GJÖRBREYTING HJARTANS
Að loknum hjúkrunarskólanum hóf ég störf við annasama barnadeild á sjúkrahúsi. Ég hafði löngun til að læra, afla mér reynslu og sanna mig fyrir sjálfri mér. Ég gat þó ekki ímyndað mér að starfið yrði jafn erfitt og raunin varð—bæði líkamlega og tilfinningalega. Ég fékk engan veginn skilið hvers vegna svo mikil mannvonska væri í heiminum, að jafnvel foreldrar gætu valdið barni sínu ómældum skaða. Ég fékk heldur ekki skilið hvers vegna Guð leyfði að börn dæju. Eftir eins mánaðar starf á sjúkrahúsinu, var ég úrvinda.
Ég komst svo að því að meðlimir í fjölskyldu minni voru að hlýða á kennslu túboða Síðari daga heilagra. Vaktirnar mínar voru langar og því átti ég ekki kost á að hlýða á kennslu þeirra. Að því kom að móðir mín og systir skírðust, og mér fannst ég skilin eftir með spurningar og óunnin úrlausnarefni. Þótt fjölskylda mín reyndi að koma því í kring að ég hitti trúboðana, vildi ég ekki ræða við þá. En eitt sinn þegar systir Johnson og systir Marchuk komu í heimsókn, tók ég þátt í umræðum þeirra. Næst þegar þær komu kenndu þær mér andlega lexíu sem veitti mér svör við þeim spurningum sem ég hafði lengi velt fyrir mér. Að því kom að ég var skírð og staðfest.
Ég hef fundið styrk í trú minni á Jesú Krist, frá því að ég varð meðlimur í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég hef aftur og aftur upplifað mátt bænarinnar og mér finnst ég hafa farið úr myrkri í ljós. Sex ár í kirkjunni hafa veitt mér sannfæringu um að Jesús Kristur er frelsari minn. Og vegna Jesú Krists gefst mér nú kostur á að komast nær himneskum föður.