2023
Hvatning í musterinu
Júlí 2023


„Hvatning í musterinu,“ Líahóna, júlí 2023.

Hvatning í musterinu

Hús Drottins er staður opinberunar. Því oftar sem við förum í musterið, því líklegri erum við að hljóta opinberun.

Ljósmynd
Houston-musterið, Texas

Ljósmynd af Houston-musterinu í Texas, eftir Steve Scott Jackson

Hús Drottins er ekki bara helg bygging þar sem við vinnum sáluhjálparstarf, heldur einnig staður opinberunar þar sem bæði stórar og smáar hvatningar geta borist, þar sem sár á sál okkar geta verið grædd og þar sem Drottinn getur hreyft við hjörtum okkar á óvæntan hátt.

Sérstök hughrif

Þegar ég þjónaði sem musterisþjónn í Houston-musterinu í Texas, kom mótorhjólahópur inn á bílastæði musterisins og spurði hvort hægt væri að fara inn í musterið. Musterisforsetinn, Richard Sutton, útskýrði tilgang musterisins fyrir hópnum og þörfina fyrir musterismeðmæli til að fara inn í bygginguna. Leiðtogi hópsins og félagi hans voru sérlega athugulir.

„Ég fann fyrir einhverju þegar ég fór fram hjá byggingunni ykkar,“ sagði hann. „Ég get ekki útskýrt það, en hughrifin voru svo sérstök að ég vildi komast að því hvað gæti hafa valdið þeim.“

Þau tvö vildu vita meira og Sutton forseti gerði ráðstafanir fyrir trúboðana að heimsækja hann.

Meira en einu og hálfu ári síðar, var bankað á skrifstofuhurð Suttons forseta í musterinu. „Þú þekkir mig ekki, en fyrir nokkru síðan fór ég fram hjá með nokkrum félögum á mótorhjólunum okkar. Þá gat ég bara séð musterið að utan.“ Hann hélt áfram, sýndi musterismeðmæli og sagði: „Í dag mun ég sjá það að innan.“

Ljósmynd
kona gengur fyrir utan musteri

Annað tungumál

Þegar Dean og Bonnie Hill voru kölluð til að þjóna sem eldri trúboðar í Cochabamba-musterinu í Bólivíu, var Bonnie áhyggjufull. Hún hafði aldrei lært spænsku og var óviss um getu sína til að framkvæma nauðsynlegar helgiathafnir eða tengjast öðrum á ókunnugu tungumáli. Prestdæmisblessun lofaði henni að hún myndi geta átt samskipti á spænsku, bæði með orðum og í anda.

„Ég tala í raun ekki mikla spænsku fyrir utan musterið,“ segir hún. „En í húsi Drottins, virðist mér það auðveldara.“

Jafnvel eftir að hún og eiginmaður hennar sneru aftur heim og sóttu setur á spænsku í Ogden-musterinu í Utah, höfðu musterisþjónar orð á frábærum framburði hennar.

Gerið eitthvað til að upplifa gleði

Russell M. Nelson forseti sagði: „Við getum fengið innblástur allan daginn varðandi musteris- og ættarsögureynslu sem aðrir hafa upplifað. Við verðum hins vegar að gera eitthvað til að upplifa gleðina sjálf.“1

Gleði og innblástur bíða okkar í musterinu, ásamt hvatningu og hughreystingu. Þar er himneskt tungumál talað og skilið, sem er hvergi annars staðar hægt að upplifa. Í musterinu höfum við aðgang að þeim opinberunum sem Drottinn kýs að veita okkur, ekki aðeins þegar við förum í musterið heldur förum þangað einnig með þær væntingar að hljóta opinberun. Hér eru nokkur dæmi um innblástur:

  • Martin Goury, frá Fílabeinsströndinni, leitaði leiðsagnar í musterinu varðandi mikilvægt atriði í lífinu og hlaut merkilega staðfestingu á því að hann hefði nú þegar hlotið bænasvar varðandi þetta atriði. Þetta er reglan sem Drottinn kenndi Oliver Cowdery: „Hugleiddu … nóttina, er þú ákallaðir mig í hjarta þínu. … Veitti ég þér ekki hugarró varðandi þetta?“ (Kenning og sáttmálar 6:22, 23).

  • Randy Bronson býr nálægt Payson-musterinu í Utah og hefur varið mörgum árum í ættarsögurannsóknir. „En ég á lítt virkan son og ég er ekki alltaf viss um hvað ég get gert fyrir hann. Ég set því ekki bara nafn hans á fyrirbænalistann, heldur bið ég einlæglega í musterinu fyrir því hvað ég geti gert fyrir hann. Ég hlýt hugboð um hvað ég get sagt við eða gert fyrir hann.“

  • „Þú ert góð móðir,“ sagði Stephanie Fackrell Hill við ókunnuga konu í Logan-musterinu í Utah. „Hvernig veist þú það?“ spurði unga móðirin hikandi. Systir Hill sagði: „Þegar ég sá málningu barna þinna á höndum þér fann ég andann hvetja mig til að segja þér það.“ Hin unga móðir hafði verið að reyna að fela hendur sínar. Henni létti og fann nú að hún væri samþykkt, frekar en að vera áberandi.

Musterið er ekki bara staður til að hjálpa til við að bjarga áum okkar, heldur líka til að hljóta þess konar opinberun sem getur leitt okkur og aðra áfram á sáttmálsveginum. Nelson forseti sagði: „Hvert og eitt okkar [þarf] áframhaldandi andlega styrkingu og lærdóm, sem einungis er mögulegur í húsi Drottins.“2 Þessar hvatningar og hughrif sem berast í heilögu húsi hans, kenna okkur að sjá eins og Jesús sér, heyra eins og hann heyrir og lifa eins og hann lifði. 

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson og Wendy W. Nelson, „Open the Heavens through Temple and Family History Work,“ Liahona, okt. 2017, 19.

  2. Russell M. Nelson, „Verum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, október 2018.

Prenta