Lofgjörð með sálmasöng
Við getum komist nær frelsara okkar með tónlist.
Ég vildi að ég gæti sungið eins og systir Rakel. Ég vildi að ég gæti leikið á píanó eins og bróðir Ragnar. Hversu oft höfum við heyrt eða hugsað eitthvað álíka? Stundum teljum við tónlistarhæfileika vera sérstaka gjöf sem aðeins aðrir búi yfir, dásamlegan hæfileika sem okkur er mikils virði, en sem við höfum ekki sjálf.
Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru tónlist og söngur fyrir alla. Við getum tilbeðið og fært þakkir með sálmasöng, lært um hið endurreista fagnaðarerindi frelsarans, haft friðþægingu hans í huga og einsett okkur að fylgja honum.
Færa þakkir og tilbiðja
Þegar Ísraelsmenn til forna voru leystir úr ánauð Egypta, „þá [sungu] Móse og Ísraelsmenn Drottni … lofsöng (1 Mós 15:1). Þegar Jaredítarnir fóru yfir hafið, „söng [fólkið] Drottni sínum lof“ (Eter 6:9). Og þegar hinir Síðari daga heilögu hér áður helguðu Kirtland-musterið, sungu þeir nýjan sálm Williams W. Phelp, „Guðs andi nú ljómar og logar sem eldur.“1 Börn Guðs hafa á öllum ráðstöfunartímum fagnaðarerindisins notað söng og tónlist til þess að lofa hann.
Margir sálma okkur nú búa yfir slíkum anda fögnuðar og lofgjörðar. Það sýnir sig til að mynda í öðrum sálmi eftir William W. Phelps:
Nú Ísraels lausnari
von allra vor,
mun verða á jörðunni hér,
og færa oss huggun
og fögnuð og þor.
Hann frelsari og konungur er.2
Við getum einnig sungið sálma til að þakka fyrir sérstakar blessanir, líkt og fram kemur í þessu kunna versi:
Vorn spámann vér þökkum þér, Drottinn,
sem þekkir og leiðir oss hér.
Vér þökkum þér guðspjallið góða,
sem geislandi upplýsing ber.
Vér þökkum þér guðlegar gjafir
og gnægtanna ómuna fjöld,
oss blessun er boð þín að halda
og blíðustu fagnaðargjöld.3
Þegar við syngjum þessa sálma, lifum við eftir boðinu: „Sért þú glaður, skalt þú lofa Drottin með söng, tónlist, … og með lofgjörðarbæn og þakkargjörð“ (K&S 136:28).
Læra fagnaðarerindi hans
Auk þakkargjörðar og lofgjörðarbænar gefa sálmarnir okkur einnig kost á að læra fagnaðarerindi Jesú Krists. Þessi kunni barnasálmur útskýrir til að mynda afar einfaldlega og fagurlega samband okkar við föður okkar á himnum.
Guðs barnið eitt ég er,
hann um mig heldur vörð,
og pabba og mömmu mér hann gaf
og mína fósturjörð.4
Aðrir sálmar sýna okkur hvernig lifa á eftir reglum fagnaðarerindisins, líkt og þessi vinsæli sálmur sem saminn var á tímaskeiði frumbyggjanna:
Ó, kom þú örugg Herrans heilög sveit,
hræðstu ei ókunn lönd.
Þó ferðar þinnar löng og ströng sé leit,
leiðir þig Drottins hönd.
Úr huga þokum því oss frá,
sem þreytu og kvíða valda má,
þá glaðnar hjarta og hugarþel.
Allt fer vel, allt fer vel.5
Sumir okkar kærustu sálma kenna okkur að fylgja þjónum Krists, hinum útvöldu spámönnum okkar tíma. Sálmurinn „Lof syngið honum“ hjálpar okkur til að mynda að muna eftir mikilvægi spámannsins Josephs Smith í endurreisn fagnaðarerindisins:
Lof syngið honum sem litið fékk Jahve,
leiddur af Jesú hann spámaður er.
Leiðina opnaði, þá sem vér þráðum,
þjóðanna konunga lof honum ber.6
Þegar við ígrundum þessa og fleiri sálma og lærum ritningartilvísanirnar sem skráðar eru í sálmabókinni, gerir það okkur kleift að læra fagnaðarerindið og minnast frelsarans í okkar daglega lífi.
Minnast friðþægingar hans
Ein mikilvægasta leiðin til að minnast frelsarans er að meðtaka sakramentið í hverri viku. Við syngjum sálm til að búa okkur undir þá helgu stund. Sakramentissálmar minna okkur á fórn Krists og mikilvægi hennar fyrir okkur:
Sjá deyja lífs vors lausnarann,
er lögmál rofið bætir hann.
Hann fyrir syndir fórn þá ber; …
svo frelsun mannsins verði hér.7
Og fórn þá Jesús fús til var,
að færa á sinni braut.
Hann saklaus vorar syndir bar,
og sýknun veröld hlaut.8
Ég hugsa um stungnar og blæðandi hendur hans
og hans náð og kærleik, er ber hann til sérhvers manns.
Ég máttinn hans tigna og miskunnar heilög vé,
uns mun ég við dýrðlega fótskör hans beygja kné.9
Séu sakramentissálmar sungnir í anda bænar og íhugunar, hjálpar það okkur að hugsa um frelsarann. Þeir gera okkur kleift að meðtaka sakramentið af einlægni og einsetja okkur að taka á okkur nafn Krists, að hafa hann ávallt í huga og að halda boðorð hans.
Einsetja sér að fylgja Jesú Kristi
Hollusta við að fylgja frelsaranum er boðskapur margra sálma okkar. Þegar við syngjum þessa sálma berum við föður okkar á himnum vitni um að við þráum að fylgja syni hans. Hugleiðið til að mynda þennan texta:
Faðir á himnum hve þökkum vér þér,
þú hefur sýnt okkur veginn þinn hér.
Þakklát við flytjum þér fagnaðarlag,
fögnum, gleðjumst við ljós þitt hvern dag.10
Sálmurinn „Ég fer hvert sem vilt að ég fari“ hefur álíka boðskap:
Ó, Drottinn minn, Guð minn, ég þjóna þér,
og þinni rödd hlýða ber,
ég veit að höndin þín hjálpar mér,
já, hvar sem mín leiðin er.11
Söngvar okkar—hvort heldur þeir eru til lofgjörðar, þakklætis, visku, minningar eða hollustu—eru Drottni þóknanlegir. Hann sagði: „Sál mín hefur unun af söng hjartans, já, söngur hinna réttlátu er bæn til mín, og henni mun svarað með blessun yfir höfuð þeirra“ (K&S 25:12).
Til allra lukku sagðí Drottinn ekki: „Aðeins fallegur söngur er bæn til mín“ eða „Ég hlusta aðeins á þá sem hafa tónlistarhæfileika.“ Hann lætur sig meiru skipta ásetning hjarta okkar hvað tónlistina varðar, líkt og við á um líf okkar, fremur en hæfileika okkar.
Hvað sem líður hæfileikum okkar, þá getum við öll tekið þátt í tónlist með sálmasöng. Og þegar við syngjum af öllu hjarta, komum við til Krists í sálmasöng.