2008
Hver er Jesús Kristur?
Mars 2008


Hver er Jesús Kristur?

President Boyd K. Packer

Þegar Jesús var með hinum Tólf í Sesareu Filippí, spurði hann þá: „Hvern segið þér mig vera?“ Símon Pétur, fremstur meðal postulanna, svaraði: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs“ (Matt 16:15–16). Pétur bar síðar vitni um að Jesús hafi verið „útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð“ (1 Pét 1:20). Hann var „í upphafi … hjá föðurnum og … er frumburðurinn“ (K&S 93:21).

Þegar áætlun föðurins—áætlunin um hamingju og hjálpræði (sjá Alma 34:9)—var kynnt (sjá Alma 42:5, 8), var einum falið að friðþægja til að sjá öllum þeim sem framfylgdu áætluninni fyrir endurlausn og miskunn (sjá Alma 34:16; 39:18; 42:15). Faðirinn spurði: „Hvern á ég að senda?“ Sá er kunnur varð sem Jesús svaraði fúslega: „Hér er ég, send mig“ (Abraham 3:27). „Faðir, verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu“ (HDP Móse 4:2).

Jörðin var sköpuð og gerð til reiðu: „Ég skapaði [jörðina] … með syninum, sem er minn eingetni,“ sagði faðirinn (HDP Móse 1:33; sjá einnig Ef 3:9; He 14:12; HDP Móse 2:1).

Nafngiftir Jesú Krists

Hann var kunnur sem Jehóva af spámönnum Gamla testamentisins (sjá Abraham 1:16; 2 Mós 6:3). Spámönnum var sýnd koma hans: „Sjá Guðslambið, já, son hins eilífa föður!“ (1 Ne 11:14–21; sjá einnig Jóh 1:14). Móður hans var sagt: „Þú skalt láta hann heita Jesú. Hann mun verða … kallaður sonur hins hæsta“ (Lúk 1:31–32).

Margar nafngiftir eru lýsandi fyrir guðlegt hlutverk hans og þjónustu. Sjálfur kenndi hann: „Ég er ljós og líf heimsins. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn“ (3 Ne 9:18). „Ég er … málsvari yðar hjá föðurnum“ (K&S 29:5; sjá einnig K&S 110:14). „Ég er góði hirðirinn“ (Jóh 10:11). „Ég er Messías, konungur Síonar, bjarg himins“ (HDP Móse 7:53). „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og … aldrei þyrsta“ (Jóh 6:35). „Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn“ (Jóh 15:1). „Ég er upprisan og lífið“ (Jóh 11:25). „Ég er … stjarnan skínandi, morgunstjarnan“ (Op 22:16), „[Jesús Kristur, lausnari yðar, hinn mikli] ÉG ER“ (K&S 29:1).

Hann er meðalgangarinn (sjá 1 Tím 2:5), frelsarinn (sjá Lúk 2:11), lausnarinn (sjá K&S 18:47), höfuð kirkjunnar (sjá Ef 5:23), hyrningarsteinn hennar (sjá Ef 2:20). Á efsta degi mun Guð dæma menn með Jesú Kristi samkvæmt fagnaðarerindinu (sjá Róm 2:16; sjá einnig Morm 3:20).

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn“ (Jóh 3:16); „vegna þessa felst endurlausnin í heilögum Messíasi og kemur með honum, því að hann er fullur náðar og sannleika“ (2 Ne 2:6).

Spámaðurinn Joseph Smith var oft spurður: „Hverjar eru grundvallarkenningar trúar þinnar?“

„Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins; og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“1

Auðmýkt Jesú Krists

Drottinn var á leið úr Getsemanegarðinum þegar hann var tekinn höndum, rétt fyrir krossfestingu hans. Á stund svikráðs tók Pétur sverð sitt upp gegn Malkusi, þjóni æðsta prestsins. Jesús sagði:

„Slíðra sverð þitt! …

Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla. Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?“ (Matt 26:52–53).

Meðan Drottinn var hæddur, honum misþyrmt, hann hýddur og loks krossfestur, var hann hljóður og auðmjúkur—fyrir utan eina áhrifamikla stund, sem opinberar kjarna kristinnar kenningar. Sú stund var í yfirheyrslunni. Pílatus, sem nú var óttasleginn, sagði við Jesú: „Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki, að ég hef vald til að láta þig lausan, og ég hef vald til að krossfesta þig?“ (Jóh 19:10).

