2008
„Ég er vegurinn‘
Mars 2008


„Ég er vegurinn“

Frelsarinn kenndi mikilvæga lexíu þegar hann sagði: „Ég er …“

Stundum þegar við lesum ritningarnar hljótum við minnisstæða reynslu þegar skilningur okkar lýkst skyndilega upp. Hafið þið til að mynda áttað ykkur á hversu oft Jesús segir orðin „ég er“ í Jóhannesarguðspjalli. Þegar Jesús sagði þetta, var hann yfirleitt að setja fram samlíkingu til að kenna fólki hver hann væri og hvað hann gerði fyrir það. Lítum nánar á sumar þessara samlíkinga og þið komist að heilmiklu um frelsarann.

Brauð lífsins

„Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir… . Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu“ (Jóh 6:35, 51).

Páskahátíðin er til minningar um frelsun Ísraelsmanna frá Egyptum og var þá venja að neyta ósýrðra bauða. Þegar dró að hátíðarhöldum þessum, gerði Jesús kraftaverk með því að fæða fimm þúsundirnar. Margir sem urðu vitni að þessu kraftaverki fylgdu honum, því hann hafði gefið þeim að borða, og því kenndi hann þeim að leita þeirrar fæðu „sem varir til eilífs lífs“ (Jóh 6:27). Hann sagði þeim síðan frá manna og minnti þá á, að það hefði komið frá himnum til að fæða Ísraelsmenn í eyðimörkinni. Hann sagði: „Ég er brauð lífsins,“ og hann sagði þeim frá hinni andlegu næringu sem himneskur faðir hefði sent með honum, sem og fyrirheitinu um eilíft líf sem hann færði þeim.

Síðar á páskahátíð notaði Jesús brauð til tákns um líkama sinn og hluta af sakramentinu. Þegar við meðtökum brauðið í viku hverri í sakramentinu, erum við minnt á Jesú Krist—fórn hans, upprisu og loforðið um stöðuga andlega næringu fyrir samfélag heilags anda.

Ljós heimsins

„Ég er ljós og líf heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins“ (Jóh 8:12).

Jesús sagðist vera ljós heimsins þegar laufskálahátíðin stóð yfir. Á hverri nóttu yfir þessa hátið voru ljós musterisins tendruð til tákns um ljós Guðs, sem sent er út um heiminn. Jóhannes sagði Jesú vera „hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, [sem kemur] í heiminn“ (Jóh 1:9). Og með spámanninum Joseph Smith opinberaði Drottinn að ljós Krists væri „frá honum, sem lýsir upp augu yðar, það sama ljós, sem lífgar skilning yðar“ og sem „gefur öllu líf, [og] er lögmálið, er öllu stjórnar“ (K&S 88:11, 13).

Hugur okkar og andi er upplýstur fyrir tilverknað Jesú Krists. Ljós hans lýsir leið okkar, gerir okkur kleift að greina milli góðs og ills og vísar okkur leiðina til eilífs lífs.

Hinn sanni vínviður

„Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört“(Jóh 15:5).

Jesús líkti sér við stofn vínviðartrés. Stofninn heldur ekki aðeins trénu rótföstu, heldur ber hann einnig næringu til allra greinanna, sem bera svo ávöxt. Jesús Kristur er akkeri vonar okkar og hin andlega uppspretta næringar og vaxtar. Með honum hljótum við nauðsynlegan styrk til að vera réttlát og láta gott af okkur leiða. Hann er einnig undirstaða kirkjunnar og frá honum hefur hún valdsumboð til að prédika fagnaðarerindið og festa rætur um allan heim.

Góði hirðirinn

„Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig“ (Jóh 10:14).

Hirðir ber þá megin ábyrgð að sjá sauðum sínum fyrir vatni og næringu og halda þeim öruggum í hjörðinni. Hirðir ver einnig sauðina gegn hvers kyns hættum, svo sem villidýrum og þjófum. Hann þekkir hjörð sína og veit þegar einhvern sauðinn vantar og fer þá til að leita hans. Sauðir hans eru undirgefnir honum og bera fullt traust til hans.

Jesús, góði hirðirinn, kallar á okkur þegar við villumst frá, og ef við lærum að hlýða raust hans, mun hann leiða okkur á örugga beitihaga sáluhjálpar og eilífs lífs og vernda okkur gegn hættum dauða og syndar.

„Ég er“

„Jesús sagði við þá: Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég“ (Jóh 8:58).

Jesús sagði í raun allt þegar hann einfaldlega sagði „ég er.“ Með því sagði hann að hann væri skapari heimsins og Jehóva, Guð Gamla testamentisins, og nafn hans merkir í raun „ég er“ (sjá 2 Mós 3:14).

Jesús er sonur Guðs, Messías og frelsari okkar, sem frelsar okkur frá synd og dauða. Við getum hlotið eilíft líf, vegna þess sem hann er og gerði fyrir okkur, og orðið það sem hann ætlar okkur að verða.

Prenta