Koma til Krists
Orðin „að koma til Krists“ eru boð. Það er mikilvægasta boðið sem þið getið fært öðrum. Það er mikilvægasta boðið sem þið getið þegið. Allt frá upphafi endurreisnar fagnaðarerindisins í þessari ráðstöfun, hefur Jesús Kristur falið erindrekum sínum að setja það fram. Þeirra hlutverk er að „aðvara, útskýra, hvetja og kenna og bjóða öllum að koma til Krists.“1
Allir þegnar kirkjunnar verða lærisveinar með því að taka á móti skírnarsáttmálanum og heita því að vera vitni Jesús Krists alltaf og alls staðar, hvar sem þeir kunna að vera staddir.2 Tilgangur vitnisburðargjafar okkar er að bjóða fólki að koma til hans.
Öll ættum við að hafa mikinn áhuga á því að læra hvernig setja á það boð fram með árangri. Af reynslu vitum við að ekki munu allir þiggja boðið. Aðeins fáeinir þáðu það þegar frelsarinn gaf það sjálfur í jarðneskri þjónustu sinni. En mikil var gleði þeirra sem þekktu raust hans. Og mikil hefur gleði okkar verið vegna þeirra sem þekkst hafa boð okkar að koma til hans.
Vita að hann er vegurinn
Það er vel þess virði að hugleiða þau tilvik í okkar lífi þegar fólk hefur þegið boðið. Sjálfur hef ég komið auga á ákveðið mynstur hjá þeim sem gangast við því boði. Í öllum tilvikum staðfestir heilagur andi hið minnsta þríþættan sannleika fyrir þeim. Upplifanir eru ekki alltaf í sömu röð og ég set þær hér fram, en allar hafa þær áhrif á þá sem sannlega koma til Krists.
Í fyrsta lagi komast þeir að því að sú hamingja sem er þeim eftirsóknarverðust hlýst fyrir Jesú Krist. Þeir vakna til trúar á þessi orð í Mormónsbók: „Sjá, [ég] segi … yður, svo sannarlega sem þessir hlutir eru sannir og svo sannarlega sem Drottinn lifir, er ekkert annað nafn gefið undir himninum, sem frelsað getur manninn, en nafn Jesú Krists, sem ég hef talað um.“3
Slíka fullvissu er ekki auðvelt að hljóta í heimi þar sem svo margir segja að Guð sé ekki til, að engin synd sé til og að hamingjuna finni menn í nautn og ánægju. En rödd okkar getur verið kröftugri, ef við hljótum þá gjöf að geta gefið óbrigðulan vitnisburð um að Jesús sé Kristur og frelsari alls heimsins. Slíkur vitnisburður verður kröftugur fyrir reynslu ykkar af friðþægingu Jesú Krists í lífi ykkar. Ef þið ígrundið oft á hvaða hátt friðþæging hans hefur breytt ykkur og færið oft þakkir, munuð þið komast að því að vitnisburður ykkar styrkist og þið hljótið aukinn kraft til að hafa áhrif á aðra. Þegar þeir sem þið gefið vitnisburð ykkar skynja kraft hans, munu þeir taka á móti honum sem Drottni sínum og frelsara. Og er þeir gangast við boðinu, mun það verma ykkur og þeim um hjartarætur.
Sáttmálsgjörð og hlýðni
Í öðru lagi gera þeir sem sannlega koma til Krists sáttmála um að hlýða og fylgja honum. Það kann að hefjast á því að framfylgja einföldum skuldbindingum, líkt og að lesa Mormónsbók eða sækja sakramentissamkomu. Þær verða að eiga rætur að rekja til þeirrar trúar, að Jesús er Kristur og frelsarinn. Þegar þeir framfylgja skuldbindingum vegna þeirrar trúar, munu þeir finna eitthvað. Ekki er víst að þeir geti skilgreint tilfinningar sínar, en líðan þeirra verður betri. Hlýðni, jafnvel þótt í smáu sé, veitir blessanir Guðs. Og þegar fram líða stundir munu þeir taka að uppgötva hið iðrandi hjarta og þrá að taka á sig skírnarsáttmálann, að taka á sig nafn frelsarans og hreinsast af synd.
Fólk tekur þessa mikilvægu afstöðu af ýmsum ástæðum. Maður nokkur fékk ekki í fyrstu séð að hann þyrfti á skírn að halda. Hann hafði jú reynt að vera góður maður allt sitt líf. Hann hafði ekki drýgt neina alvarlega synd. Hann hafði verið skírður sem barn í annarri kirkju. En þá kom tvennt upp í huga hans. Í fyrsta lagi að frelsarinn lét skírast af hlýðni, þótt syndlaus væri. Í öðru lagi vildi hann skuldbinda sig frelsaranum fyrir atbeina hins sanna prestdæmis, á sama hátt og frelsarinn fór til Jóhannesar til að láta skíra sig.