Maður getur aðeins ímyndað sér hátign Drottins þegar hann mælti: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur“ (Jóh 19:11). Það sem gerðist í kjölfarið átti sér ekki stað vegna tilskipunarvalds Pílatusar, heldur vegna þess að Drottinn hafði vilja til að gangast undir það.

„Ég legg líf mitt í sölurnar,“ sagði Drottinn, „svo að ég fái það aftur.

Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur“ (Jóh 10:17–18).

Friðþæging Jesú Krists

Bæði fyrir og eftir krossfestinguna hafa margir menn fúslega gefið eigið líf með því að drýgja óeigingjarnar hetjudáðir. En enginn þeirra þurfti að líða það sem Kristur gerði. Á honum hvíldi byrði allra misgjörða mannkyns, allrar sektar þess. Og friðþægingin stóð eða féll með honum. Mögulegt var að sætta miskunn og réttvísi, sökum kærleiksverks hans, og viðhalda eilífu lögmáli og ná fram þeirri málamiðlun, sem er nauðsynleg til frelsunar hinum dauðlega manni.

Hann kaus að taka út refsinguna fyrir alla menn, fyrir allt ranglæti þeirra, ódæði, grimmd, ósiðsemi, öfuggahátt, spillingu, dráp, pyntingar og skelfingu—allt sem hefur gerst og allt sem mun gerast á þessari jörðu. Með því vali stóð hann frammi fyrir hræðilegu afli hins illa, sem hvorki var bundinn holdinu, né háður mannlegum sársauka. Það var Getsemane!

Við vitum ekki hvernig friðþægingin var útfærð. Enginn dauðlegur maður fylgdist með þegar hið illa snerist á hæl og huldi sig í skömm frammi fyrir ljósi þessarar hreinu veru. Öll illska megnaði ekki að byrgja fyrir það ljós. Þegar því var lokið sem krafist var, hafði lausnargjaldið verið reitt af hendi. Bæði dauði og helja létu af kröfu sinni gegn öllum þeim sem iðruðust. Loks voru menn frjálsir. Nú gat sérhver sál, sem einhvern tíma hafði lifað, valið að koma í það ljós og verða endurleyst.

Fyrir tilstilli þessarar altæku fórnar, „fyrir [þessa] friðþægingu Krists [geta] allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins“ (Trúaratriðin 1:3).

„Friðþægingin“ í ritningunni

Enska hugtakið atonement (friðþæging) er raunverulega þrjú orð: at-one-ment, sem merkir að færa í eina heild, færa til Guðs vegar, að sætta, að bæta fyrir.

En vissuð þið að hugtakið friðþæging kemur aðeins einu sinni fyrir í enska Nýja testamentinu? Aðeins einu sinni! Ég vitna í bréf Páls til Rómarbúa:

„Kristur er fyrir oss dáinn.

„ … Vér … urðum sættir við [Guð] með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir.

Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir“ (Róms 5:8, 10–11; leturbr. hér).

Aðeins hér í eitt skipti kemur hugtakið friðþæging (sáttargjörð hér) fyrir í enska Nýja testamentinu. Friðþæging af öllum hugtökum! Þetta var ekki óþekkt hugtak, því það hafði verið mikið notað í Gamla testamentinu í samhengi við lögmál Móse, en það kemur aðeins einu sinni fyrir í Nýja testamentinu. Mér finnst það undravert.

Mér er aðeins kunnugt um eina skýringu. Við snúum okkur að Mormónsbók til að fá hana. Nefí bar vitni um að Biblían hefði eitt sinn „[geymt] fyllingu fagnaðarboðskapar Drottins, sem postularnir tólf bera vitni um, en vitnisburður þeirra er í samræmi við sannleikann, sem býr í Guðslambinu. Og er þetta hefur borist um hendur hinna tólf postula lambsins frá Gyðingum til Þjóðanna, sérð þú myndun þeirrar voldugu og viðurstyggilegu kirkju, sem er öllum öðrum kirkjum viðurstyggilegri. Því að sjá. Mörg auðskiljanleg og mjög dýrmæt atriði hafa þeir fellt úr fagnaðarboðskap lambsins. Og margir af sáttmálum Guðs hafa einnig verið felldir brott“ (1 Ne 13:24, 26).

