2008
Ég veit að lausnari minn lifir
Mars 2008


Ég veit að lausnari minn lifir

Þegar ég hóf nám í Brigham Young háskóla í Idaho (þá framhaldsskólinn Ricks College), saknaði ég fjölskyldu minnar. En eftir nokkra mánuði tók ég að venjast skólalífinu og njóta lífsins. Þegar símtalið barst mér, var ég í íbúð minni að sinna heimanáminu.

„Christy, ég hef slæmar fréttir að færa þér,“ sagði móðir mín brostinni röddu. „Pabbi þinn fékk hjartaslag í nótt og lést.“

Geðshræringin fyllti mig um leið og ég reyndi að átta mig á orðum hennar. Ég hafði séð föður minn fyrir aðeins fáeinum dögum og ekki grunað að það væri í síðasta skiptið sem ég sæi hann. Lát pabba var allri fjölskyldunni mikið áfall og einnig heimadeild minni. Faðir minn var aðeins 53 ára gamall og þjónaði sem biskup okkar.

Stöðugar heimsóknir og símhringingar fjölskyldu, vina, deildarmeðlima og nágranna fylgdu í kjölfarið næstu daga. Okkur var sýnd mikil umhyggja og elska allra umverfis okkur. Við útför föður míns miðluðu fjölskylda og ættmenni minningarbrotum um hann og við bárum vitni um sáluhjálparáætlunina og lífið eftir dauðann.

Faðir minn hafði verið tryggur eiginmaður, trúfastur Síðari daga heilagur, áhugasamur skáti og dásamlegur faðir. Margir höfðu verið blessaðir vegna þess sem hann gerði. Eftir útförina helgaði elsti bróðir minn gröfina og við fjölskyldan stóðum saman og sungum snöktandi sálminn „Guðs barnið eitt ég er“ (Sálmar, nr. 112).

Daginn eftir útförina fór ég aftur í skólann. Ég hlakkaði ekki til þess að fara þangað aftur, en vissi að ég yrði að halda áfram að takast á við lífið og ábyrgð þess. Sumir dagar voru auðveldari en aðrir. Ég eyddi miklum tíma í að hugsa um föður minn og ég reiddi mig á að vitneskja mín um sáluhjálparáætlunina og trú mín á Jesú Krist myndi hjálpa mér að takast á við erfiðleika og spurningar.

Um tveimur vikum eftir að faðir minn lést, fór ég með dagbókina mína í kapellu háskólasvæðisins til að skrifa um líðan mína og það sem gerst hafði í kringum lát föður míns. Þegar ég byrjaði að skrifa fann ég svo sterkt fyrir andanum að ég varð gangtekin fullvissu um að himneskur faðir elskaði mig, að hann hafði sérstaka áætlun fyrir mig og að ég yrði aldrei skilin eftir einsömul. Þegar ég lauk við skriftirnar, barst hljómur úr hátölurum nálægrar námsmannastöðvar, þar sem spilaður var sálmurinn „Ég veit minn lifir lausnarinn“ (Sálmar, nr. 36). Texti sálmsins kom þegar upp í huga minn:

Ég veit minn lifir lausnarinn,

hve ljúft það gleður huga minn.

Hann dó, en lifir líf hans er

sú leiðsögn æðst sem veitist mér… .

Hann lifir og mín læknar sár,

hann lifir og mín þerrar tár.

Mitt sefar hjarta ef sorgmætt er,

og sýna blessun veitir mér.

Ég veit að lausnari minn lifir og elskar mig. Ég veit að faðir minn og allir okkar ástvinir, sem látist hafa á undan okkur, munu lifa aftur, vegna þess að frelsarinn reis upp frá dauðum. Hve hughreystandi það er að eiga vitneskju um þennan sannleika.

Prenta