2008
Bjargandi hönd frelsarans
Mars 2008


Bjargandi hönd frelsarans

Sumar eitt, á uppvaxtarárum mínum í Arkansas, buðu nágrannar mér að fara með þeim í nokkurra daga útilegu, til að veiða fisk og synda í stóru vatni nærri Sardis í Mississippi. Við eyddum nokkrum dögum við alls konar útiveru.

Á síðasta degi vorum við að synda í vatninu áður en við hygðumst halda heim. Þegar ég og vinir mínir vorum að henda uppblásnum bolta á milli okkar fór boltinn yfir höfuð mitt og lenti á vatninu nokkrum metrum fyrir aftan mig. Vindurinn tók þegar að blása boltanum lengra í burtu og út á vatnið. Ég synti á eftir honum en vindurinn blés honum stöðugt lengra rétt utan seilingar minnar. Á skammri stundu hafði ég náð baujunni sem markaði grynningar og dýpi. Boltinn var nú kominn hinu megin baujunnar og flaut út á vatnið.

Þegar ég nálgaðist baujuna hugðist ég synda fram hjá henni og á eftir boltanum. Boltinn hafði ekki farið svo langt og ég var viss um að ég gæti náð honum. Ég hafði lokið björgunarnámskeiði og var stoltur af merkinu á sundskýlunni minni sem sýndi það. Mér leið þægilega í vatni og var viss um að ég hefði nægilegan styrk til þess að ná í boltann.

Vindurinn sá hins vegar um það að boltinn var alltaf rétt utan seilingar minnar. Stundum komst ég svo nærri honum að mér tókst að snerta hann með fingrunum, en aðeins til að horfa á eftir honum enn lengra út á vatnið. Loks blés sterk vindkviða honum enn lengra út á vatnið.

Mér var ekki ljóst hversu langt ég var kominn fyrr en ég staldraði við til að hvíla mig. Vatnið virtist mun dekkra og kaldara en það var á grynningunum á sundsvæðinu. Þegar ég leit til baka í átt að ströndinni, varð mér ljóst að ég var kominn út á mitt vatnið. Ég ákvað að gefa boltann upp á bátinn og synda til baka. Ég var þreyttur og lúinn, en ég hafði þó engar áhyggjur. Ég var ungur og var viss um að allt færi vel.

En þegar ég reyndi að synda í átt að ströndinni var vindurinn sem blés boltanum út á vatnið mér til trafala. Engu skipti hversu öflug sundtökin voru, mér miðaði ekkert áfram. Mig tók að verkja í handleggi og fótleggi. Ég hætti að synda og busla og lét mig fljóta til að reyna að endurheimta styrk minn.

Þá heyrði ég kunnuglegt hljóð—hljóð í vélbát. Mér létti stórum þegar ég sá mann í litlum vélbát koma upp að mér og bjóða mér far með sér í land. Ég var orðinn stífur á höndum og fótum. Mér tókst jafnvel ekki að hífa mig upp í bátinn, svo ég setti aðra höndina inn fyrir borðstokkinn og hékk þar uns maðurinn hafði dregið mig á bátnum að sundsvæðinu. Ég greip um baujuna og sleppti takinu á bátnum, veifaði í þakklætisskyni og synti upp að ströndinni.

Fimmtán árum síðar kom ég sjálfum mér í vandræði að nýju. Um langan tíma hafði ég synt í vatni syndar. Ég buslaði í djúpu vatni og sóttist eftir því sem heimsins er og því sem lítið eða ekkert gildi hefur. Ég var þrotinn að styrk og vonin að fjara út. Það sem ég hafði keppst við að hljóta var alltaf rétt utan seilingar og myrkrið var í þann mund að umlykja mig.

Í örvæntingu hrópaði ég á himneskan föður. Líkt og maðurinn á bátnum, kom frelsarinn mér nú til bjargar, er mest þörf var á. Hann leiddi mig að Mormónsbók, með síðari daga spámanni Guðs. Hann leiddi mig í gegnum ferli iðrunar og hreinsaði mig af syndum mínum í vatni skírnar. Hann kom mér síðan á fast land og þar hef ég reynt að festa rætur æ síðan.

Prenta