Jakob skilgreindi þessa voldugu og viðurstyggilegu kirkju þannig: „Af þessum sökum mun sá farast, sem berst gegn Síon, hvort sem hann er Gyðingur eða ekki, ánauðugur eða frjáls, karl eða kona, því að það eru þeir sem eru vændiskona allrar jarðarinnar. Því að þeir, sem ekki eru með mér, eru á móti mér, segir Guð vor“ (2 Ne 10:16).

Nefí sagði einnig: „Vegna þess að mörg skýr og dýrmæt atriði eru felld brott úr bókinni— … hrasa [mjög margir] einmitt vegna þess, sem fellt hefur verið úr fagnaðarboðskap lambsins, og það svo freklega, að Satan hefur mikið vald yfir þeim“ (1 Ne 13:29). Hann spáði síðan að hin dýrmætu atriði yrðu endurreist (sjá 1 Ne 13:34–35).

Og þau voru endurreist. Í Mormónsbók kemur hugtakið friðþægja fyrir 39 sinnum í öllum sínum formum. Ég vitna í aðeins eitt vers í Alma: „En nú var ekki hægt að gjöra miskunnaráætlunina að veruleika án friðþægingar. Þess vegna friðþægði Guð sjálfur fyrir syndir heimsins, til þess að miskunnaráætlunin næði fram að ganga og kröfum réttvísinnar yrði fullnægt og Guð væri fullkominn, réttvís Guð og einnig miskunnsamur Guð“ (Alma 42:15; leturbr. hér).

Aðeins einu sinni í Nýja testamentinu og 39 sinnum í Mormónsbók. Hvað annað getur betur staðfest að Mormónsbók sé vissulega annað vitni um Jesú Krist?

Og það er ekki allt. Hugtökin friðþægja og friðþæging koma fimm sinnum fyrir í Kenningu og sáttmálum og tvisvar sinnum í Hinni dýrmætu perlu. Fjörutíu og fjórar tilvísanir, sem hafa gríðarlega þýðingu. Og það er ekki allt! Hundruð annarra versa útskýra friðþæginguna.

Sjálfræði

Gjald friðþægingarinnar var reitt fram af Drottni án nauðungar, því sjálfræði er ríkjandi regla. Sjálfræðið verður að virða, samkvæmt áætluninni. Þannig var það frá upphafi, frá því í aldingarðinum Eden.

„Drottinn sagði við Enok: Sjá þessa bræður þína. Þeir eru mín eigin handaverk, og þekkingu þeirra gaf ég þeim, þegar ég skapaði þá, og í aldingarðinum Eden gaf ég manninum sjálfræði sitt“ (HDP Móse 7:32).

Adam valdi á mestu ögurstund lífs síns, hvað svo sem öðru leið í aldingarðinum Eden. Þegar Drottinn hafði boðið Adam og Evu að margfaldast og uppfylla jörðina og boðið þeim að eta ekki af skilningstré góðs og ills, sagði hann: „Þó mátt þú sjálfur velja, því að það er þér gefið, en haf hugfast, að ég fyrirbýð það, því að á þeim degi, sem þú etur af því, munt þú örugglega deyja“ (HDP Móse 3:17).

Of mikið var í húfi til að réttlætanlegt væri að þvinga manninn í hið dauðlega líf. Það væri andstætt lögmálinu sem nauðsynlegt var í áætluninni. Í henni var gert ráð fyrir að sérhvert andabarn Guðs hlyti dauðlegan líkama og á það yrði reynt. Adam varð ljóst að þannig yrði það að vera og valdi í samræmi við það. „Adam féll, svo að menn mættu lifa. Og menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta” (2 Nefí 2:25).

Adam og Eva hættu á það að margfaldast og uppfylla jörðina, líkt og þeim hafði verið boðið að gera. Sköpun líkama þeirra í mynd Guðs, sem aðskildar verur, skipti sköpun í áætluninni. Fallið sem fylgdi í kjölfarið var nauðsynlegt til að koma á skilyrðum hins dauðlega lífs og framfylgja áætluninni.

