2023
Breyta nálgun minni til að öðlast vitnisburð
Júlí 2023


„Breyta nálgun minni til að öðlast vitnisburð,“ Líahóna, júlí 2023.

Ungt fullorðið fólk

Breyta nálgun minni til að öðlast vitnisburð

Í fyrsta sinn átti ég einfalt, raunverulegt sáðkorn trúar.

Ljósmynd
ýmis garðáhöld, meðal annars pottaplanta sem haldið er á

Ég ólst upp í kirkjunni – ég mætti á viðburði og tók þátt í fjölskyldubæn og ritningarlestri. En ég átti í rauninni ekki vitnisburð. Ég vissi ekki hvort ég trúði á Guð eða son hans. Ég vissi ekki hvort Mormónsbók væri sönn.

Ég þráði vitnisburð en fann til gremju eftir að hafa beðist fyrir mörgum sinnum án þess að finnast ég hafa hlotið svar. Ég byrjaði að velta því fyrir mér: „Ef Guð er raunverulegur, af hverju sýnir hann mér það ekki? Af hverju lætur hann mig sitja hérna og efast?“

Þegar ég lít til baka, get ég glögglega séð af hverju ég hlaut ekki svar: Ég var ekki að leggja mig fram. Ég las ritningarnar í fimm mínútur einu sinni í viku og bjóst við einhvers konar opinberun, bara vegna þess að ég bað um hana.

Ég skildi ekki að verkin leggja grunn að trú.

Sáðkorn trúar

Utanaðkomandi aðili hefði kallað mig „virka“ í kirkjunni, en ég vissi enn ekki hvort kirkjan væri sönn. En ég vildi vita það.

Ég ákvað því að þjóna í trúboði. Ég gerði ranglega ráð fyrir því að sem trúboði myndi ég sjálfkrafa verða líklegri til að hljóta svör frá Guði. Ég lagði enn ekki hart að mér við bænir eða nám, en fljótlega var mér úthlutað verkefni.

Í upphafi trúboðs míns átti ég erfitt með að finna andann þegar ég var þjálfuð í gegnum netið á tímum faraldursins, vegna áhugalauss viðmóts míns. En svo mætti ég í trúboðsskólann. Tími minn þar var andlegasta upplifun lífs míns. Þetta var í fyrsta sinn sem ég átti einfalt, raunverulegt sáðkorn trúar.

Gera breytingu

Það var erfitt að fara loks á trúboðsakurinn. Mér fannst eins og litli vitnisburðurinn minn hefði glatast.

Dag nokkurn var ég grátandi, en þá kom skyndilega minning í huga mér. Faðir minn spurði yfirleitt hvernig skóladagurinn minn hefði verið og ég sagði alltaf að hann hefði verið leiðinlegur. Þá sagði hann: „Ja, það er vegna þess að þú gerðir hann leiðinlegan. Ef þú vilt að skólinn sé skemmtilegur, gerðu hann skemmtilegan.“ Ég áttaði mig á því að ég gæti annað hvort nýtt tímann í trúboðinu sem best með lærdómi og vexti eða ég gæti verið vansæl.

Ég baðst því fyrir af meiri einlægni en nokkru sinni fyrr til að segja himneskum föður að ég myndi reyna að breyta viðhorfi mínu. Eftir þetta, fann ég hvatningu til að leggja mig fram. Ég byrjaði að nema, biðja og íhuga raunverulega og smám saman kom aftur vísirinn að vitnisburðinum – og hélt svo áfram að vaxa. Ég var minna óhamingjusöm og byrjaði að finna gleði í fagnaðarerindinu.

Það sem við leggjum til er það sem við hljótum

Þegar þið eruð gröm yfir því að finnast sem trú ykkar virðist ekki fara vaxandi, þá gætuð þið efast um að Guð sé þarna og hvort þið skiptið hann nokkru. En ég hef lært að hann er ávallt hjá okkur og mun hjálpa okkur að efla trú okkar og vitnisburð ef við tökum ábyrgð og leggjum okkur fram (sjá Moróní 10:4).

Öldungur Robert D. Hales (1932–2017), í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Þótt svo virðist ekki sem nein nákvæm formúla geti leitt okkur til þess að hljóta vitnisburð, þá virðist vera greinilegt mynstur.“1 Þetta mynstur felur í sér að hafa einlæga þrá til að læra sannleikann, biðja, vera reiðubúin að þjóna þar sem við erum kölluð, leggja okkur fram við að vera hlýðin, nema ritningarnar og beita þeim í lífi okkar og hafa auðmjúkt viðmót.

Án þess að breyta viðmóti mínu, fylgja þessu mynstri og leggja hjarta mitt allt í að tengjast himneskum föður og Jesú Kristi, tækist mér aldrei að efla trú mína. Þegar ég gerði þessar breytingar, byrjaði ég að hljóta svör og trúa því sem satt er.

Systir Rebecca L. Craven, annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins, sagði nýlega: „Það að vera lærisveinn Jesú Krists snýst um meira en að vona bara og trúa. … Það krefst þess að við gerum eitthvað.“2 Ég hef lært sjálf að þetta er satt: Það sem ég legg í fagnaðarerindið er það sem ég fæ út úr því.

Fyrir áhorfendur, lítur virkni mín í kirkjunni eflaust eins út og áður. En ég hef breytt skuldbindingu minni til fagnaðarerindisins í hjarta mér. Það hefur gert gæfumuninn.

Höfundur býr í Washington, Bandaríkjunum.

Heimildir

  1. Robert D. Hales, „The Importance of Receiving a Personal Testimony,“ Ensign, nóv. 1994, 21–22.

  2. Rebecca L. Craven, „Gerið það sem skiptir mestu,“ aðalráðstefna, apríl 2022.

Prenta