2023
Trúir þú á Guð?
Júlí 2023


„Trúir þú á Guð?,“ Líahóna, júlí 2023.

Frá Síðari daga heilögum

Trúir þú á Guð?

Þegar vinkona mín miðlaði áhyggjum sínum, helltist skyndilega skilningur yfir mig.

Ljósmynd
stúlka og piltur tala saman

Myndskreyting: Katy Dockrill

Ég efaðist í raun aldrei um sannleiksgildi fagnaðarerindisins á uppvaxtarárunum. Þegar ég komst á unglingsárin, efaðist ég þó um það hvort ég hefði raunverulegan vitnisburð eða samþykkti einfaldlega það sem foreldrar mínir og vinir trúðu. Ég bað fyrir vitneskju um sannleiksgildi fagnaðarerindisins.

Þrátt fyrir baráttu mína, sagði stúlka sem ég hitti í framhaldsskólanum mínum að hún skynjaði að ég skildi tilgang minn og stefnu í lífinu.

„Trúir þú á Guð?“ spurði hún mig.

Ég sagði henni að ég gerði það og að kirkjan mín kenndi um samband okkar við Guð og tilgang lífsins. Ég sagði henni einnig frá spámanninum Joseph Smith og endurreisninni. Hún hlustaði af athygli.

Í kirkju næsta sunnudag sótti ég bæklinga um Joseph Smith og sáluhjálparáætlunina fyrir vinkonu mína. Eftir að hún hafði lesið þá og byrjað á Mormónsbók, fór ég með hana í kirkju.

Síðar sagði hún mér að hún hefði verið afar náin eldri bróður sínum. Hann hafði verið áhættuflugmaður í flugsýningum á svæðinu. Því miður hafði hann látist sumarið áður en við hittumst, er hann flaug á sýningu. Hún var eyðilögð yfir dauða hans og hafði áhyggjur af honum, þar sem hann sagðist vera efasemdarmaður. Hún hafði beðist fyrir til að læra um ástand hans og stöðu frammi fyrir Guði.

Þegar hún miðlaði áhyggjum sínum, helltist skyndilega skilningur yfir mig. Þetta var skynjun hreins sannleika og ljóss. Ég skildi að fundur okkar hafði ekki verið fyrir tilviljun. Guð hafði fremur heyrt og brugðist við einlægri bæn hinnar sorgbitnu stúlku.

Ég var auðmjúkur yfir því að himneskur faðir var meðvitaður um mig og taldi mig verðugan þess að vera verkfæri í höndum sínum til að svara bæn hennar. Ég skildi mikla visku hans, þar sem hann notaði þessa upplifun til að svara á sama tíma bæn minni um sannleiksgildi fagnaðarerindisins.

Eftir undirbúning, pakkaði ég niður í töskur fyrir bestu tvö ár lífs míns. Í millitíðinni tók vinkona mín lexíurnar frá trúboðunum með systur sinni. Þær gengu báðar í kirkjuna og þjónuðu síðar í trúboði. Eftir trúboð mitt bað vinkona mín mig að framkvæma helgiathafnir musterisins fyrir bróður hennar.

Ég veit að Guð heyrir og svarar einlægum bænum, þó stundum á annan hátt eða á öðrum tíma en við áttum von á.

Prenta