Nauðsyn friðþægingarinnar

Nefí sagði frá því hvað verða myndi um líkama okkar og anda, ef „algjör friðþæging“ væri ekki fyrir hendi. „Andar vorir,“ sagði hann, „hefðu hlotið að verða [djöflinum] líkir.“ (Sjá 2 Ne 9:7–10.)

Ég nota hugtakið algjörlega sjaldan. Það á sjaldan rétt á sér. Ég nota það nú—í tveimur tilvikum.

Fallið gerði það að verkum að friðþægingin var algjörlega nauðsynleg til að upprisa gæti átt sér stað og sigur ynnist á hinum jarðneska dauða.

Friðþægingin var algjörlega nauðsynleg til að menn gætu hreinsað sig af synd og sigrast á annars konar dauða, hinum andlega dauða, sem er aðskilnaður við föðurinn á himnum, því að ritningarnar greina átta sinnum frá því að ekkert óhreint fái dvalið í návist Guðs (sjá 1 Ne 10:21; 15:34; Alma 7:21; 11:37; 40:26; He 8:25; 3 Ne 27:19; HDP Móse 6:57).

Þessi ritningartexti: „Þó mátt þú sjálfur velja, því að það er þér gefið“ (HDP Móse 3:17), gerði Adam og Evu og niðjum þeirra ljósa alla áhættuna sem felst í jarðlífinu. Í jarðlífinu er mönnum frjálst að velja, en hverju vali fylgir afleiðing. Val Adams kallaði á lögmál réttvísinnar, sem krafðist þess að refsingin fyrir óhlýðnina yrði dauði.

En orðin sem mælt voru við yfirheyrsluna: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan“ (John 19:11), staðfesta að miskunnin er jafn rétthá. Frelsari var sendur til að reiða fram gjaldið og gera menn frjálsa. Áætlunin gekk út á það.

Kóríantum, syni Alma, fannst ósanngjarnt að refsing væri bundin synd, að refsing væri yfir höfuð nauðsynleg. Alma kenndi syni sínum og okkur áhrifaríka lexíu um endurlausnaráætlunina. Alma ræddi um friðþæginguna og sagði: „En iðrun gat ekki fallið í hlut mannanna nema til væri refsing“ (Alma 42:16).

Sé refsing gjald iðrunar, er ekki um dýrkeypt gjald að ræða. Afleiðingar, jafnvel þær sem sárar eru, eru okkur til verndar. Það verður okkur ljóst af hinu einfalda dæmi er barn grætur af sársauka eftir að hafa brennt fingur sína í eldi. Ef barnið fyndi ekki til, myndi það brenna til ösku.

Blessanir iðrunar

Ég segi fúslega að ég fyndi hvorki frið, hamingju, né öryggi í heimi þar sem ekki væri hægt að iðrast. Ég veit ekki hvað ég myndi taka til ráðs, ef ég gæti alls ekki afmáð misgjörðir mínar. Kvalirnar yrðu sárari en ég gæti borið. Ykkur kann að finnast annað, en það geri ég ekki.

Friðþægingin var gerð að veruleika. Alltaf og ætíð býður hún sakaruppgjöf frá misgjörðum og dauða, ef við aðeins iðrumst. Iðrun er útgönguákvæðið hvað hana alla varðar. Iðrun er lykill að innanverðum dyrum fangelsisins. Við höfum þann lykil í höndum okkar og búum yfir sjálfræði til að nota hann.

Hve gríðarlega dýrmætt frelsið er; hve fullkomlega gagnlegt sjálfræðið er.

Lúsífer beitir kænsku við að hafa áhrif á val okkar og blekkingum varðandi synd og afleiðingar. Hann og árar hans freista okkar til að við verðum óverðug og jafnvel ranglát. En hann megnar ekki—um alla eilífð megnar hann ekki, af öllum sínum mætti megnar hann ekki—að koma okkur fyrir kattarnef, án okkar eigin samþykkis. Ef sjálfræði hefði gefist manninum án friðþægingarinnar, hefði það reynst honum banvæn gjöf.

Sköpuð í hans mynd

Í 1. Mósebók, í bók Móse, í bók Abrahams, í Mormónsbók og í musterisgjöfinni er okkur greint frá því að hinn dauðlegi líkami mannsins hafi verið skapaður í mynd Guðs, aðskildur frá annari sköpun. Hefði sköpuninni verið hagað á einhvern annan hátt, hefði ekkert fall átt sér stað.

