2008
Trú á Jesú Krist
Mars 2008


Trú á Jesú Krist

Ljósmynd
Elder Russell M. Nelson

Hinn langi vegur sem það tók mig að verða læknir var aðeins byrjunin. Að honum loknum tók við margra ára starf á sjúkrahúsi, rannsóknarvinna, sérgreinarnám og staðfestingarpróf. Í kjölfarið fylgdi síðan margra ára kennsla, aðstoðarstarf og áskoranir hins nýlega kannaða sviðs hjartaaðgerða, sem allt varð til þess að auka lotningu mína fyrir uppbyggingu og starfsemi mannslíkamans. Ég var þess fullviss að sköpun hans væri af guðlegum toga.

Hinn undraverði mannslíkami

Hugsið ykkur hvernig mannslíkaminn verður til. Sköpun hans hefst á tveimur tímgunarfrumum—einni frá móðurinni og hinni frá föðurnum. Saman búa þessar frumur yfir öllum upplýsingum um það hvernig hinn nýi einstaklingur á að verða, varðveittar í svo litlu rými að ekki verður greint með berum augum. Ein ný fruma verður til af tuttugu og þremur litningum hvors foreldris. Þúsundir erfðavísa mynda þessa litninga, sem ákvarða líkamlegt atgerfi hins ófædda einstaklings. Um það bil tuttugu og tveimur dögum eftir sameiningu þessara fruma, tekur örlítið hjarta að myndast. Á tuttugusta og sjötta degi tekur blóðrás að myndast. Frumur fjölga sér með skiptingu. Sumar mynda augu sem sjá, aðrar mynda eyru sem heyra eða fingur sem snert geta allt hið undursamlega umhverfis okkur.

Hvert líffæri er undraverð sköpun. Augað býr yfir sjálfstýrðri fjarlægðarlinsu. Taugar og vöðvar gera það að verkum að augun tvö geta dregið upp þrívíddarmyndir. Eyrun breyta hljóðbylgjum í hljóma sem heilinn skynjar og les úr.

Í hjartanu eru fjórar fínlegar lokur sem stjórna blóðflæðinu. Þær opnast og lokast yfir eitthundrað þúsund sinnum á hverjum degi—og þrjátíu og sex milljón sinnum á hverju ári. Þær geta haldið áfram um ómældan tíma að starfa þannig, ef sjúkdómur aftrar þeim þess ekki. Ekkert efni sem menn hafa búið til stenst slíkt álag um svo langan tíma án þess að bresta. Dag hvern dælir hjarta fullvaxins manns svo miklu blóði að það gæti fyllt 7.570 lítra tank. Efst á hjartanu myndast rafstraumur sem fluttur er eftir sérstökum leiðslum til að samhæfa hreyfingar aragrúa smárra vöðva.

Hugsið ykkur hvernig varakerfi líkamans virkar. Hver líffærasamstæða tekur við virkni hinnar, ef hún bregst af einhverjum ástæðum. Blóði er veitt til einstæðra líffæra, til að mynda heila, hjarta og lifur, eftir tveimur leiðum. Það er til að verja líffærið, ef blóðflæði stöðvast eftir annarri leiðinni af einhverjum ástæðum.

Hugsið ykkur hvernig varnarkerfi líkamans virkar. Líkaminn er varinn gegn skaða með sársaukaskynjun. Hann framleiðir mótefni til að verjast sýkingu. Það ræðst ekki aðeins þegar í stað gegn vandanum, heldur eflir það líka varnarkerfið gegn frekari sýkingu í framtíðinni.

Hugsið ykkur hvernig líkaminn læknar sig sjálfan. Brotin bein gróa saman og verða aftur heil. Hörundssár gróa og læknast. Æðar lokast sem hafa rofnað. Líkaminn endurnýjar ónothæfar frumur.

Líkaminn stillir sína eigin nauðsynlegu virkni. Stöðugt er verið að stilla og aðlaga hina nauðsynlegu innri þætti líkamans. Og þrátt fyrir miklar hitabreytingar í umhverfinu, er hitastig líkamans vandlega stillt innan þröngra marka.