Annar ungur maður sem við kenndum ákvað að láta skírast vegna sundurkramins hjarta og sorgar sem hann upplifði sökum eigin synda. Þegar hann sté upp úr skírnarvatninu faðmaði hann mig og hvíslaði að mér um leið og tár runnu niður vanga hans: „Ég er hreinn, ég er hreinn.“
Ákvörðun beggja þessara manna um að taka á sig skírnarsáttmálann átti rætur að rekja til sams konar trúar. Þeim varð ljóst, að ef þeir héldu sáttmálann um að hlíta boðorðum Drottins, myndi hann halda sinn hluta sáttmálans og leiða þá til eilífs lífs. Þeir voru fúsir til að koma til hans, láta hann breyta sér og leiða sig og verða líkari honum.
Sækjast eftir því að líkjast honum
Þetta leiðir til þess þriðja sem ég hef séð í lífi þeirra sem sannlega hafa komið til Krists. Þeir sækjast eftir því að líkjast honum. Þeir taka að breyta við aðra líkt og þeir vita að hann hefði gert. Við höfum séð slíkt í fari hinna trúföstu, stuttu eftir að þeir hafa skírst og meðtekið heilagan anda. Ég fór eitt sinn með trúboðsfélaga mínum í heimsókn til fjölskyldu sem við höfðum kennt og skírt nokkrum vikum áður. Hjónin fóru með okkur niður í kjallara til að sýna okkur herbergi þar. Það hafði verið svefnherbergi annarrar dóttur þeirra. En hún hafði fært sig yfir í herbergi systur sinnar. Herbergið sem hún hafði rýmt hafði verið fyllt af fjölmörgu sem fjölskyldan þurfti á að halda í neyðartilvikum.
Við höfðum ekkert kennt þeim um viðbúnað og neyðarbirgðir. Þegar við spurðum hvers vegna þau hefðu lagt á sig slíkt erfiði á svo skömmum tíma, sögðust þau hafa lesið í kirkjutímariti að vilji Drottins stæði til þess að fjölskyldur yrðu viðbúnar því að sjá fyrir sjálfum sér og öðrum. Þau sögðu: „Er þetta ekki það sem Síðari daga heilagir gera?“
Þessi einfalda trú þeirra náði yfir allt sem frelsarinn vildi að þau gerðu. Og þrá þeirra eftir að fylgja honum varð varanleg. Og hún breytti þeim. Þau höfðu ætíð sýnt góðvild og reynt að hjálpa öðrum. En eiginleikinn til að sýna kærleika þroskaðist. Og þannig hefur það verið hvað varðar alla þá sem ég hef þekkt, sem hafa einsett sér að koma áfram til hans alla ævi.
Stundum tölum við um að varðveita þegna kirkjunnar, svo þeir villist ekki frá. Við getum verið og verðum að vera vinir þeirra sem hafa ákveðið að koma til Krists. Þeir geta misst kjarkinn þegar erfiðleikar steðja að og það gera erfiðleikar alltaf. En við verðum þó að hafa í huga að besti og öruggasti vinur þeirra er frelsarinn og faðir hans, sem einnig er faðir þeirra. Himneskur faðir og frelsarinn munu senda heilagan anda þeim til huggunar og staðfesta trú þeirra, ef þeir eru auðmjúkir og hlýðnir. Þegar við til að mynda förum að heimsóknarkenna eða heimiliskenna með nýjum kirkjuþegnum, getum við gert meira en að tjá aðeins elsku okkar. Við getum eflt þeim þrótt með því að gefa þeim kost á að flytja bæn, kenna eða mæla okkur mót, Það mun kalla á mátt himins. Það mun lyfta þeim ofar erfiðleikum og vernda gegn hroka, þegar blessanir taka að streyma til þeirra, og það munu þær gera.
Breyting hjartans
Nokkuð annað dásamlegt mun gerast. Þegar þið stillið hjarta ykkar inn á það að bjóða fólki að koma til Krists, mun það breytast. Þið munið vinna að verki hans. Þið munuð komast að því að hann stendur við það loforð sitt að vera eitt með ykkur í þjónustu ykkar. Þið munuð læra að þekkja hann. Og þegar fram líða stundir munuð þið fara að líkjast honum og verða „fullkomin í Kristi.“4 Þegar þið hjálpið öðrum að komast til Krists, munuð þið uppgötva að sjálf hafið þið komið til hans. Ef þið viljið vera nærri honum, finna frið hans, gerið þið það best í þjónustu við hann.
Það var hann sem sagði:
„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.
Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.
Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“5
Ég ber vitni um að hann stendur við þessi orð sín gagnvart þeim sem við færum boð hans. Og að hann stendur við þessi orð sín gagnvart þeim sem þjóna honum með því að færa öðrum boðin.