BOÐSKAPUR ÆÐSTA FORSÆTISRÁÐSINS
Við vitnum um Jesú Krist
Fyrir rúmum 2000 árum fæddist lausnari mannkyns í Betlehem Júdeu. Sem hvítvoðungur var hann færður til musterisins í Jerúsalem. Þar heyrðu María og Jósef hinn undursamlega spádóm Símeons og Önnu um að fyrir þessu agnarsmáa barni ætti að liggja að verða frelsari heimsins.
Hann varði æskuárum sínum að mestu í Nasaret við Galíleuvatn og 12 ára að aldri var hann færður að nýju til musterisins. María og Jósef komu að honum í umræðum við lærifeðurna og „þeir hlustuðu á hann og spurðu hann spurninga“ (sjá Þýðingu Josephs Smith, Lúk 2:46).
Jesús óx til manndóms og „þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum“ (Lúk 2:52). Hann var skírður af Jóhannesi í ánni Jórdan til að „fullnægja öllu réttlæti“ (Matt 3:15). Hann fastaði í 40 daga og nætur og stóðst freistingar Satans, áður en hann hóf þjónustu sína meðal almennings. Hann fór síðan um og kenndi, læknaði og blessaði.
Hinn mikli Jehóva
Jesús sýndi með öllum sínum verkum að hann var hinn mikli Jehóva Gamla testamentisins, sem yfirgaf konungstign föður síns í upphæðum og lét svo lítið að koma til jarðar sem barn er fæðast skyldi við lítilmótlegustu aðstæður. Jesaja greindi frá fæðingu hans öldum áður og spáði: „Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi“ (Jes 9:6).
Þessi Jesús Kristur, sem við vitnum hátíðlega um, er eins og opinberarinn Jóhannes lýsti yfir: „Votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar.“ Hann „elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu. Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda“ (Op 1:5–6).
Frelsari heimsins
Hann var og er sonur hina almáttuga. Hann var hinn eini fullkomni maður sem á jörðu hefur lifað. Hann læknaði sjúka og reisti við lamaða, veitti blindum sjón og daufum heyrn. Hann reisti upp dauða. Samt átti fyrir honum að liggja að vera tekinn af lífi til friðþægingarfórnar, svo kröftugri að við fáum ekki skilið umfang hennar.
Lúkas ritar að angist hans hafi verið slík að „sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina“ (Lúk 22:44), líkamleg sönnun sem staðfest er bæði í Mormónsbók og Kenningu og sáttmálum (sjá Mósía 3:7; K&S 19:18). Þjáning hans í Getsemanegarðinum og á krossinum á Hauskúpuhæð, sem var aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá Getsemanegarðinum, var bæði líkamleg og andleg. Hann leið „freistingar … sársauka, hungur, þorsta og þreytu, meir en maðurinn fær þolað,“ að sögn Benjamíns konungs „nema fjörtjón hljótist af“ (Mósía 3:7).
Eftir þjáningar hans í Getsemane var hann tekinn höndum, réttað var yfir honum, hann var sakfelldur, hann leið ólýsanlegar kvalir á krossinum allt til dauða, og í kjölfar þessa fylgdi útför hans í grafhýsi Jósefs og hin glæsta framkoma hans í upprisunni. Hann, hið ljúfa barn í Betlehem, sem fyrir tvö þúsund árum gekk um rykug stræti Landsins helga, varð Drottinn almáttugur, konungur konunganna, sá er öllum veitir sáluhjálp. Enginn fær að fullu skilið stórbrotið líf hans, mikilfengleika dauða hans, yfirgripsmikla gjöf hans til mannkyns. Við tökum einróma undir með hundraðshöfðingjanum sem sagði við dauða hans: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs“ (Mark 15:39).