Í gegnum áranna reynslu hef ég komist að því að lækning á sér aðeins stað þegar öllum lögmálum er hlítt sem þeirri blessun eru bundin.1 Samsetning og virkni líkamans eru háð lögmálum. Ritningargrein staðfestir það: „Og hverju ríki er gefið lögmál og hverju lögmáli fylgja ákveðin takmörk og einnig skilyrði.“2

Vísindamenn í mörgum geirum verða varir við álíka birtingu lögmála og reglna, og þar má nefna hin fyrirséðu sjávarföll, feril tunglsins eða staðsetningu stjarnanna í himingeimnum. Öll slík sköpun er háð lögmáli og reglu. Lögmál þessi er hægt að skilja og skilgreina. Mögulegt er að mæla afleiðingar þeirra. Slík regla ber vitni um máttugan skapara.3

Trú er aftur á móti ekki mælanleg. En samhengið á milli trúar á Guð og lögmáls og reglu alheimsins er opinberað í ritningunum:

„[Guð] hefur gefið öllu lögmál, sem stjórnar hreyfingu þess á sínum tíma og sínu skeiði—

Og brautir þeirra eru ákveðnar, já, brautir himna og jarðar, sem umlykja jörðina og allar reikistjörnurnar.

Sjá, allt eru þetta ríki, og sérhver maður, sem hefur séð eitthvert þeirra eða hið minnsta þeirra, hefur séð Guð hreyfa sig í hátign sinni og veldi.“4

Guðleiki sköpunarinnar

Ritningarnar greina frá því að himinninn, jörðin og allt sem á henni er, hafi verið guðlega skapað.5 Ritningarnar gera okkur einnig kleift að vita meira um samvinnu Guðs og sonar hans Jesú Krists við sköpunina. Í fyrsta texta Biblíunnar segir: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð,“6 og „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, … hann skapaði þau karl og konu.“7 Í bók Abrahams segir: „Og guðirnir fóru niður til að skipuleggja mann í sinni eigin mynd, í mynd guðanna mótuðu þeir hann, karl og konu mótuðu þeir þau.“8

Ritningarnar greina okkur frá tilfinningum himnesks föður til síns ástkæra sonar og sérhvers manns: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“9

Bók Jóhannesar hefst á þessari yfirlýsingu:

„Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.

Hann var í upphafi hjá Guði.

Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.“10

Þetta ritningarvers merkir að Orð11 Guðs sé Jesús Kristur—persónulegur erindreki Guðs í yfirstjórn þessa alheims og skapari alls lífs.

Sú staðreynd var staðfest Móse af föður okkar á himnum, er hann sagði:

„Og ég hef skapað það með orði krafts míns, sem er minn eingetni sonur, fullur náðar og sannleika.

Ótal heima hef ég skapað og ég skapaði þá einnig í eigin tilgangi, og ég skapaði þá með syninum, sem er minn eingetni.“12

Mörg önnur ritningarvers staðfesta að Jesús Kristur sé skaparinn, undir forsjá föðurins.13 Eitt það áhrifamesta er hans eiginn vitnisburður: „Sjá! Ég er Jesús Kristur, sonur Guðs. Ég skapaði himnana og jörðina og allt, sem í þeim er. Ég var með föðurnum frá upphafi.“14

Máttug trú á Jesú Krist

Það krefst máttugrar trúar að samþykkja þá hugmynd. Trú er grundvöllur persónulegs vitnisburðar. Fyrsta regla fagnaðarerindisins er trú á Drottin Jesú Krists.15 Páll sagði: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“16 Hann sagði einnig: „Megi [Kristur] fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika. Þá fáið þér … skilið, … [kærleika] Krists.“17 Páll sárbað: „Verum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs.“18

Í Mormónsbók segir: „Vér erum lifandi gjörð í Kristi trúar vorrar vegna… . Og vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“19

Þær blessanir sem spretta af trú á hann eru einnig opinberaðar í Mormónsbók. Í henni lesum við: „Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.“20 En sú gjöf er „mest allra gjafa Guðs.“21

Máttug trú á Drottin leiðir til algjörrar trúarumbreytingar og fullkominnar skuldbindingar við hans heilaga verk. Við verðum börn sáttmálans; við verðum börn hans. Ritningarnar staðfesta: „Vegna sáttmálans, sem þér hafið gjört, skuluð þér nefnast börn Krists, synir hans og dætur hans. Því að sjá. Á þessum degi hefur hann getið yður andlega, því að þér segið, að hjörtu yðar hafi breyst fyrir trú á nafn hans. Þess vegna eruð þér af honum fædd og eruð orðin synir hans og dætur hans.“22

Máttug trú á Drottin leiðir til trúarumbreytingar, gjörbreytingar hjartans,23 hugarfarsbreytingar, frá því sem heimsins er til þess sem Guðdómsins er. Hún knýr menn til að iðrast af „hjartans einlægni.“24 Og Alma bætti við: „Boðaðu henni iðrun og trú á Drottin Jesú Krist. Kenndu henni að vera auðmjúk og hógvær og af hjarta lítillát. Kenndu henni að standast allar freistingar djöfulsins, með trú sinni á Drottin Jesú Krist.“25

