Friðþæging Jesú Krists
Í Getsemanegarðinum
Þegar öldungur Orson F. Whitney (1855–1931), sem síðar þjónaði í Tólfpostulasveitinni, var ungur trúboði dreymdi hann draum sem var svo áhrifamikill að hann breytti lífi hans varanlega. Síðar ritaði hann:
„Kvöld eitt dreymdi mig … að ég væri í Getsemanegarðinum og væri vitni að kvöl frelsarans… . Ég stóð á bak við tré… . Jesús, og einnig Pétur, Jakob og Jóhannes, gengu inn um lítið hlið mér til hægri handar. Jesús yfirgaf postulana þrjá, eftir að hafa sagt þeim að krjúpa og biðja, og fór yfir í hinn enda garðsins. Þar kraup hann á kné og baðst fyrir … : ‚Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.‘
Þegar hann baðst fyrir streymdu tárin niður vanga hans, en andlit hans sneri að mér. Ég var svo hrærður við þessa sjón að ég grét einnig, af hreinni samúð. Hjarta mitt var altekið. Ég unni honum af allri sálu minni og þráði að vera hjá honum, heitar en nokkuð annað.
Þá reis hann á fætur og gekk til postulanna—en þeir voru sofandi! Hann ýtti blíðlega við þeim, vakti þá með ávítunartón, en þó án nokkurrar reiði eða óþolinmæði og spurði þá raunamæddur, hvort þeir gætu ekki vakaði með sér eina stund… .
Hann sneri aftur til fyrri staðar, baðst fyrir að nýju og kom svo aftur að þeim sofandi. Aftur vakti hann þá, ávítaði þá og sneri að nýju til fyrri staðar til að biðjast fyrir líkt og áður. Þrisvar sinnum gerði hann þetta, þar til ég var orðinn fullkomlega kunnugur útliti hans—ásjónu, lögun og fasi. Hann var göfuglyndur og tiginmannlegur í yfirbragði … já, hann var og er Guð, en samt var hann blúgur sem barn.
Skyndilega breyttust aðstæður… . Sviðið var nú eftir krossfestinguna og frelsarinn stóð ásamt þessum þremur postulum mér til vinstri handar. Þeir voru í þann mund að stíga upp til himins. Ég þoldi ekki lengur við. Ég hljóp út undan trénu, féll að fótum hans, vafði örmum um kné hans og grátbað hann um að taka mig með sér.
Ég gleymi aldrei ljúfum og blíðum viðbrögðum hans, er hann beygði sig niður að mér, reisti mig upp og vafði mig örmum sínum. Þetta var svo skýrt og raunverulegt að ég fann ylinn af faðmlagi hans. Hann sagði síðan: ‚Nei, sonur minn, þessir hafa lokið starfi sínu og geta því farið með mér, en þú verður að vera áfram til að ljúka þínu.‘ Samt vildi ég ekki sleppa honum. Ég leit upp á ásjónu hans—því hann var hærri en ég—og sárbað hann af einlægni: ‚En viltu lofa mér því að ég komi að því loknu til þín.‘ Hann brosti blíðlega og svaraði: ‚Það er algjörlega undir þér sjálfum komið.‘ Ég vaknaði með ekka í brjósti og dagur var upp runninn.“1
Hvers vegna friðþæging?
Þessi ljúfa og persónulega frásögn um hina kærleiksríku fórn frelsarans, er vel við hæfi er fjalla á um þýðingu friðþægingar Jesú Krists. Vissulega er friðþæging hins eingetna sonar Guðs í holdinu undirstaða allra kristinna kenninga og æðsta tjáning guðlegs kærleika sem sýndur hefur verið heiminum. Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu verður ekki lögð nógsamleg áhersla á mikilvægi hennar. Allar aðrar kenningar, boðorð og dyggðir hins endureista fagnaðarerindis hvíla á þeim mikilvæga atburði.2
Friðþægingin var forvígð og hinn eingetni sonur Guðs framkvæmdi hana sjálfviljugur, þar sem hann bauðst til að fórna eigin lífi og líða þjáningar til að reiða fram gjaldið fyrir áhrifin af falli Adams á allt mannkyn og persónulegar syndir allra sem iðrast.
