2008
Trú Emilios
Mars 2008


Trú Emilios

Djákni sýndi mér—biskupnum—hvað í því felst „að hafa trú til að læknast.“

Fyrir nokkrum mánuðum, varð Emilio, einn af djáknunum okkar, skyndilega veikur. Læknunum tókst ekki að sjúkdómsgreina hann. Bæði hann og móðir hans urðu óttaslegin, því honum hrakaði jafnt og stöðugt. Móðir hann fór með hann á sjúkrahúsið nokkrum sinnum, en fékk engin svör.

Móðir Emilios fór með hann í samkomuhúsið til að biðja um prestdæmisblessun fyrir hann. Einn bræðranna í öldungasveitinni og ég, biskup hans, nutum þeirra forréttinda að veita honum blessun og loks tók hann að sofa vel á næturnar.

Nokkrum dögum síðar frétti ég þó að Emilio hefði hrakað að nýju og því farið aftur á sjúkrahúsið. Ég og annar bróðir fórum á sjúkrahúsið og fengum að fara inn á stofuna til hans. Ég taldi fyrir fram að líklega yrði Emilio niðurdreginn yfir að hafa hrakað aftur og gladdist því yfir því sem næst gerðist.

Við ræddum um Jesú Krist og útskýrðum að frelsarinn hefði máttinn til að bæta allt samkvæmt eigin vilja. Það sem Emilio sagði næst, snerti okkur mjög: „Biskup, þetta er eins og hver önnur prófraun. Ég trúi að þetta líði brátt hjá, því ég trúi á Jesú Krist.“ Við lögðum hendur á höfuð hans og veittum honum aftur blessun.

Eftir þessa nótt náði Emilio ótrúlegum og algjörum bata. Hann hafði styrk til að takast á við dagleg verkefni og fara í kirkju án erfiðleika.

Emilio sýndi nægilega trú á frelsarann til þess að hann gæti gert sams konar kraftaverk á honum og hann gerði þegar hann var á jörðinni. Mér finnst Emilio gott dæmi um þá sem Drottinn sagði um: „Sumum er gefin trú til að læknast“ (K&S 46:19).

Það er dásamlegt að njóta þeirra forréttinda að nota prestdæmið í lífi okkar og eiga vitneskju um að við eigum himneskan föður sem elskar okkur, og að við getum fyrir trú á son hans upplifað kraftaverk á þessum síðari tímum.

Prenta