2008
Óvænt páskaveisla
Mars 2008


Óvænt páskaveisla

Páskarnir voru alltaf sérstaklega hátíðlegir í uppvexti mínum. Eftir kirkju voru foreldrar mínir vanir að veita okkur börnunum kennslu um friðþæginguna og upprisuna og um kvöldið voru mikil veisluhöld. Vinir komu oft til okkar í kvöldmat, sem var bæði ljúffengur og gleðiríkur. Páskarnir voru eftirlætis hátíð mín, vegna þessarar hefðar—helg stund fjölskyldunnar til að minnast upprisu frelsarans.

Þegar ég var í námi í London eitt árið var ég ein á páskunum. Kirkjudeildin mín kom ekki saman fyrr en undir kvöldið, svo að ég var út af fyrir mig allan morguninn. Mér varð hugsað um fjölskyldu mína, sem var langt í burtu, að halda daginn hátíðlegan án mín, og ég fylltist depurð og tómleika.

Í fyrstu fylltist ég sjálfsmeðaumkun, en tók síðan að velta fyrir mér hvað ég gæti gert til að auka mikilvægi dagsins. Mér varð hugsaði um fólkið sem var mér samferða daglega í neðanjarðarlestunum. Líkt og í mörgum stórborgum leituðu hinir heimilislausu og þurfandi sér oft skjóls þar. Ég hafði oft fundið til samúðar með þeim og mér varð ljóst að ég væri ekki sú eina í London sem væri einsömul yfir páskana. Mér virtist skyndilega tilvalið að hjálpa ókunnugum og sýna þannig þakklæti mitt fyrir hina dásamlegu páska sem ég hafði notið svo innilega sem barn.

Ég tók til nokkra pakka af samlokum, ávöxtum, smákökum og drykkjum. Ég hélt síðan af stað í neðanjarðarlestarnar og leitaði uppi fólkið sem ég hafði stundum leitt hjá mér. Flest var það afar þakklátt fyrir matargjöfina. Við hvert þeirra sagði ég: „Gleðilega páska!“

Þegar ég átti einn pakka eftir kom ég að manni sem virtist einkar þjakaður og niðurbeygður. Fötin hans voru skítug, andlit hans mótað af þjáningum og augu hans afar sorgmædd. Þegar ég bauð honum matarpakkann, leit hann undrandi upp til mín.

„Hvað er þetta?“ spurði hann.

„Þetta er matur, herra,“ svaraði ég.

„Kærar þakkir, kærar þakkir,“ svaraði hann. Yfirbragð hans breyttist skyndilega í gleði og þakklæti. Hann greip ákafur um pakkann og hélt fast um hann, líkt og í honum væri dýrmætur fjársjóður.

„Gjörðu svo vel,“ sagði ég snortinn yfir svipnum á andliti hans. „Gleðilega páska, herra.“

„Gleðilega páska!“ sagði hann á móti.

Á heimleiðinni komu þessi orð Benjamíns konungs upp í huga minn: „Erum vér ekki öll beiningamenn?“ (Mósía 4:19). Mér varð ljóst að án frelsarans yrði okkur öllum vísað burt, við yrðum þjökuð og niðurbeygð og látin ein eftir. En frelsarinn býður okkur að koma til sín og veitir okkur nokkuð sem við þráum heitt: Vonina um að við getum hreinsast, að við munum lifa að nýju og snúa dag einn til hans.

Ég er einnig beiningamaður frammi fyrir frelsaranum, er ég tekst á við synd og dauða. Hann býður mér miskunn. Einhvern daginn, þegar ég stend frammi fyrir honum, mun þakklæti skína af andliti mínu, líkt og ég hafði séð á andliti þessa auðmjúka manns.

Tárin tóku að streyma er ég gekk heimleiðis. Gleði kom í stað einmanaleika og aukinn skilningur á orðum Benjamíns konungs og miskunn frelsarans. Ég þakkaði Drottni hljóðlega fyrir hina óvæntu gjöf þessa manns til mín. Ég hafði gefið honum lítinn matarpakka, en hann hafði gefið mér sanna páskaveislu.