Bókstafleg merking enska hugtaksins Atonement (friðþæging) segir sig sjálf: At-one-ment, sem merkir að laga það sem aflaga hefur farið eða færa það í fyrra horf. Friðþæging Jesú Krists var ómissandi vegna aðskilnaðarbrotsins, eða falls Adams, sem innleiddi tvenns konar dauða í heiminn, þegar Adam og Eva neyttu af skilningstré góðs og ills.3 Líkamlegur dauði er aðskilnaður anda og líkama og andlegur dauði er aðskilnaður bæði anda og líkama frá Guði. Fallið kallaði báðar þessar tegundir dauða yfir alla menn sem fæðast á jörðinni. En við verðum að hafa í huga, að fallið var nauðsynlegur þáttur í guðlegri áætlun himnesks föður. Án þess hefði Adam og Evu ekki verið fært að geta jarðnesk börn og mannkynið hefði því ekki átt kost á að takast á við andstæður og framþróun, siðferðislegt sjálfræði og gleði upprisu, endurlausnar og eilífs lífs.4
Þörfin fyrir fallið og friðþægingu til að bæta fyrir það, var útskýrð í fortilverunni á stórþingi himins, þar sem allt mannkyn var samankomið og Guð faðirinn stjórnaði. Það var á þessu stórþingi himins sem Kristur bauð sig fram til að heiðra siðferðislegt sjálfræði alls mannkyns með því að friðþægja fyrir syndir þess. Í því ferli myndi hann veita föðurnum alla dýrð þeirrar endurleysandi elsku.5
Þessi algjöra friðþæging Krists var möguleg vegna þess að (1) hann var eini syndlausi maðurinn sem nokkurn tíma myndi lifa á þessari jörðu og var því ekki háður þeim andlega dauða sem rakinn er til syndar, (2) hann var hinn eingetni föðurins og í honum bjuggu því eiginleikar guðdæmis, sem veitti honum vald yfir líkamlegum dauða6 og (3) hann var augljóslega sá eini á stórþinginu í fortilverunni sem var nægilega auðmjúkur og fús til að verða forvígður til þessarar þjónustu.7
Gjafir friðþægingar Krists
Sumar gjafir sem friðþægingin gerir að veruleika eru algjörar, altækar og án allra skilyrða. Þar má nefna lausnargjaldið fyrir upphaflegt brot Adams, svo að enginn meðal mannkyns þyrfti að standa skil á þeirri synd.8 Önnur altæk gjöf er upprisa allra manna, karla, kvenna og barna, frá dauðum, sem nokkurn tíma hafa eða munu lifa á jörðinni.
Ýmsilegt annað sem snýr að gjöf friðþægingar er skilyrðum háð. Má þar nefna kostgæfni manna við að halda boðorð Guðs. Þótt öllum sem tilheyra mannkyni sé til að mynda gefið það að þurfa ekki að gjalda fyrir synd Adams, án þess að leggja nokkuð á sig, eru þeim ekki gefnar upp eigin syndir, nema því aðeins að þeir sýni trú á Krist, iðrist þeirra synda, séu skírðir í hans nafni, taki á móti heilögum anda og staðfestingu í kirkju Krists og haldi síðan áfram af trúfesti allt til enda lífs síns. Kristur sagði um þessa persónulegu áskorun:
„Því að sjá, ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast—
En iðrist þeir ekki, verða þeir að þjást, alveg eins og ég.“9
Þótt upprisa líkamans sé endurgjaldslaus og altæk gjöf Krists, eða það sem sigur hans yfir dauðanum hefur í för með sér, verður eðli upprisinna líkama manna (eða sú „dýrðargráða“ sem þeir hljóta), sem og tímasetning upprisu þeirra í líkamanum, háð því hversu trúfastir þeir voru í lífinu. Páll postuli gerði til að mynda ljóst, að þeir sem væru fyllilega trúfastir Kristi munu „fyrst upp rísa“10 í upprisunni. Í nútíma opinberun er gerð grein fyrir mismunandi reglu hinna upprisnu líkama,11 og þar er þeim sem halda sér fast að reglum og helgiathöfnum fagnaðarerindis Jesú Krists heitið æðstu dýrðargráðunni.12
Auðvitað standa hvorki hinar óskilyrðisbundnu, né hinar skilyrðisbundnu blessanir friðþægingarinnar, til boða nema fyrir náð Krists. Hinar óskilyrðisbundnu blessanir friðþægingarinnar eru augljóslega óverðskuldaðar og hinar skilyrðisbundnu eru heldur ekki fyllilega verðskuldaðar. Menn geta, með því að vera trúfastir og halda boðorð Guðs, hlotið aukin forréttindi, en þeim er samt veitt að vild, án þess að hafa í raun verðskuldað það. Í Mormónsbók er lögð áhersla á það að „ekkert hold [geti] dvalið í návist Guðs nema fyrir verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar.“13
