Virkni friðþægingarinnar
Mér var ljóst að Drottinn hafði áætlun fyrir son minn, en þegar ég sá hvert hann stefndi óskaði ég þess að hann hefði ekki gert það, því ég var óviss um hvernig hann kæmist til baka.
Ég gekk til liðs við Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu árið 1992 í Hollandi. Eiginmaður minn gekk þó ekki í kirkjuna og vildi ekki leyfa að börnin okkar, Alex og Petra, skírðust (nöfnum er breytt). Við þrjú fórum samt í kirkju og höfðum fjölskyldukvöld reglulega.
Allt gekk vel þar til Alex varð 13 ára og sagðist ekki lengur hafa áhuga á að fara í kirkju eða taka þátt í fjölskyldukvöldum. Þegar hann varð eldri versnaði ástandið. Mér reyndist erfitt að vera náin Alex, því hann tók að neyta áfengis og tóbaks og segja ósatt um hvað hann hafði fyrir stafni. Ég varð niðurbrotin, grét oft og baðst oft fyrir og sárbændi himneskan föður um að koma syni mínum til hjálpar.
Síðan gerðist það dag einn, er ég sat hljóð í musterinu, að ég sá mynd í huga mér. Hún var af ungum manni að útdeila sakramentinu. Svo virtist sem Drottinn væri að minna mig á mátt og raunveruleika friðþægingarinnar, hvetja mig til að elska son minn og standa við bak hans.
Þegar fram liðu stundir varð lífið þó erfiðara. Eftir að við hjónin skildum, varð Alex afar þunglyndur. Mér var ljóst að hann þurfti hjálp, en hann vildi hvorki þiggja hjálp mína, né hlusta þegar ég reyndi að ná til hans.
Kvöld eitt spurði greinarforsetinn hvort hann mætti koma og ræða við Alex. Alex varð ergilegur en samþykkti að taka á móti honum. Eftir samtalið við hann varð Alex reiður út í greinarforsetann, því hann hafði hvatt hann til að fara í trúboð, og hann sagði: „Ef greinarforsetinn væri í raun fulltrúi Guðs, hefði hann vitað betur. Hann hefði vitað að ég er ekki verðugur trúboðs—og því þá að hafa fyrir þessu?“ Þetta kvöld varð mér ljóst að Drottinn ætlaði honum eitthvað.
Það kom óvænt í ljós þegar ég fékk símtal frá umdæmislögreglunni. Alex hafði verið færður á lögreglustöðina. Ég og nýi eiginmaðurinn minn fórum í yfirhafnir um hánótt og náðum í Alex á lögreglustöðina. Við gerðum ekki mikið veður út af þessu og í raun vorum við, ég og stjúpfaðir Alex, heldur fámál.
Þegar við komum heim sagði Alex okkur frá því sem gerst hafði þegar hann og vinur hans stálu hlaupahjóli. Honum þótti afar leitt að hafa gert það. Nú fyrst sá ég niðurbrotinn ungan mann.
Þessi atburður varð til þess að Alex sneri við blaðinu. Honum varð ljóst hvaða afleiðingar breytni hans höfðu og hvert hann stefndi. Upp frá þessu tóku margar blessanir að streyma til okkar.
Daginn eftir sagði Alex okkur frá því að hann hefði beðið lögregluþjóninn að hringja í okkur, því hann vissi að við elskuðum hann. Honum hefði einnig verið ljóst hve mikið hann hefði sært okkur og þakkaði okkur fyrir að hafa sýnt sér þolinmæði.
Alex átti nokkra vini í kirkjunni sem gerðu sitt til að hjálpa honum. Einn þeirra bauð honum með sér í félagsstarf kirkjunnar. Annar gaf honum Mormónsbók og hvatti hann til að lesa hana. Og þrátt fyrir að Alex þjáðist af lesblindu, sá ég hann lesa hana endrum og eins.
Næsta blessunin—og ég hef nú varla tölu á þeim—var þegar Alex spurði hvort við gætum keypt jakkföt handa sér, þar sem hann hefði ákveðið að fara í kirkju. Ég hélt að hann hefði aðeins ætlað að vera í þeim á jólunum, en mér til mikillar undrunar hélt hann áfram að sækja kirkju eftir hátíðarnar.
Sú blessun sem kom þar á eftir var næstum yfirþyrmandi. Alex tilkynnti að hann hyggðist láta skírast. Hann þurfti enga hjálp frá mér og sá um allt sjálfur með aðstoð vina sinna og trúboðanna sem kenndu honum. Ég trúði vart eigin augum þegar skírnardagur hans rann upp og ég sá son minn íklæddan hvítu við sáttmálsgjörð.
Þegar hann síðar sagði frá trúarreynslu sinni, varð mér ljóst að sársaukinn og sorgin höfðu reynst Alex erfið, en einnig stuðlað að auðmýkt hans, að krjúpa og biðja um hjálp. Alex sagði: „Nótt eina, er byrði mín var að sliga mig, minntist ég orða góðs vinar, sem hafði sagt að ég gæti alltaf beðist fyrir og leitað hjálpar. Ég ákvað að láta á það reyna þarna um nóttina. Engar aðrar dyr stóðu mér opnar og úr því móðir mín hafði kennt mér að biðjast fyrir, kraup ég og lauk aftur augum. Þegar ég tók að biðja um hjálp fylltist ég yndislegri tilfinningu. Ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu. Ég skynjaði hina hreinu ást Krists. Mér fannst sem byrði minni væri létt af mér. Örvæntingin sem hrjáði mig er horfin og ég hef verið blessaður með vitnisburði um Jesú Krist. Ég breyttist í hjarta og þráði að fylgja Jesú Kristi.“
Eftir að Alex hafði verið skírður, staðfestur og vígður prestdæminu, var hann beðinn að útdeila sakramentinu—hinum helgu táknum fórnar frelsarans. Þá varð mér ljós raunveruleiki þess sem ég hafði séð í musterinu mörgum árum áður. Ég þakkaði himneskum föður í hljóði fyrir það sem ég hafði upplifað. Það var mér helg stund.
Þetta væru góð sögulok, en sem betur fer lýkur henni ekki hér. Ég hef fylgst með því hvernig friðþægingin hefur haft áhrif á líf sonar míns. Minnist hins innblásna greinarforseta. Vitnisburður sonar míns hefur haldið áfram að styrkjast og boð greinarforseta okkar varð að raunveruleika. Alex lauk nýverið trúboði sínu. Hann eyddi tveimur árum við að hjálpa öðrum—líkt og Drottinn hafði hjálpað honum.
Ég er þakklát fyrir að vera móðir Alex, en ég er jafnvel enn þakklátari fyrir friðþægingu Jesú Krists og áhrifamátt hennar í lífi okkar allra.