum skammtímamarkmið, eins og að taka sakramentið í kirkju í hverri viku, til að hjálpa okkur að ná takmarki okkar. Við hljótum andleg meiðsli þegar við gerum mistök. En við gefumst ekki upp. Við iðrumst og höldum áfram. Eina leiðin til að ná langtímamarkmiði okkar, er að gera litlar breytingar á ferð okkar til að hjálpa okkur að haldast á réttri braut.

Ljósmynd
kona velur í hvaða átt hún á að ganga á vegamótum

Velja að breytast

Ég starfaði í yfir áratug sem aðalvaraforseti Walmart í Brasilíu. Fjölskylda mín var fjárhagslega stöðug og ég naut starfsins og lífið var gott. En starfið krafðist mikils. Ég þurfti að ferðast mikið, sem kom niður á fjölskyldu okkar og þjónustu minni í kirkjunni. Eftir 11 eða 12 ár var það farið að verða yfirþyrmandi.

Ég og eiginkona mín ræddum málin og lögðum til að ég segði upp starfinu. Við ræddum þetta við börnin okkar og sögðum í sameiningu: „Það er kominn tími fyrir okkur að gera breytingar.“

Þegar ég hætti, fór ég frá því að vera aðalvaraforseti í að vera atvinnulaus. Það tók næstum heilt ár að finna og samþykkja annað starf. Þegar ég loks tók við starfi hjá lítilli fasteignasölu í Bandaríkjunum, hafði ég góða tilfinningu fyrir því. Þetta starf gerði mér kleift að gefa því sem skipti raunverulegu máli meiri tíma.

En annað fólk sagði mér að ég væri ekki með öllum mjalla. Af hverju að hætta í öruggu starfi fyrir fasteignasölu sem enginn hafði heyrt um? Og flytja þvert yfir hálfan heiminn til Bandaríkjanna?

Það hafði rétt fyrir sér með það að þetta var risastór breyting sem við ákváðum að gera. En það hafði rangt fyrir sér að þetta væri slæm ákvörðun.

Við þurftum á mikilli trú að halda til að skipta um starfsvettvang og flytja til nýs lands, en Drottinn gætti okkar. Ég hafði meiri tíma til að uppfylla skyldur mínar sem eiginmaður, faðir og deildarmeðlimur.

Ég trúi því að breytinga sé krafist til að við uppfyllum möguleika okkar. Við munum aldrei verða að því sem himneskur faðir vill að við verðum ef við stöndum í stað í lífi okkar. Og við verðum eins og hann þegar við gerum úthugsaðar breytingar í trú.

Þvingaðar breytingar

Önnur stór breyting sem varð í fjölskyldu minni, var þegar yngsti bróðir minn lést í bílslysi. Hana völdum við ekki eða vildum fyrir hann eða okkur og hún er enn sár, jafnvel 10 árum síðar. Þvingaðar breytingar eru aldrei einfaldar.

En það sem við veljum ekki getur orðið að tækifæri til að efla trú okkar á himneskan föður og Jesú Krist. Það er auðvelt að vera trúföst þegar allt gengur í haginn. En getum við haldið í trúna og haldið áfram þegar breytingarnar eru ekki okkur í hag?

Hjónaskilnaður, ófrjósemi, atvinnuleysi, veikindi og aðrar sársaukafullar upplifanir eins og þessar eru ekki eitthvað sem við vonumst eftir eða gerum ráð fyrir. Þær geta látið okkur líða eins og við höfum enga stjórn á því sem gerist í lífinu. En það er ekki algjörlega rétt – mitt í óumbeðnum aðstæðum eru enn hlutir sem þið getið haft stjórn á. Þið getið sett lítil markmið, jafnvel bara markmiðið um að komast í gegnum einn dag til viðbótar. Þið getið það! Þið getið borið allt með þolinmæði! (sjá Alma 38:4).

Jósef í Egyptalandi er fullkomið dæmi um þetta. Líf hans var fullt af þvinguðum breytingum – hann missti frelsið tvisvar! (Einu sinni þegar bræður hans seldu hann í þrældóm og aftur þegar Pótífar sendi hann í fangelsi.) En Jósef brotnaði ekki niður vegna þess að kringumstæður voru óæskilegar og óvæntar. Hann aðlagaði sig og óx vegna reynslu sinnar. Að lokum bjargaði hann fjölskyldu sinni og heilli þjóð. Drottinn mótaði hann allan tímann og undirbjó hann (sjá 1. Mósebók 37–46).

Það er erfitt að sýna þolinmæði þegar þvingaðar breytingar setja áætlanir manns í uppnám, en hafið það í huga að langtímamarkmiðið er ávallt að hljóta upphafningu. Himneskur faðir veit hvers við þörfnumst til að ná þangað: „Þér eruð ekki færir um að standast návist Guðs nú, né heldur þjónustu engla. Haldið þess vegna áfram af þolinmæði, þar til þér eruð fullkomnaðir“ (Kenning og sáttmálar 67:13).

Ljósmynd
maður gengur á vegi

Breytingar hjálpa okkur að verða eins og frelsarinn

Himneskur faðir elskar ykkur og vill að þið náið árangri. Guð vill að þið séuð hamingjusöm. Hann setti fram áætlun fyrir ykkur, til að ná fram hvoru tveggja.

Þegar ég sé jarðlífið fyrir það sem það á að vera – þjálfun – þá öðlast breytingarnar í lífi mínu meiri tilgang. Breytingar hjálpa mér að ná langtímamarkmiði mínu, sem er að verða eins og frelsari minn, Jesús Kristur. Ég veit að himneskur faðir deilir sama langtímamarkmiði fyrir mig og öll börn sín. Alveg eins og að læknirinn vissi að ég þyrfti að breyta einhverju heilsunnar vegna, sér Guð skýrt hvaða breytingar við þurfum að gera til að verða eins og hann. Hann styður okkur og veitir okkur úrræði eins og ritningarnar, söfnuð á hverjum stað og lifandi spámann til að hjálpa okkur í leiðangri okkar til að breytast til hins betra.

Á erfiðustu dögunum – þeim dögum þegar erfitt er að fara fram úr rúminu og reima á sig hlaupaskóna, þegar við vitum að við þurfum að iðrast eða hvenær sem við glímum við einhvers konar óvæntar breytingar – þá minnum við okkur á óendanlega elsku Guðs til okkar og þrá hans að við öðlumst enn meiri hamingju en í augnablikinu.

Þessi áminning veitir okkur styrk til að gera þær breytingar sem andinn hvetur okkur til að gera. Hún hjálpar okkur líka að treysta á að þær óvæntu breytingar sem við þurfum að gera, séu hluti af áætlun hans um sem mesta hamingju.

Prenta