Ef menn væru aðeins skepnur, væri hægt að segja að engin ábyrgð fylgdi frelsinu.

Mér er vel ljóst að meðal lærðra manna er horft á dýr og steingervinga til að komast að uppruna mannsins. Þeir líta ekki inn á við til að finna andann þar. Þeir þjálfa sig í því að mæla samkvæmt tíma, þúsundum og milljónum ára, og segja að þær skepnur sem kallast menn, hafi orðið til fyrir tilviljun. Og þetta er þeim frjálst að gera, því þeirra er sjálfræðið.

En sjálfræðið er okkar líka. Við lítum upp og í geimnum sjáum við handaverk Guðs og mælum samkvæmt tímabilum, ráðstöfunum, óendanleika og eilífðum. Því fjölmörgu sem við ekki þekkjum tökum við á móti í trú.

En þetta vitum við! Allt var þetta skipulagt „áður en heimurinn var gjörður“ (K&S 38:1; sjá einnig K&S 49:17; 76:13, 39; 93:7; Abr 3:22–25). Atburðir, allt frá sköpuninni fram að lokavettvanginum, hafa ekki byggst á tilviljunum; þeir hafa byggst á ákvörðunum! Þannig var það ráðgert.

Það vitum við! Þann einfalda sannleika! Ef engin sköpun hefði verið og ekkert fall, væri hvorki þörf á friðþægingu, né frelsara sem málsvara. Þá hefðum við ekki þurft á Kristi að halda.

Tákn friðþægingarinnar

Blóði frelsarans var úthellt í Getsemane og á Golgata. Öldum áður var páskahátíðin innleidd sem tákn um það sem koma skyldi. Hana átti að halda hátíðlega um eilífð. (Sjá 2 Mós 12.)

Þegar plágu dauðans var úthellt yfir Egyptaland, var öllum ísraelskum fjölskyldum boðið að taka lamb—frumburð, karldýr, lýtalaust. Páskalambi þessu var slátrað, án þess að brjóta nokkurt bein þess, og blóði þess roðið á dyrastafi heimilisins. Drottinn lofaði að engill dauðans myndi ganga fram hjá þeim heimilum sem þannig væru merkt og deyða ekki þá sem innan þeirra væru. Þeir myndu bjargast fyrir blóð lambsins.

Eftir krossfestingu Drottins, gerði lögmál fórnar ekki kröfu um meiri úthellingu blóðs. Líkt og Páll kenndi Hebreum: „Í eitt skipti fyrir öll … eina fórn fyrir syndirnar … um aldur“ (Hebr 10:10, 12). Upp frá því átti fórnin að vera sundurkramið hjarta og sáriðrandi andi—iðrun.

Og páskahátíðin átti að vera ævarandi til minningar um sakramentið, þar sem við endurnýjum skírnarsáttmála okkar og meðtökum það til minningar um líkama lambs Guðs og blóðs hans, sem hann hefur úthellt fyrir okkur.

Það er ekkert smávægilegt að tákn þetta komi aftur fyrir í Vísdómsorðinu. Auk loforðsins um að hinir hlýðnu heilögu þessarar kynslóðar, muni hljóta heilsu og mikinn þekkingarauð, er einnig þetta: „Ég, Drottinn, gef þeim fyrirheit um að engill tortímingarinnar muni leiða þá hjá sér, eins og börn Ísraels, og eigi deyða þá“ (K&S 89:21).

Ég get ekki af rósemd sagt ykkur hversu mikils virði friðþægingin er mér. Hún vekur mínar innilegustu tilfinningar þakklætis og skuldbindingar. Sál mín leitar hans, sem gerði hana að veruleika—Krists, frelsara okkar, hvers ég er vitni. Ég vitna um hann. Hann er Drottinn okkar, frelsari og málsvari hjá föðurnum. Hann reiddi fram lausnargjaldið fyrir okkur með eigin blóði.

Í auðmýkt geri ég kröfu til friðþægingar Krists. Ég fyrirverð mig alls ekkert fyrir að krjúpa og tilbiðja föðurinn og son hans. Því sjálfræðið er mitt og þetta er það sem ég hef valið að gera!

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 49.