Lifandi Drottinn okkar
Þetta er vitnisburður gamla heimsins í hinni helgu Biblíu. En annar vitnisburður er til, frá nýja heiminum, Mormónsbók, en þar kynnir faðirinn upprisinn son sinn með orðunum: „Sjá minn elskaða son, sem ég hef velþóknun á. Í honum hef ég gjört nafn mitt dýrðlegt“ (3 Ne 11:7). Þessi guðlega kynning er upphafið að frásögninni um þjónustu frelsarans meðal annarra sauða sinna (Jóh 10:16), eftir uppstigningu hans í Jerúsalem. Boðskapur allrar Mormónsbókar er um guðleika Jesú Krists og þær eilífu blessanir sem allir synir og allar dætur Guðs geta hlotið fyrir endurleysandi elsku hans. Með orðum eins af spámönnum Mormónsbókar:
„Vér ritum af kappi til að hvetja börn vor og einnig bræður vora til að trúa á Krist og sættast við Guð, því að vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört… .
Vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna“ (2 Ne 25:23, 26).
Ofan á allt þetta bætast þessi orð nútíma spámanna: „Og nú, eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, er þetta vitnisburðurinn, síðastur allra, sem við gefum um hann: Að hann lifir!“ (K&S 76:22). Í Kenningu og sáttmálum ber hann ótvítætt vitni um guðlegt hlutverk sitt: „Ég er Alfa og Ómega, Kristur Drottinn. Já, ég er einmitt hann, upphafið og endirinn, lausnari heimsins“ (K&S 19:1).
Í honum sjáum við ekki aðeins meistara okkar og hinn góða hirði, heldur einnig stórkostlega fyrirmynd, sem býður okkur: „Ef þú vilt vera fullkominn, … [þá] fylg mér“ (Matt 19:21).
Hyrningarsteinninn
Hann er aðalhyrningarsteinn kirkjunnar, hvers nafn hún ber, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ekkert annað nafn er mönnum gefið sem getur frelsað þá (sjá Post 4:12). Hann er höfundur sáluhjálpar okkar, gjafari eilífs lífs (sjá Hebr 5:9). Enginn jafnast á við hann. Enginn hefur gert það og enginn mun gera það. Guði séu þakkir fyrir gjöf hans ástkæra sonar, sem lagði líf sitt í sölurnar svo við mættum lifa og sem er hinn óhagganlegi aðalhyrningarsteinn trúar okkar og þessarar kirkju.
Kjarni trúar okkar
Við þekkjum ekki allt sem fyrir okkur á að liggja. Við lifum í heimi óvissu. Sumir munu fá miklu áorkað. Aðrir munu upplifa vonbrigði. Sumir munu fagna og öðlast mikla gleði, búa að góðri heilsu og eiga yndislegt líf. Aðrir munu hugsanlega upplifa sorgir og sjúkdóma. Við vitum það ekki. En eitt vitum við þó. Frelsari heimsins er óbrigðull og áreiðanlegur, hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér, líkt og Pólstjarnan í himingeimnum, sonur Guðs, líkt og akkeri okkar ódauðlegu sálar. Hann er bjarg sáluhjálpar okkar, styrkur okkar, huggun okkar, kjarni trúar okkar.
Í skini og skúr lítum við til hans og hann er þar til að hughreysta okkur og brosa við okkur.
Hann er þungamiðja tilbeiðslu okkar. Hann er sonur hins lifanda Guðs, hinn frumgetni föðurins, hinn eingetni í holdinu. Hann er „upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru“ (1 Kor 15:20). Hann er Drottinn sem koma mun að nýju „til að ríkja á jörðunni yfir fólki sínu“ (K&S 76:63; sjá einnig Míka 4:7; Op 11:15).
Enginn svo stórkostlegur hefur gengið um á jörðinni. Enginn annar hefur fært sambærilega fórn eða veitt sambærilega blessun. Hann er frelsari og lausnari heimsins. Ég trúi á hann. Ég lýsi skýrt og skorinort yfir guðleika hans. Ég ann honum. Ég mæli nafn Jesú Krists af lotningu og í undrun. Hann er konungur okkar, Drottinn okkar, meistari okkar, hinn lifandi Kristur sem er við hægri hönd föðurins. Hann lifir! Hann lifir! Lifandi sonur lifanda Guðs er dýrðlegur og undursamlegur.