2008
Trú okkar
Mars 2008


Trú okkar

Hér á eftir eru stuttorðuð svör við fáeinum spurningum sem oft eru lagðar fyrir þegna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu:

Hver er trú Síðari daga heilagra varðandi Jesú Krists? Reis hann í bókstaflegri merkingu upp frá dauðum? Mun hann koma að nýju til að ríkja í dýrð á jörðu? Er nauðsynlegt fyrir menn að njóta náðar hans til að frelsast?

Þetta eru nokkrar þeirra spurninga sem fólk spyr oft að við fyrstu kynni þeirra af kirkjunni eða þegnum hennar. Þegar kirkjuþegnar svara spurningum eru þeir fyrst og fremst hvattir til að búa sig undir að hlýða á leiðsögn heilags anda. En eftirfarandi upplýsingar geta orðið ykkur að gagni er þið reynið að orða ykkar eigin svör.

Trúið þið á Jesú Krist sem lifði og kenndi í Landinu helga, líkt og skráð er í Biblíunni?

Já. Við trúum að Jesús hafi fæðst af Maríu, prédikað í Landinu helga í um þriggja ára þjónustutíð sinni, dáið á krossinum og risið upp frá dauðum, líkt og spámenn höfðu sagt fyrir um öldum fyrir komu hans (sjá dæmi: 1 Mós 49:10; Sálm 2:6–7; 22:16–18; 118:22; Jes 7:14; Míka 5:2). Við trúum að hann hafði þjáðst og friðþægt fyrir syndir alls mannkyns og gert iðrun og fyrirgefningu mögulegar (sjá Jes 53:4–6). Við trúum að hann hafi sigrað dauðann og að fyrir mátt hans geti allir karlar og konur risið upp í efnislegum líkama (sjá Rom 6:5; 8:11). Við trúum að allir synir og allar dætur Guðs, sem koma til jarðar geti, fyrir hlýðni við reglur fagnaðarerindis hans, hlotið sáluhjálp og dvalið að nýju hjá föður okkar og syni hans í ríki þeirra á himnum (sjá 1 Pét 3:18; Trúaratriðin 1:3).

Trúið þið að Drottinn hafi í bókstaflegri merkingu risið upp frá dauðum?

Já. Hundruð vitna sáu Jesú Krist í upprisnum líkama sínum, líkt og postular hans báru vitni um í Biblíunni (sjá Lúk 24:39; Jóh 20:20; 1 Kor 15:3–8). Hann þjónaði sem upprisin vera meðal sinna þúsunda „annarra sauða“ (sjá Jóh 10:16) í Ameríku og sýndi þeim sárin á höndum og fótum sínum og á síðu sinni og kenndi meðal þeirra í marga daga (sjá 3 Ne 11–28).

Hann birtist Joseph Smith yngri árið 1820, ásamt föður sínum. Drottinn veitti þessum unga spámanni leiðsögn við að endurreisa kirkju sína og fagnaðarerindið, vegna þess að kenningar manna höfðu breytt því eftir dauða hinna fornu postula. Joseph Smith og einn aðstoðarmanna hans gáfu þennan vitnisburð um Jesú Krist árið 1832: „Hann lifir! Því að við sáum hann, já, Guði til hægri handar, og við heyrðum röddina, sem bar vitni um, að hann er hinn eingetni föðurins“ (K&S 76:22–23).

Trúið þið að hann muni koma aftur til jarðar í dýrð?

Já. Hinar helgu ritningar vitna: „Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins“ (Post 1:11). „Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu“ (Job 19:25). „Hann kemur í skýjum himins til að ríkja á jörðunni yfir fólki sínu“ (K&S 76:63).

Við trúum einnig að við munum hljóta efnislegan líkama okkar að nýju, vegna upprisu hans: „Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta Guð“ (Job 19:26). „Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist“ (1 Kor 15:22). „Dauði Krists mun leysa viðjar þessa stundlega dauða, þannig að allir munu endurreistir frá þessum stundlega dauða. Andinn og líkaminn munu aftur sameinast í fullkominni mynd sinni“ (Alma 11:42–43).

Trúið þið að náð hans sé nauðsynleg fyrir sáluhjálp okkar?

Vissulega. Án náðar Jesú Krists getur enginn maður frelsast eða hlotið eilífar blessanir (sjá Róm 3:23–24). Allir munu rísa upp fyrir náð hans og allir þeir sem á hann trúa og fylgja honum, geta hlotið eilíft líf (sjá Jóh 3:15). Þar að auki geta helg fjölskyldusambönd okkar varað að eilífu fyrir náð hans (sjá Matt 16:19; 1 Kor 11:11; K&S 132:19). Þessar eilífu blessanir eru gjafir hans til okkar og við getum engan vegin áunnið okkur þær með einhverju sem við gerum sjálf.

Engu að síður er það skýrt í ritningunum að við hljótum allar blessanir náðar hans fyrir trú okkar og hlýðni við kenningar hans. Páll postuli kenndi að við getum ekki frelsað okkur sjálf; við þyrftum á náð Drottins að halda: „Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau“ (Ef 2:8–10).

Jakob útskýrði: „Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin. Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman“ (Jakbr 2:17, 24). Frelsarinn sagði því við unga ríka manninn, sem hafði verið hlýðinn og þráði eilift líf, að það væri meira sem hann gæti gert (sjá Matt 19:16–22; Lúk 18:18–23). Síðari daga heilagir trúa að náð Krists nýtist þeim að fullu sem trúa á Krist og breyta samkvæmt því sem hann kenndi. „Vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört“ (2 Ne 25:23; leturbr. hér).

Þótt góð verk okkar megni ekki að hreinsa okkur af synd, sýna þau einlægni trúar okkar á Jesú Krist og trúfesti okkar við að fara veginn sem hann fór.

Trúið þið að Joseph Smith sé á einhvern hátt jafn mikilvægur Jesú Kristi við að frelsa fólk?

Nei. Joseph Smith var mikilvægur spámaður í sögu mannkyns. Það sem hann afrekaði með guðlegri forsjá varð til að færa blessanir og þekkingu til jarðarinnar sem veitt hafði verið spámönnum Guðs á tímum Gamla og Nýja testamentisins en hafði glatast. Joseph Smith var líkt og spámenn til forna þjónn Drottins Jesú Krists, sem kenndi að sáluhjálp og allar blessanir eilífðarinnar hlytust aðeins með frelsara okkar: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna hvað varðar Jesú Krist, að hann dó, var grafinn og reis upp aftur á þriðja degi og steig upp til himins; og allt annað sem snertir trú okkar er aðeins viðauki við það.“1 Spámaðurinn kenndi einnnig: „Þegar við ígrundum heilagleika og fullkomleika hins mikla meistara okkar, sem greiddi veginn svo við kæmust til hans, já, með því að fórna sjálfum sér, verðum við snortin í hjarta yfir lítillæti hans.“2

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 49.

  2. Teachings: Joseph Smith, 54–55.