Fyrir þessa sömu náð sér Guð litlum börnum fyrir sáluhjálp, þeim sem eru hugarfarslega heftir, þeim sem lifað hafa án þess að þekkja fagnaðarerindi Jesú Krists o.s.frv. Slíkir verða endurleystir fyrir hinn altæka mátt friðþægingar Krists og mun gefast kostur á að taka á móti fyllingu fagnaðarerindisins eftir dauðann, í andaheiminum, þar sem andar mannanna dvelja og bíða upprisunnar.14
Þjáningar og sigur
Þegar hinn syndlausi Kristur hóf að takast á við friðþæginguna, fór hann í Getsemane, líkt og öldungur Whitney sá í draumi sínum, og þoldi þar sálarangist sem aðeins hann megnaði að bera. Þar „setti að honum ógn og angist,“ og hann sagði við Pétur, Jakob og Jóhannes: „Sál mín er hrygg allt til dauða.“15 Hvers vegna? Vegna þess að hann bar „þjáningar allra manna, já, þjáningar hverrar lifandi veru, bæði karla, kvenna og barna, sem tilheyra fjölskyldu Adams.“16 Hann leið „freistingar, líkamlegan sársauka, hungur, þorsta og þreytu, meir en maðurinn fær þolað, nema fjörtjón hljótist af. Því að sjá. Blóð [draup] úr hverri svitaholu, svo mikil [var] angist hans.“17
Með þessum þjáningum endurleysti Jesús sálir allra karla, kvenna og barna, „svo að hjarta hans [fylltist] miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann [mætti] vita í holdinu, hvernig fólki hans [yrði] best liðsinnt í vanmætti þess.“18 Með því að gera það „sté [Kristur] neðar öllu“—þar á meðal sjúkdómum, hrumleika og sérhverri djúpri örvæntingu sem menn fá upplifað, svo hann gæti „[skynjað] … alla hluti, svo að hann gæti í öllu og með öllu verið ljós sannleikans.“19
Algjör einmanaleikinn og óbærilegur sársauki friðþægingarinnar hófst í Getsemane og náði hátindi, eftir hina ólýsanlegu misþyrmingu rómversku hermannanna og annarra, er Kristur hrópaði á krossinum: „Elí, Elí, lama sabaktaní! Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“20 Svo mikil var angistin að jafnvel jörðin hristist. „Og … myrkur varð um allt land … því sólin missti birtu sinnar.“21 „Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu.“22 Og margir sögðu: „Guð náttúrunnar þjáist.“23 Loks lauk því sem vart virtist gerlegt, og Jesús sagði: „Það er fullkomnað.“24 „Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!“25 Einhvern tíma, einhvers staðar, mun tunga sérhvers manns játa, líkt og rómverski hundraðshöfðinginn gerði sem varð vitni að þessu öllu: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“26
Hinum eftirtektarsömu karli og konu „er það undrunarefni“27 að slík sjálfviljug miskunnarfórn, einnar veru, megni að uppfylla kröfur óendanlegrar og eilífrar réttvísi og friðþægja fyrir sérhverja synd og misgjörð manna, og þannig færa allt mannkyn í umlykjandi arma miskunnar hans. En þannig var það.
Ég vitna í John Taylor forseta (1808–87): „Á þann hátt sem við hvorki fáum skilið, né skýrt, bar hann syndir alls heimsins; ekki aðeins Adams, heldur einnig niðja hans; og með því að gera það, lauk hann upp himnaríki, ekki aðeins fyrir alla trúaða og alla þá sem hlýða lögmáli Guðs, heldur fyrir alla þá sem deyja áður en þeir komast til þroska og einnig þá sem … deyja án lögmáls.“28
Megi okkur líða líkt og öldungi Whitney gagnvart þessari háverðugu gjöf og gjafara hennar: „Ég var svo hrærður yfir þessari [gjöf] að ég grét, af hreinni samúð. Hjarta mitt var altekið. Ég unni honum af allri sálu minni og þráði að vera hjá honum, heitar en nokkuð annað.“ Þar sem Kristur hefur þegar gert friðþægingu sína að veruleika fyrir okkur, hefur hann lokið sínum hluta. Það sem á vantar er algjörlega undir okkur komið.