Mormónsbók er meðal annars ætlað að sannfæra Gyðingana og Þjóðirnar um að Jesús er Kristur, hinn eilífi Guð.26 Þeir sem lesa Mormónsbók og spyrja í trú hvort bókin sé sönn, munu hljóta vitnisburð um sannleika hennar. Þeir mun einnig „fá að vita … að Jesús Kristur er frelsari heimsins, að Joseph Smith er opinberari hans og spámaður á þessum síðustu dögum.“27

Trú á Jesú Krist: Nauðsynleg til sáluhjálpar og upphafningar

Trú á Jesú Krist færir okkur ekki aðeins blessanir í þessu lífi, heldur er hún nauðsynleg fyrir eilífa sáluhjálp okkar og upphafningu. Ritningarnar segja: „Allir menn verða að iðrast og trúa á nafn Jesú Krists og tilbiðja föðurinn í hans nafni og standa stöðugir í trú á nafn hans allt til enda, ella geta þeir eigi frelsast í Guðs ríki.“28 Drottinn gerir foreldra ábyrga fyrir að kenna börnum sínum „trú á Krist, son hins lifanda Guðs.“29

Ég ber vitni um að Jesús er Kristur, sonur lifandi Guðs. Hann er skapari okkar, frelsari og lausnari,30 málsvari hjá föðurnum,31 bjarg okkar,32 og Jehóva Gamla testamentisins.33 Hann er hinn fyrirheitni Immanúel,34 hinn smurði Messías,35 og okkar mikla eftirdæmi.36 Dag einn mun hann koma að nýju og ríkja og ráða sem konungur konunga og Drottinn drottna.37 Við munum að lokum standa frammi fyrir honum á dómsdegi.38 Ég bið þess að trú okkar allra á hann verði ásættanleg.

Heimildir

  1. Kenning þessi var staðfest af Drottni er hann sagði: „Þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin“ (K&S 130:21).

  2. K&S 88:38.

  3. Sjá Alma 30:44.

  4. K&S 88:42–43, 47.

  5. Sjá Kól 1:16; HDP Móse 4:2, 9; 5:15; Alma 18:28; 22:10; HDP Móse 3:5.

  6. 1 Mós 1:1.

  7. 1 Mós 1:27.

  8. Abr 4:27.

  9. Jóh 3:16.

  10. Jóh 1:1–3.

  11. Á grísku: Logos (merkir „Orð“) er önnur nafngift Jesú Krists.

  12. Mósía 1:32–33; leturbreyting hér.

  13. Sjá Ef 3:9; Mósía 3:8–11; He 14:12; Morm 9:8–14.

  14. 3 Ne 9:15. Drottinn sagði jafnframt: „Sjá, ég er Jesús Kristur, sonur hins lifanda Guðs, sem skapaði himna og jörð, ljós, sem ekki er unnt að dylja í myrkrinu“ (K&S 14:9).

  15. Sjá Trúaratriðin 1:4.

  16. Hebr 11:1.

  17. Ef 3:17–19.

  18. Ef 4:11–13; sjá einnig Gal 3:26–29.

  19. 2 Ne 25:25–26.

  20. 2 Ne 31:20; sjá einnig Enos 1:8; Mósía 3:12.

  21. K&S 14:7.

  22. Mósía 5:7.

  23. Sjá Alma 5:12–14.

  24. 2 Ne 31:13; sjá einnig Jakob 6:5; Mósía 7:33; 3 Ne 10:6; 12:24; 18:32.

  25. Alma 37:33; sjá einnig Morm 9:37; Moró 7:25–26, 33–34, 38– 39.

  26. Sjá titilsíðu Mormónsbókar.

  27. Formáli Mormónsbókar.

  28. K&S 20:29.

  29. K&S 68:25; sjá einnig HDP Móse 6:57–62.

  30. Sjá Jes 49:26; 60:16; 1 Ne 21:26; 2 Ne 6:18.

  31. Sjá K&S 29:5; 110:4.

  32. Sjá 2 Sam 22:2; K&S 138:23.

  33. Sjá K&S 110:3.

  34. Sjá Jes 7:14.

  35. Sjá 2 Ne 25:14–19.

  36. Sjá Jóh 13:15; 3 Ne 27:21.

  37. Sjá Op 17:14; 19:16.

  38. Sjá Op 20:12; 1 Ne 15:33; 2 Ne 9:22, 44; 28:23; Alma 5:15; 3 Ne 27:14; Morm 3:20; 9:8–14.

Prenta